Það er ást að sjá í gegnum þetta

Það er ást að sjá í gegnum þetta

Ein af ástæðum þess að þetta myndband var gert er sú að börn og unglingar fá mjög óraunhæfar hugmyndir í fjölmiðlum, tímaritum og á félagsmiðlum um það hvernig þau eiga að hegða sér og hvernig þau eiga að líta út. Þetta á reyndar einnig við um leikföng eins og barbie dúkkur og ofurhetjur sem líta ekki út eins og manneskjur en sífellt meiri kröfur eru um að við reynum að líkja eftir þeim í úliti.

Skrifaðar reglur og óskrifaðar Ég horfði á  myndband um daginn sem hægt er að nálgast á vef innanríkisráðuneytisins og heitir, Stattu með þér. Þetta myndband er hugsað fyrir 10 ára og eldri. Myndbandið fjallar í stutu máli um það að hvernig við stöndum með okkur sjálfum og setjum mörk, t.d. gagnvart ofbeldi og misnotkun. Og þetta eru hlutir sem mikilvægt er að byrja snemma að tala um við börn.

Ein af ástæðum þess að þetta myndband var gert er sú að börn og unglingar fá mjög óraunhæfar hugmyndir í fjölmiðlum, tímaritum og á félagsmiðlum um það hvernig þau eiga að hegða sér og hvernig þau eiga að líta út. Þetta á reyndar einnig við um leikföng eins og barbie dúkkur og ofurhetjur sem líta ekki út eins og manneskjur en sífellt meiri kröfur eru um að við reynum að líkja eftir þeim í úliti.

En bara svo það sé á hreinu, þá væri manneskja sem er með sömu hlutföll og barbie dúkka, ófær um að standa í fæturna. Hún myndi falla fram fyrir sig þar sem barmurinn væri hlutfallslega of stór miðað við allt annað og þá sérstaklega fæturna.

Önnur ástæða fyrir gerð þessara myndbands er aðgangur barna og unglinga að klámi og allt ofbeldið sem þrífst í samfélaginu okkar gegn börnum. Kannanir sýna að drengir eru margir farnir að horfa á klám um 11 ára gamlir en klámmyndir eru versta kynlífsfræðsla sem til er fyrir unglinga. Það má einnig segja að stór hluti tónlistarmyndbanda sem sýnd eru bæði í sjónvarpinu og á netinu séu farin að nálgast klámið óþægilega mikið þar sem konur dansa um hálfberar í undarlegum stellingum en karlmennirnir eru oftast fullklæddir. Einnig sýna rannsóknir að allt of mikið af börnum búi við ofbeldi á Íslandi.

Höfundar þessa myndbands gerðu annað myndband fyrir um tveimur árum sem heitir “Fáðu já” og það er hugsað fyrir eldri unglinga . Það er einnig aðgengilegt á heimasíðu innanríkisráðuneytisins.

Þessi myndbönd, sem ég hvet ykkur öll til að horfa á, fjalla um óskrifaðar reglur og skrifaðar. Í samfélaginu okkar eru til skrifaðar reglur sem segja að það má ekki beita nokkra manneskju ofbeldi. En það eru líka til óskrifaðar reglur um það hvernig við eigum að hegða okkur í samskiptum við hvert annað. Þessar óskrifuðu reglur eru oft svolítð erfiðar og flóknar einmitt vegna þess að þær eru ekki skrifaðar. En til þess að verða félagslega hæf verðum við að þekkja þær.

Boðorðin 10 og æðsta boðið Í Gamlatestamenntinu er að finna lögbók með 615 mismunandi reglum. Margar þessara reglna eiga ekki við í okkar kristna sið enda eru þau hluti af hinni gyðinglegu hefð og voru til fyrir þjóð Ísraels. Dæmi um þetta eru lögin um það hvernig þú átt að fórna dýrum fyrir Guð. Þarna eru ýmsar reglur er varða mataræði eins og að það má ekki neyta blóðs, borða svínakjöt, skelfisk og margt fleira. Þarna eru reglur um hverskonar hárgreiðslur og fatastílar voru leyfilegir. Og þarna eru reglur um að karlmaður megi ekki liggja með öðrum karlmanni eins og hann væri kona. Þessi regla fjallar ekki um samkynhneigð en með henni var að öllum líkindum verið að reyna að koma í veg fyrir að ungir drengir væru misnotaðir af eldri körlum eins og tíðkaðist að einhverju leyti í samfélögunum í kring.

