„Og Guð sá að það var gott“

„Og Guð sá að það var gott“

Sjöunda dag sköpunarverksins hvíldi Guð sig. Þá fyrst var sköpunarverkið fullkomnað. Guð gaf okkur fyrirmynd. Hvíldu þig! Farðu út í náttúruna, virtu fyrir þér dásemdir hennar, gróðursettu, opnaðu þig fyrir Guði „og sjá, það er harla gott.“
Bára Friðriksdóttir - andlitsmyndBára Friðriksdóttir
20. júní 2008

Sumarið er komið. Blíður blær andar um og það er svo gott. Stundum blæs hressileg hafgolan, það er líka gott því hún feykir burt menguninni og reyndar líka smámunum fögrum þegar hún nær sér upp. Okkur finnst voldugur vindurinn ekki alltaf góður, en hann hreinsar til. Hann er nauðsynlegt hreyfiafl í lífinu. Vindurinn er hluti af góðri sköpun Guðs. Ljóð Biblíunnar, (1. Mósebók 1) sem varpar upp líkingu af sköpunarsögu heimsins, endurtekur þetta stef við hvert sköpunarverk: „Og Guð sá að það var gott.“

Sköpunarsaga Biblíunnar er ekki að tjá vísindalega frá sköpun heimsins. Höfundur textans er ekki að svara purningunni hvernig eða hvenær varð sköpunin til. Hann er segja frá að það standi höfundur að baki þessu listaverki sem hefur tilgang fyrir manninn.

Raunvísindamenn þess tíma skildu takt himintunglanna í því að ein grunneining tímans væri sólarhringur og næsta eining sjö dagar. Þeir reiknuðu ár út frá tunglkomum og skeikaði það tímatal lítið frá okkar útreikningum.

Höfundurinn notaði vísindi síns tíma aðeins sem ramma til að styðja innihaldið. Það passaði honum formsins vegna að setja sögu af sköpun Guðs í sjö daga ramma og segja það í ljóði. Hann var aldrei að reyna að segja að þetta hefði gerst á sjö dögum okkar tímatals. Hann var að dásama furður Guðs, hversu dásamlega æðri máttur hefði komið öllu haganlega fyrir. Meitluð orð með hrynjanda ljóðsins segja frá sköpun himins og jarðar og alls gróðurs og skepnu á sex dögum.

Guð hefur gefið karlinum og konunni hlutverk. Þau eiga að vera frjósöm og gæta jarðarinnar. Við höfum ekki verið í vandræðum með frjósemina en hitt hefur þvælst fyrir okkur. Við höfum verið of gráðug að taka til okkar og ekki varðveitt náttúruna eins og skyldi. Maðurinn hefur ríkt yfir náttúrunni með neikvæðum formerkjum. Við höfum gengið of nærri móður jörð. Olíulindir heimsins að þverra og breytingar á loftslagi, sem eru að hluta til vegna mengunar, að breyta högum heimsins.

Við sjáum á veröldinni að það hefur eitthvað farið úrskeiðis. Þetta ástand mannsins að gera annað en honum er ætlað kallar Biblían synd. Hún lýsir sér í því að maðurinn er fyrst og fremst upptekinn af sjálfum sér. Hann hefur tapað sinni upphaflegu merkingu, að lifa sem hluti af sköpuninni í sátt við hana og í samfélagi við skapara sinn.

Maðurinn hefur ekki staðið undir væntingum Guðs, að gæta sköpunarverksins og leita skaparans. Þess vegna gaf Guð okkur Jesú. Hann kom niður á okkar plan og hjálpaði okkur að horfa til Guðs. Hann tók við mistökum okkar svo að við gætum létt af okkur byrðinni, rétt úr okkur, ávarpað Guð með hreinsaða samvisku og farið að hlúa að sköpuninni. Í samfélagi við Guð og ræktun náttúrunnar, hvort sem er jörð, dýr eða náungi þá finnum við samhljóm við lífið og það öðlast merkingu.

Sjöunda dag sköpunarverksins hvíldi Guð sig. Þá fyrst var verkið fullkomnað. Guð gaf okkur fyrirmynd. Hvíldu þig! Farðu út í náttúruna, virtu fyrir þér dásemdir hennar, gróðursettu, opnaðu þig fyrir Guði „og sjá, það er harla gott.“