Hvað getur heilagur andi gert í lífi mínu?

Hvað getur heilagur andi gert í lífi mínu?

Ef þú gerir það að vana þínum að opna þig daglega í bæn til Guðs. Ef þú lest í orði hans reglulega og biður um hjálp hans til að skilja það þá mun trúarblómið spretta í brjósti þínu og verk heilags anda fer að hafa áhrif á líf þitt. Áhrif til góðs og blessunar.

Ef þér elskið mig munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, anda sannleikans. Heimurinn getur ekki tekið á móti honum því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig. En þann sem elskar mig mun faðir minn elska og ég mun elska hann og birta honum hver ég er. Jóh 14.15-21
_________________

Fræ í frosti sefur, fönnin ei grandar því. Drottins vald á vori vekur það upp á ný. Elska hans gefur öllu líf og skjól. Guðs míns kærleiks kraftur, kom þú og ver mín sól. Sigurbjörn Einarsson

Í fræi er vísir að jurt. Á meðan fræið liggur í jörðu hefur það engin áhrif. Þegar það fær reglulega vökvun við nægilegt hitastig fara undrin hins vegar að gerast. Það fer að spíra. Frjóangar skjótast út frá því. Fræið reynir þannig að fá næringu úr moldinni og vökvanum. Fyrr en varir hefur agnarlítill frjóangi skotið rótum og upp af fræinu vex hið fegursta tré. Jesús notaði svo oft líkingu af tré þegar hann lýsti himnaríki. Hann sagði að himnaríki væri eins og tré sem gæfi fuglum himinsins skjól.

Það er hægt að nota þá líkingu um skírnina að í henni sé sáð fræi heilags anda í börnin. Pétur postuli talaði kröftuglega í fyrstu ræðu sinni sem hann var fylltur heilögum anda. Hann sagði við áheyrendur sem fundu til undan predikun hans:

Takið sinnaskiptum og látið skírast í nafni Jesú Krists svo að þið öðlist fyrirgefningu syndanna og gjöf heilags anda.“ Post.2.37a

Þar talar hann um að afleiðing skírnar og fyrirgefningar Guðs sé gjöf heilags anda. Sértu skírð eða skírður hefur þú þegið að gjöf heilagan anda. Honum var sáð í brjóst þitt eins og fræi. Þar býr heilagur andi í dvala þar til trúarleg vökvun á sér stað. Í hvert sinn er þú biður ertu að vökva garðinn sem andi Guðs býr í. Ætíð er þú lest í Biblíunni eða kristilega uppbyggjandi efni ertu að plægja moldina sem fræ andans er í. Til þess að heilagur andi fái að verka kröftuglega í lífi þínu þarftu að hlúa að þessu sviði eins og að nýgræðingi út í garði. Það þarf að vökva reglulega, reita arfa, losa um moldina, bera á o.s.frv. Ef þú gerir það að vana þínum að opna þig daglega í bæn til Guðs. Ef þú lest í orði hans reglulega og biður um hjálp hans til að skilja það þá mun trúarblómið spretta í brjósti þínu og verk heilags anda fer að hafa áhrif á líf þitt. Áhrif til góðs og blessunar.

Á hvítasunnudag voru 50 dagar liðnir frá upprisu Krists. Hann hafði sagt lærisveinum sínum að hann myndi ekki skilja þá eftir munaðarlausa, hann myndi senda þeim hjálpara í heilögum anda. Þeirra væri að bíða í bæn þar til andinn vitraðist þeim og þess minnumst við á hvítasunnudegi. Andinn birtist lærisveinunum svo kröftuglega að mennirnir sem höfðu í fimmtíu daga farið með veggjum og forðast fólk vegna áhyggju um handtöku og líflát, stóðu þennan dag fylltir heilögum anda og boðuð Krist og hann upprisinn kröftuglega. Í bænahópnum var megin uppistaðan lærisveinarnir ellefu auk nokkurra trúaðra karla og kvenna. En eftir að andinn fyllti líf þeirra bættust þrjúþúsund manns við trúarhópinn þennan dag og kristin kirkja var stofnuð. Eftir úthellingu andans voru lærisveinarnir fullir djörfungar í boðun sinni og voru tilbúnir að láta lífið fyrir trú sína. Allt var það fyrir áhrif heilags anda. Hugsið ykkur þessi fámenni hópur kom af stað trúarbylgju sem breiðst hefur út um alla jörðina. Það var fyrir verk andans sem starfar í kirkju sinni allt til þessa.

