Góður hirðir

Góður hirðir

Við erum nefnilega ekki aðeins kölluð til að krefjast þess af leiðtogum okkar, forseta, biskupi eða stjórnmálamönnum, að þeir séu vammlausir, góðir leiðtogar, heldur erum við sjálf kölluð til að axla ábyrgð.

Í guðspjalli dagsins segir Jesús að hann sé góði hirðirinn. Hirðum er lýst víða í Biblíunni en frægasta lýsingin og ein sú fegursta er í Davíðssálmi 23. Drottinn er minn hirðir. Það er gott að leyfa orðum sálmsins minna sig á gæsku Guðs. Drottinn gætir okkar og leiðir. Hann sér okkur fyrir öllum okkar þörfum, gefur frið og öryggi, uppörvar og leiðir, ekki vegna þess að við eigum það skilið, heldur vegna þess kærleika, sem býr í nafni hans. Í erfiðleikum, á myrkustu stundum lífsins, þurfum við ekki að óttast, því hirðirinn góði er hjá okkur með vernd sína, styrk, huggun og samfélag. Sú nærvera tekur aldrei enda. Sálmurinn er í samræmi við gleðiboðskap páskanna um hina tómu gröf og boðskap englanna: hann er ekki hér hann er upprisinn, því Jesús lifir og ríkir að eilífu. Hann er hjá sínum dag hvern alla eilífð.

Það er gott og trúarstyrkjandi að minna sig á að Guð er kærleikur. Hann vill börnum sínum aðeins það besta. Höfum það í huga þegar Jesús segir að hann sé góði hirðirinn.

Leiguliðinn

Ég tók eftir því að bóndanum þótti vænt um féð. Hann ræddi af sérstakri virðingu um eina ána. Hann kallaði hana forystuá. Hún tók af skarið þegar smalað var og leiddi féð inn í réttina. En það var ekki heiglum hent að ná henni, og ef henni sýndist svo gat hún stokkið svo hátt að réttarveggir héldu henni ekki. Annars var smalamennska þar sem ég var í sveit með hefðbundnu sniði. Smalarnir hóuðu og börðu höndum í síðurnar til að reka safnið. En er fé var á húsi á vetrum var allt önnur stemning, þá gat bóndinn kallað á féð og það hlýddi kallinu, vissi að von var á góðri gjöf.

Sú mynd sem ég á af bóndanum góða, er nálæg þeirri sem Jesús var að miðla áheyrendum sínum. Góði hirðirinn gætti hjarðarinnar og leiddi hana. Sauðirnir þekktu rödd hins góða hirðis og fylgdu honum.

Það er lítil rómantík yfir starfi hirðis og yfirsetu yfir ám. Starfið var kalsamt og erfitt og tófan sat um hjörðina. Þó syngjum við enn um Sigga, sem var úti með ærnar í haga og vakti yfir ánum þrátt fyrir ótta sinn. Frelsaranum er alvara er hann ræðir um leiguliðann, sem er ekki hirðir og á ekki sauðina. Hann flýr þegar hann sér úlfinn koma og leyfir honum að hremma sauðina. Hann gagnrýnir þá afstöðu sem felst í því ábyrgðarleysi að flýja af vettvangi í stað þess að horfast í augu við vandann og gera allt sem í hans valdi stendur til að hindra skaðann, bjarga þeim sem eru í hættu. Leiguliðinn er eins og skipstjóri sem fer með þeim fyrstu af sökkvandi skipi, í stað þess að sjá til þess að allir komist frá borði í björgunarbáta, áður en hann hugsar um sjálfan sig. Það er stór munur á leiguliðanum og hinum góða hirði. Jesús bendir á að góður hirðir fórnar sjálfum sér, heiðri sínum og lífi, fyrir sauðina. Allt er lagt í sölurnar. Það er ábyrgð.

Kröfur til annarra og okkar sjálfra

Þjóðkirkjan velur biskup um þessar mundir og þjóðin undirbýr forsetakjör. Í báðum tilfellum er leitað að góðum leiðtoga, sem getur stýrt annars vegar þjóðarskútunni og hins vegar kirkjuskipinu. Kirkjan biður Guð um handleiðslu og blessun í því sem öðru. Þó lög og reglugerðir lýsi hlutverki, embættisskyldum og ábyrgð, þeirra sem veljast í þessi embætti, eru væntingar til einstaklinganna sem bjóða sig fram oft háar og afar óraunhæfar. Forseti og biskup eiga að vera fullkomnar manneskjur, vammlausar, sameingingartákn, andlegir foreldrar og orðsnillingar, með öðrum orðum fullkomnir hirðar. Kröfurnar til þeirra eru miklar og ábyrgðin sem lögð er á herðar þeirra rík. Hvað er svo til ráða ef þau sem valist hafa til starfans reynast venjulegar manneskjur með tilfinningar og þarfir eins og ég og þú, og uppfylla ekki þær óraunhæfu kröfur sem til þeirra voru gerðar? Hvað gerum við ef þjóðarpúlsinn fer niður en ekki upp? Eins og raunin hefur verið og verður alla tíð.

