Friður Guðs er kominn

Friður Guðs er kominn

Fátækt fólk af öllum heimsins gæðum er á ferð. Þau hvíla í fjárhúsi og eignast lítið barn. Á sama tíma opnast himnarnir og englar sem alla jafna eru ósýnilegir verða sýnilegir. Heimur efnis og orku sameinast í englasöngnum á Betlehemsvöllum. Þegar hirðarnir, þetta venjulega fólk við sína daglegur störf hafa orðið vitni að þessu undri sem englasöngurinn var, þá fara þau beint til Betlehem.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Og gleðilega jólahátíð!

Í aðdraganda jóla sagði kona ein við mig: “Það er ekkert til nema orka og efni”.

Mér urðu þessi orð afar umhugsunarverð og sagði við hana: “Já, það er hinn sýnilegi heimur og hinn ósýnilegi heimur, andinn og efnið.” Síðan hef ég hugsað mikið um þetta samtal í aðdraganda jóla því það er einmitt á jólum sem orka og efni sameinast á svo undursamlegan og eftirminnilega hátt.

Ef við hugsum okkur Guð sem uppsprettu allrar orku og allra krafta og alls hins ósýnilega þá verður Guð sýnilegur í efnisheiminum í Jesúbarninu sem fæddist í jötu í fjárhúsinu í Betlehem. Orkan varð efni.

Jóhannes guðspjallamaður orðar þetta í sínu jólaguðspjalli á þennan hátt:

“Og orðið varð hold, hann bjó með oss fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini frá föðurnum. Kærleikur er eitt af því sem við getum flokkað undir orku. Kærleikurinn er ósýnilegur, en við finnum fyrir krafti hans þegar við erum nærri þeim sem við elskum. Kærleikurinn verður sýnilegur þegar þau sem elska hvort annað sýna kærleika sinn. Kærleikurinn sem er ósýnilegur verður sýnilegur í samskiptum fólks.

Við skulum nú skoða jólin og líf Jesú allt út frá þessari hugsun.

Fátækt fólk af öllum heimsins gæðum er á ferð. Þau hvíla í fjárhúsi og eignast lítið barn. Á sama tíma opnast himnarnir og englar sem alla jafna eru ósýnilegir verða sýnilegir. Heimur efnis og orku sameinast í englasöngnum á Betlehemsvöllum. Þegar hirðarnir, þetta venjulega fólk við sína daglegur störf hafa orðið vitni að þessu undri sem englasöngurinn var, þá fara þau beint til Betlehem af því að þau vilja sjá með berum augum það sem þeim hafði verið sagt frá. Þau vilja sjá barnið með berum augum af því að þau trúa ekki fyrr en þau fá að sjá.

Það eru nokkur atvik í lífi Jesú sem minna á þetta. Við skírn Jesú gerist líka eitthvað undravert. Jesús gengur út í ána Jórdan og fær skírn hjá Jóhannesi skírara. Þá opnast himnarnir og rödd kemur af himni sem segir: “Þessi er minn elskaði sonur. Hlýðið á hann.” Það sama gerist þegar Jesús fer með nokkra vini sína upp á hátt fjall. Þá verður hann skínandi bjartur og rödd kemur af himni sem segir það sama.

Við kraftavek Jesú gerist líka þetta undraverða. Orka frá Guði umbreytir efnisheiminum og fólk fær lækningu.

Munið þið eftir sögunni af konunni sem hafði haft blóðlát í tólf ár? Hún gengur að Jesú á mannfjöldanum og hugsaði að ef hún aðeins fengi snert klæðafald Jesú þá muni hún verða heilbrigð. Og það gerðist. Jesús fann kraftinn ganga út af sér og spurði: Hvert snart mig? Þannig fann hann þegar lækningarmátturinn gekk út af honum. Fyrir kraft Jesú fékk fólk heilsu og líf.

Stórkostlegasta sönnun þess að Jesús hafi verið Guð holdi klæddur er upprisa hans. Þar varð sigur kraftar Guðs yfir efninu. Andinn lifir að eilífu. Jólin boða okkur allt þetta. Þess vegna fögnum við og gleðjumst á jólum. Þess vegna fögnum við og gleðjumst með efnislegum hlutum, góðum mat og gjöfum og með skrauti hið ytra, en við megum ekki gleyma hinu andlega.

Jólin boða okkur að kærleikurinn er kominn í heiminn. Friður Guðs er kominn.

En við þurfum að virkja hann til þess að hann verði að raunveruleika í lífi okkar. Það er okkar köllun, okkar hlutverk á jólum og alla daga. Guð gefi okkur öllum gleðilega jólahátíð.