Þú þekkir þessa týpu

Þú þekkir þessa týpu

Hann er ekki góður í samskiptum og umgengni við náungann. Honum finnst að allt fólk eigi að fylgja reglum samfélagsins og þau sem ekki gera það séu óþolandi. Hann hefur enga þolinmæði fyrir þeim sem eru “öðruvísi” og engan skilning á því að þau geti ekki bara verið eins og annað “venjulegt” fólk.

Í fyrra sumar kynntist ég manni sem ég brátt fór að elska. Það tók reyndar svolitla stund því hann var ekki auðveldur í umgengni þessi elska. Eða, eiginlega var hann alveg óþolandi. Þó kom að því að hann fór að hleypa mér nær sér og sýna mér hver hann raunverulega var og hvers vegna var var einmitt svona.

Þessi maður heitir Ove. Hann byrjar hvern einasta dag á rannsóknarleiðangri um sitt nánasta umhverfi. Hann kannar hvort nokkur hafi lagt ólöglega í raðhúsahverfinu hans og hvort nokkrar reglur hafi verið brotnar.

Ove er frekar óþolandi karakter. Hann er týpan sem skammar alla sem ekki fara eftir reglum og horfir aldrei í hina áttina þegar eitthvað er ekki eins og það á að vera. Hann hefur tekið sér hlutverk eftirlitsmanns hverfisins án þess að hafa verið beðinn um það og han var rekinn úr stjórn húsfélagsins því hann var svo óþolandi nákvæmur með alla hluti.

Hann er ekki góður í samskiptum og umgengni við náungann. Honum finnst að allt fólk eigi að fylgja reglum samfélagsins og þau sem ekki gera það séu óþolandi. Hann hefur enga þolinmæði fyrir þeim sem eru “öðruvísi” og engan skilning á því að þau geti ekki bara verið eins og annað “venjulegt” fólk.

Fljótlega varð mér þó ljóst að hlutirnir voru ekki alveg svona einfaldir  því Ove var alltaf að reyna að taka líf sitt. Það gekk bara ekki því hann varð fyrir stöðugum truflunum frá fólki sem vildi honum eitthvað.

Ove þessi er ekki til í alvörunni því hann er aðal sögupersónan í bókinni “Maður sem heitir Ove”. Bókin er létt og skemmtileg, sorgleg og einstaklega falleg. Mér fannst ég ríkari eftir að hafa lesið hana.

En þótt Ove þessi sé sögupersóna þá held ég að mörg okkar þekki fólk sem líkist honum. Hann er þessi sem alltaf gerir vesen úr öllu. Þessi sem fylgist með því að enginn fari yfir á rauðu eða hendi tyggjói á götuna. Hann er þessi erfiði sem segir hlutina eins og þeir eru. Líka þegar það á alls ekki við. Hugmyndir hans um fólk virðast einkennast af fordómum og staðalímyndum og hann vill að fólk sé bara venjulegt og hagi sér venjulega.

Við þekkjum flest þessa týpu.

Það sem þó kemur í ljós þegar líður á bókina er að þrátt fyrir að hann flokki fólk eftir þröngt skilgreyndum staðalímyndum, sé á móti öllu sem hefur með nútímann að gera, finnist útlendingar óþolandi og unglingar ekki kunna neitt nú til dags, þá er hann er betur innrættur en hann lætur uppi. Þegar fólk í kringum hann lendir í vandræðum þá er hann fyrstur til að hjálpa þeim. Hann leyfir samkynhneigða stráknum að búa hjá sér þegar pabbi hans vill ekki sjá hann vegna kynhneigðar hans. Hann er sá sem bjargar öllu þegar útlenska konan í næsta húsi fær hríðir og enginn getur keyrt hana upp á fæðingadeild. Hann er maðurinn sem börnin og fólkið sem ekki á upp á pallborðið hjá öllum, elskar og veit að það á skjól hjá. Hann er samt ekki indæll á nokkurn hátt, hann Ove. Hann losnar bara ekki við þetta fólk sem alltaf er að leita til hans.

Í bókinni fylgjumst með Ove þroskast eftir því sem fólkið í kringum hann fer að hafa meiri samskipti við hann og nánast þröngva sér inn í líf hans.  Það eru samskiptin við fólkið sem ýtir Ove út úr skelinni sinni og neyðir hann til þess að taka raunverulega afstöðu til fólks og aðstæðna. Og þegar það gerist þá er Ove maðurinn sem hægt er að treysta á blíðu og stríðu.

Samverjinn og Ove
Ove er Samverjinn í sögunni um miskunnsama samverjann. Samverji þessi er sá eini sem kemur manninum til hjálpar sem búið er að ráðast á og berja ofan í götuna.

Samverjinn er Ove því að fólkið hafði fyrirfram gefnar hugmyndir um hann, hafði ekki alltaf verið gott við hann og gerði alls ekki ráð fyrir að hann myndi vera sá sem kæmi hinum slasaða til hjálpar.

Ove er Samverjinn og Samverjinn er Ove.

Bókin um Ove minnir okkur á að manneskjan er flókið fyrirbæri og ekki er allt eins og það virðist við fyrstu sýn eða fyrstu kynni.

Það er ekki alltaf til innistæða fyrir fallegu glansmyndinni sem mætir þér hjá manneskjunni sem virðist svo fullkomin og með allt á hreinu.

Og kannski er ekki allt sem sýnist hjá þeim sem sem virðist vera með fordóma fyrir öllu og öllum er og klaufalegur við fyrstu kynni.

Öll erum við bara að reyna okkar besta við að lifa af og lifa lífinu eins og okkur hefur verið kennt og okkur þykir rétt. Forsendur okkar eru ólíkar og útkoman einnig.

Samverjinn og Jesús
Samverjinn er fyrirmyndin því hann hjálpar ekki aðeins þeim sem eru vinir hans heldur bjargar einnig þeim sem eru í “hinu liðinu”. Og hinn raunverulegi Samverji er Jesús Kristur. Hann er sá sem fyrst og fremst kom okkur til hjálpar. Hann gaf okkur stærstu gjöfina af öllum; eilíft líf. Hann átti það sameiginlegt með Ove og Samverjanum, að hann var ekki beint líklegur til stórra verka á meðan hann lifði hér á jörð. Hann var bara venjulegur farandprédikari með stórkostlegan boðskap. Hann gerði undur og stórmerki en hann vildi ekki verða þekktur fyrir þau. Ekki grunaði heldur marga, ef nokkurn, að hann væri sá sem hann var. Guð.

Og Jesús kom okkur ekki aðeins til bjargar einu sinni. Hann gerir það á hverjum degi og mun aldrei hætta því.

Lífið og fólkið í kringum okkur er sífellt að koma okkur á óvart. Þau sem þú taldir vera traustustu vinina voru það kannski ekki þegar upp er staðið á meðan önnur koma okkur á óvart og sýna okkur hliðar á sjálfum sér sem við hefðum aldrei trúað að þau ættu til.

Mig langar því að hvetja ykkur til þess í dag, að vera opin fyrir fólki. Að vera opin fyrir því að fólk er ekki alltaf eins og það virðist við fyrstu sýn og leyfa því að koma ykkur á óvart.

Sá sem kemur okkur mest á óvart er Jesús Kristur. Það er oft erfitt að trúa að Jesús sé fær um alla hluti, en trúðu mér. Kraftaverk gerast og máttur trúarinnar, bænarinnar og Jesú Krists er meiri en við getum nokkurn tíma gert okkur í hugarlund.
Amen.