Við erum reiðubúin að gera ríkar kröfur til annarra. En erum við tilbúin til að gera sömu kröfur til okkar sjálfra? Erum við tilbúin til að sinna skyldum okkar óaðfinnanlega á hverjum degi? Erum við tilbúin að reynast fullkomin í þeirri vinnu sem við störfum við? Eigum við ekki að vera fullkomnir foreldrar og uppalendur í daglegu lífi? Þegar við bendum á aðra með vísifingri beinast þrír fingur að okkur sjálfum.

Við erum nefnilega ekki aðeins kölluð til að krefjast þess af leiðtogum okkar, forseta, biskupi eða stjórnmálamönnum, að þeir séu vammlausir, góðir leiðtogar, heldur erum við sjálf kölluð til að axla ábyrgð. Að kristnum skilningi eigum við sjálf að vera góðir leiðtogar og hirðar. Við erum hvert og eitt kölluð inn í hirðishlutverk, sem foreldrar, afar og ömmur, sem starfsmenn, og hvar sem við erum kölluð til forystu.

Kristin trú kennir ekki að heimurinn sé fullur af góðum hirðum. Hún léttir af okkur þeirri pressu að við þurfum að vera fullkomin, vammlaus og endalaust kærleiksrík. Við erum ekki og getum ekki verið fullkomnar manneskjur. Kristin trú gerir ráð fyrir því að við gerum mistök, en séum um leið fús að fyrirgefa öðrum mistök þeirra. Guð stendur í gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð. (Jak.4.6) Á ögurstundu kemur í ljós hvernig við bregðumst við. Hlaupumst við undan merkjum eða stöndum við sterk? Margir hafa hlaupist undan, gefist upp og sjá eftir því. Aðrir hafa staðið af sér alla erfiðleika og freistingar. Hverju þakka menn það, sjálfum sér eða Guði? Hvað sem gerist er ný von, nýtt upphaf. Iðrun, afturhvarf og fyrirgefning er hjá Guði, því Guð er kærleikur. Aðeins einn segist vera og er góði hirðirinn. Hann fórnaði sér svo við gætum sótt hjálp og styrk til hans. Hann er æðri máttur, góður hirðir. Hjá honum er fyrirgefning, uppörvun og handleiðsla. Hann leiðir um rétta vegu. Okkur hættir stundum til að vera of nærsýn. Upprisan er stórkostlegasti atburður sem til er. Ekki aðeins að dauðinn var sigraður, heldur einnig það vald, sem fjötrar mannkyn, vald syndar og illsku. Á þeim grundvelli getur Jesús bent á sjálfan sig og sagt: Ég er góði hirðirinn, góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina.

Mínir sauðir heyra raust mína

Það er einn af leyndardómum trúarinnar, að við megum biðja og vera hljóð frammi fyrir Jesú, góða hirðinum. Í bæninni skynjum við rödd hans, frið og kærleika. Þegar við gefum okkur tíma til þess eru launin innri ró, gleði og kærleikur, sem streymir um hjartað. Kyrrðardagar og bænastundir eru stór þáttur í starfi kirkjunnar. Góði hirðirinn vill leiða okkur að vötnum þar sem við megum njóta næðis og hressingar fyrir sálina.

Í bókinni Konan með opna faðminn, sem fjallar um lífshlaup og æviminningar Immu á Hernum, segir hún frá því hvernig hún upplifði nærveru Guðs: „Ég setti mig í góðan stól og sat og talaði við Drottin. Ég lofaði hann og þakkaði honum fyrir hve undursamlegur hann væri. Nálægð hans kom og ég naut hennar. Þá var dagurinn svo auðveldur. Þannig óx ég í Guði.“ „Stundum er ég kannski alein og er að hugsa um þau sem mér þykir vænt um. Þá finn ég sterka nærveru Drottins. Þá finnnst mér hann bókstaflega snerta við mér og mér líður svo óskaplega vel. Augun fyllast af tárum og ég segi: “Ó, Jesús, þú ert undursamlegur. Ég elska þig.“ Þessi tilfinning er svo sterk.“ (Konan með opna faðminn,bls. 79,80)

Ég gef þeim eilíft líf

Í flestum kirkjulegum útförum á Íslandi eru lesnir einhver fjögurra guðspjallstexta sem handbók þjóðkirkjunnar geymir. Hinn fyrsti er páskaguðspjallið, þar sem konurnar koma að gröfinni, en engillinn tilkynnir þeim að Jesús frá Nasaret sé ekki þar, heldur er hann upprisinn. Hinir þrír eru úr Jóhannesarguðspjalli. Það sem guðspjöllin eiga sameiginlegt er vonin um eilíft líf. Þannig ómar boðskapurinn úr munni Jesú: „Því sá er vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf, og ég mun reisa hann upp á efsta degi.“ (Jóh.6.40) „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.“ (Jóh.11.25) „Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ (Jóh. 14.3,7)