Mig langar að segja ykkur að einhverju leiti frá hvaða breytingu það hafði á trúarlíf mitt þegar ég fór að bjóða heilagan anda velkominn í líf mitt. Ég hafði heyrt af því að andi Guðs gæti hreyft við okkur og gefið okkur gjafir andans. Eftir það fór ég að biðja Guð að snerta mig með heilögum anda sínum. Í nokkrar vikur bar ég fram þessa bæn. Þá var það eitthvert kvöld að ég var í heimahúsi ásamt hóp af fólki á bæn. Við sungum fallega lofgjörðarsöngva, lofuðum Guð og báðum hann að snerta við okkur. Þá kom skyndilega yfir mig kraftur og vellíðan. Það er erfitt að lýsa þessu en upplifunin var eins og að vatn og olía hefðu samlagast. Mér fannst eins og samruni tveggja óskyldra efna hefði átt sér stað innra með mér. Þessu fylgdi mikil gleði og næstu daga og vikur fann ég hve það var miklu skemmtilegra að biðja en áður því það var eins og allt væri lifandi innra með mér og tæki svo vel á móti nærveru Guðs. Áður var bænin meira skylda, eintóm orð en nú var bænin orðin heit og mjúk, það fylgdi henni innri fylling og gleði. Síðan héldu árin áfram og ég fann hvernig andi Guðs græddi gömul sár innra með mér, því öll fáum við sár á lífsgöngunni, upplifum vonbrigði og mistök. Að þessum viðkvæmu þáttum í lífi mínu kom Guð í heilögum anda sínum. Hann var mildari en allt sem milt er og fór svo mjúkum höndum um það sem sárt var að það gat ekki annað en gróið. Og þegar ég átti ekki orð í bæninni gerðist það sem segir í Rómnverjabréfi Páls postula:

Eins hjálpar andinn okkur í veikleika okkar. Við vitum ekki hvers við eigum að biðja eins og ber en sjálfur andinn biður fyrir okkur með andvörpum sem engum orðum verður að komið. Róm.8.26

Jesús nefndi heilagan anda hjálpara. Hann sagðist ætla að senda hjálpara til lærisveina sinna. Gríska orðið parakletos sem þýtt er heilagur andi merkir huggari. Jesús sagði lærisveinum sínum líka að heilagur andi myndi fræða þá um hann og minna þá á allt sem Krists væri. Allt þetta gerir heilagur andi, fræðir, hjálpar, huggar, áminnir og leiðbeinir. Hann gefur fólki líka gjafir allt eftir því sem er gagnlegt fyrir uppbyggingu kristinnar kirkju. Hlutverk náðargjafanna er að gera öðrum gagn. Um gjafir andans segir Páll í 1. Korintubréfi:

Einum gefur andinn gáfu að mæla af speki, öðrum gefur sami andi kraft að mæla af þekkingu. Sami andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að sannreyna anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal. Öllu þessu kemur eini og sami andinn til leiðar og hann útbýtir hverjum einum eftir vild sinni. Kor. 8-11

Það er okkar að biðja um gjafir andans. Ef við erum opin og bjóðum Guð inn með heilagan anda þá kemur hann á sínum tíma, þegar við höfum afdráttarlaust sýnt að við þráum nærveru andans. Síðan er það andans að mæta okkur með þær gjafir sem hann vill.

Árangri af verki heilags anda í lífi okkar lýsir Páll svona: „En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki. Gal.5.22,23

Við megum biðja Guð að gefa að þessir eiginleikar megi vaxa í lífi okkar. Ef við erum einlæg í því megum við vera viss um að það fer ýmislegt gott að gerast innra með okkur. En okkar er að kalla eins og sálmaskáldið Björn Halldórsson:

Kom þú, andinn kærleikans, tak þú sæti' í sálu minni, svala mér á blessun þinni, brunnur lífs í brjósti manns. Andinn kærleiks, helgi, hreini, hjálp mér, svo ég deyi frá sjálfum mér og synda meini. Sæll í Guði' eg lifi þá.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.