En þarna eru aðrar reglur sem eru tímalausar og geta alltaf átt við eins og t.d. boðorðin 10.. Mér finnst þessi boðorð nokkuð góð og satt að segja frekar sjálfsjögð. Svona eru boðorðin tíu eins og ég skil þau:

Ekki búa þér til aðra Guði en Guð Ekki misnota nafn Guðs Taktu þér frí og hvíldu þig reglulega Berðu virðingu fyrir foreldrum þínum Berðu virðingu fyrir öllu lífi Ekki halda framhjá eða svíkja maka þinn, kærustu eða kærasta Ekki stela Ekki ljúga upp á fólk Ekki öfunda annað fólk Vertu sátt(ur) við þitt

Þetta hljómar bara nokkuð vel. Finnst ykkur það ekki? Þetta gæti vel átt við um allt fólk hvort sem það er kristið eða ekki. Það eru þessi fyrstu tvö sem fjalla sérstaklega um Guð og hvernig við umgöngumst Guð en hin átta eru nokkuð almenn.

Boðorðin tíu eru dæmi um skrifaðar reglur sem auðvelt er að fylgja. Einmitt vegna þess að þær eru skrifaðar og alls ekki flóknar.

Það sem síðan gerðist var að Jesús Kristur, sem kom í heiminn til að sýna okkur hver Guð raunverulega er, kom með annað boðorð sem hann sagði að væri það æðsta af öllum boðorðum. Hann sagði að það væri æðra en boðorðin 10. En vandinn við þetta nýja boðorð sem er æðra öllum öðrum er að það er frekar óskýrt. En það er svona: “Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig”.

Þetta boðorð sem við köllum tvöfalda kærleiksboðorðið er svolítið eins og óskrifuðu reglurnar. Það segir okkur nefnilega ekki nákvæmlega hvernig við eigum að haga okkur í öllum aðstæðum. Á guðfræðimáli eru þessar óskrifuðu relgur og hinar skrifuðu oft kallaðar lögmál og fagnaðarerindi. Þar sem lögmálið eru lögin og reglurnar sem eru skrifaðar og við getum bent á en fagnaðarerindið er frekar eitthvað sem við þurfum að túlka og fjallar um allt það sem Jesús boðaði. Góða boðskapinn.

Reglur og ást Lög og reglur eru nauðsynlega í öllum samfélögum fólks. Við verðum að hafa ákveðnar reglur svo að samfélagið virki og allt fari ekki í vitleysu. Umferðareglur eru t.d. nauðsynlegar. Sumar reglur eru þannig að það getur beinlínis verið lífshættulegt að brjóta þær. Þannig eru t.d. til reglur um það hvernig heilbrigðisstarfsfólki ber að bregðast við ef upp kemur ebólusmit. Ef þau fara ekki eftir þessum reglum þá geta þau átt á hættu að smitast sjálf af sjúkdómnum og smita aðra. Það eru til reglur Almannavarna um það hvernig bregðast skuli við þegar eldgos verður og það getur verið lífshættulegt að fylgja ekki þeim reglum.

Þannig eru flest lög í landinu og reglur hugsaðar til þess að vernda okkur. Og þannig held ég að boðorðin tíu séu einmitt hugsuð. Ef þú mátt ekki stela þá má ekki heldur stela frá þér. Þú átt að virða foreldra þína sem eru að gera sitt besta til að vera góðir foreldrar en það þýðir líka að börnin þín eiga að virða þig þegar þú verður foreldri.

Síðan geta komið upp aðstæður þar sem við verðum að brjóta reglur. Þú stoppar t.d. ekki á rauðu ljósi á gangbraut ef hinum megin er manneskja í neyð. Þú ferð þá bara yfir á rauðu, um leið og tækifæri gefst, og hjálpar henni. Til eru foreldrar og fullorðið fólk sem beitir börn ofbeldi. Við getum ekki borið virðingu fyrir þeim og leyft þeim að halda ofbeldinu áfram. Þannig eru allar reglur og lög einnig háð aðstæðum.

Og það er einmitt það sem æðsta boðorðið hans Jesú snýst um, að við hegðum okkur eftir aðstæðum og látum alltaf kærleikan fyrir náunganum, Guði og okkur sjálfum vera í fyrsta sæti. Þetta getur snúist um að setja mörk og við getum þurft að brjóta reglur til þess að koma einhverjum til hjálpar og til þess að vernda okkur sjálf.

Æðsta boðorðið snýst um ást.

Æðsta boðorðið snýst um standa með okkur sjálfum.

Æðsta boðorðið snýst um að koma öðrum til hjálpar.

Æðsta boðorðið snýst um að hafa Guð með í ráðum.

Það er engin ást í öllu því klámi sem börn og unglingar hafa næstum óheftan aðgang að t.d. í tónlistarmyndböndum. Það er engin ást í útlitsdýrkun og “fótósjoppi” sem fær okkur til að líða illa yfir að líta ekki út eins og barbiedúkkur eða súperman. Það er engin ást í ofbeldi.

Það er ást að sjá í gegnum þetta og standa með okkur sjálfum og náunga okkar og þiggja hjálp Guðs við það. Amen.