Jesús lofar ekki að leiða eins og veraldlegir leiðtogar, brauðkonungar og stjórnmálamenn. Hann kemur okkur í samband við Guð á himnum. Hann segir: Ég þekki föðurinn og faðirinn þekkir mig. Við þráum að þekkja sjálf okkur. Um það vitna sjálfshjálparbækur og námskeið, sem leitast við að bæta líf okkar. Jesús þekkir Guð og Guð þekkir hann. Þegar Jesús segist þekkja Guð, er það ekki af afspurn, af bóklegri þekkingu eða af réttum skilningi. Hér er um að ræða sams konar þekkingu eins og börn þekkja foreldra sína og foreldrar börn sín, eins og hjón þekkja hvort annað eftir margra ára sambúð. Jesús vill hjálpa okkur að þekkja Guð, sem föður, foreldri, hjálpa okkur að eignast samfélag við hann. Í því felst handleiðslan. Við eigum aðgang að Guði, sýnilegan í Biblíunni og ósýnilegan í bæninni. Biblían, þó sérstaklega guðspjöll Nýja testamentisins, sýna okkur líf og starf, orð og æði, Jesú Krists. Í bæninni nálgumst við bæði föðurinn og soninn fyrir hjálp Heilags anda. Upprisan gaf okkur eilífan aðgang að góða hirðinum, sem elskar okkur. Aftar í 10. kaflanum í Jóhannesarguðspjalli, sem okkur er gefinn til íhugunar á þessum öðrum sunnudegi eftir páska, segir frelsarinn:

“27Mínir sauðir heyra raust mína og ég þekki þá og þeir fylgja mér. 28Ég gef þeim eilíft líf og þeir skulu aldrei að eilífu glatast og enginn skal slíta þá úr hendi minni. 29Faðir minn, sem hefur gefið mér þá, er meiri en allir[3] og enginn getur slitið þá úr hendi föðurins. 30Ég og faðirinn erum eitt.“

Kærleikur Guðs fylgir okkur í lífi og dauða. Fyrirheiti hans eru skýr: Ég gef þeim eilíft líf, enginn skal slíta þá úr hendi minni. Látnir ástvinir okkar eru tryggir í hendi góða hirðisins. Orð Jesú gefa huggun og von um endurfundi. Það er ekkert sjáfgefið í veröldinni og margir kvíða dauðanum og aðskilnaði við ástvini. Tóma gröfin auglýsir sigur Guðs. Dauðinn hefur ekki lengur vald yfir hinum látnu. Jesús er sá sem sigrað hefur. Hann fullvissar okkur: Þeir skulu aldrei að eilífu glatast. Jesús er góði hirðirinn. Hann lifir og er nálægur hverjum þeim sem leitar til hans. Leyfum kærleika hans að umlykja okkur og styrkja. Við þurfum ekki að óttast dauðann eða kvíða honum. Hirðirinn góði, Jesús Kristur, hefur sjálfur farið um dauðans dimma dal. Í hans hendi getum við verið örugg og sagt: Jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt, því þú ert hjá mér.

Fyrir ofan rúm gamallar konu var mynd af Jesú sem góða hirðinum. Hann hélt á litlu lambi. Hún kveið dauðanum. En eftir að hún gat séð sjálfa sig sem lambið í faðmi frelsarans rénaði kvíðinn. Jesús er góði hirðirinn. Kærleikur hans fylgir okkur daglega og um alla eilífð.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Því að svo segir Drottinn Guð: Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim. Eins og hirðir lítur eftir hjörð sinni þegar hún er á dreif í kringum hann mun ég fylgjast með mínu fé. Ég mun bjarga sauðum mínum frá öllum þeim stöðum sem þeir dreifðust til á hinum dimma og drungalega degi. Ég mun leiða þá burt frá þjóðunum, safna þeim saman úr löndunum og leiða þá heim til síns eigin lands. Ég mun halda þeim í haga á fjöllum Ísraels, í daladrögum og á hverju byggðu bóli í landinu. Ég mun sjálfur halda þeim til beitar í góðu haglendi, beitiland þeirra verður á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir leggjast og ganga í frjósömu haglendi á fjöllum Ísraels. Ég mun sjálfur halda fé mínu til beitar og sjá því fyrir hvíldarstað, segir Drottinn Guð. Ég mun leita þess sem villist og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða. Ég mun gæta hins feita og þróttmikla og halda því í haga eins og rétt er. Þið eruð hjörð mín sem ég held í haga. Ég er Guð ykkar, segir Drottinn Guð.( Esk 34.11-16, 31)

Þetta er köllun ykkar. Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans. „Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans.“ Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega. Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þið læknuð. Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar. (1Pét 2.21-25)

Guðspjall: Jóh 10.11-16

Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.