Djáknaþjónustan – Eitt í Kristi

Djáknaþjónustan – Eitt í Kristi

Ég skil djáknaþjónustuna ekki sem þjónustu fyrir aðra, heldur í félagi við aðra: Við tökum höndum saman, svo bæði geti gengið. Díakonían snýst um samfélag jafningja, samfélag fólks sem er eitt í Kristi. Þar sem slík hugsun fær að ríkja vex hin kristna kirkja.

Haft er eftir Marteini Lúther að ef allir þjónuðu náunga sínum væri heimurinn fullur af guðsþjónustu. Mér þykir vert að við sem störfum í hinni íslensku kirkju höldum þessum nánu tengslum kærleiksþjónustunnar og helgihaldsins á lofti. Hér er hjálplegt að hafa orð bandaríska guðfræðingsins Gordon Lathrop í huga, en hann telur það auka skilning fólks á díakoníunni ef það er minnt á að kristindómurinn á sér upphaf í máltíðarsamfélaginu, er í eðli sínu trúhneigð en ekki lífsskoðun, ekki heimspeki eða tækni til að fást við andlegan veruleika og engan vegin vara sem neytandi getur keypt á einhvers konar trúarbragðamarkaði. Þannig er djáknaþjónustan lífsstíll og köllun, en ekki tímabundið hlutverk.

Mynd Lathrops af máltíðarsamfélaginu dýpkar skilning okkar á eðli hins kristna safnaðar. Mörg þekkjum við þær aðstæður að ef einhver er veikur í fjölskyldunni og kemst ekki að matarborðinu þar sem fjölskyldan situr þá er honum eða henni færður matur inn í herbergi. Eðli samfélagsins sem kemur saman við altarið er hið sama. Þar hefst kærleiksþjónustan. Einstaklingarnir sem taka þátt í samfélaginu um Guðs borð eru sendir út til hinna sem komust ekki til messu. Það hversu alvarlega söfnuðurinn tekur þessari köllun sinni birtist svo í fyrirbæninni næst þegar hann er aftur samankominn við altarið, því þá greina þau sem sinna djáknaþjónustunni frá aðstæðum hinna veiku og þurfandi og koma orðum að stöðu mála í fyrirbæninni. Þannig verður hverjum og einum ljóst að við erum send í Jesú nafni og við leggjum allt í hendur Krists, trú þeim orðum sem okkur eru kunn að við erum eitt í Kristi.

Gríska orðið díakonía þýðir þjónusta en hin kristna kirkja hefur valið að gefa þessari kristilegu umhyggu dýpri skilning. Þannig er ítrekað í skýrslu Lútherska heimsambandsins – Þjónusta í síbreytilegu samhengi – að díakonían felur í sér verknað. Þar er minnt á að yfirlýsingar og góðar áætlanir duga ekki. Þá er staðhæft að eðli djáknaþjónustunnar felist í því að henni er sinnt af kristnu fólki og að hún beinir sjónum sínum að fólki í neyð. Áhugavert er að höfundar skýrslunnar segja að það sé ekki rétt að öll góð verk falli undir djáknaþjónustu. Slík víð skilgreining sé til þess fallin að díakonían tapi merkingu sinni, þynnist út frá því að vera lífsstíll, köllun hins kristna einstaklingsins, yfir í það að vera tímabundið hlutverk eða starf.

Vert er að minna á að Jesú kom ekki í þennan heim til að dæma, hann kom með fyrirgefninguna til okkar, frelsaði okkur manneskjurnar og opnaði okkur nýjan lífsveg. Þetta er hollt og þarft að hafa í huga fyrir hvern þann sem tekur skref í þá átt að gera djáknaþjónustuna að lífsstíl, því að hér reynist lífsnauðsynlegt að krjúpa við kross Krists, játa eigin syndir og afglöp hins kristna safnaðar sem hefur þurft að forgangsraða, ekki getað hjálpað öllum eða hreint út sagt gert mistök í eigin viðleitni.

Tengingin inn í guðsþjónustuna er kjarnaatriði djáknaþjónustunnar, því þar fær hver sá sem sinnir díakoníunni kjörið tækifæri til þess að leggja allt í hendur Drottins í þeirri sannfæringu að hann muni vel fyrir sjá. Ég skil djáknaþjónustuna ekki sem þjónustu fyrir aðra, heldur í félagi við aðra: Við tökum höndum saman, svo bæði geti gengið. Díakonían snýst um samfélag jafningja, samfélag fólks sem er eitt í Kristi. Þar sem slík hugsun fær að ríkja vex hin kristna kirkja.