SMS-lán og fjárhagsleg heilsa

SMS-lán og fjárhagsleg heilsa

Hvað erum við sem samfélag að gera? Hér er aðeins eitt mál á dagskrá, SMS-lánin. Þau stuðla ekki að góðri „fjárhagslegri heilsu". Þessi lán eru ávísun á fjárhagsleg vandamál einmitt vegna þess hve auðvelt er að nálgast þau – bara eitt sms skeyti.

Farsími

Það heyrist víða að ekkert hafi breyst eftir Hrun og að ekkert nýtt Ísland hafi eða sé að fæðast. En margir halda í vonina um betra siðferði og að fólk hætti að framkvæma hluti sem eru siðlausir jafnvel þó þeir séu löglegir. En hvað erum við sem samfélag að gera? Hér er aðeins eitt mál á dagskrá, SMS-lánin. Þau stuðla ekki að góðri „fjárhagslegri heilsu". Þessi lán eru ávísun á fjárhagsleg vandamál einmitt vegna þess hve auðvelt er að nálgast þau – bara eitt sms skeyti.

Á heimasíðum tveggja fyrirtækja sem veita SMS-lán eru ágætar upplýsingar um hvað þau fela í sér. Allur kostnaður við lánin koma skýrt fram og það blasir við að hér er um himinháan kostnað að ræða. Lítil upphæð sem ekki er staðið í skilum með verður fljótt að hárri fjárhæð. Lán þarf að endurgreiða innan 15 daga. Sem dæmi má nefna að sé 10.000 króna lán ekki greitt innan 15 daga með 2.500 króna kostnaði, hækkar hún á 16. degi í 13.450 og tíu dögum síðar getur hún verið orðin 24.450 – þetta gerist á innan við mánuði frá því að lánið er veitt.

Fyrirtækið Hraðpeningar nefnir dæmi um „skynsamlega" notkun lána: „Að nota þjónustuna þegar kortinu er synjað í matvörubúðinni." Til að geta gert það verður maður að vera orðinn viðurkenndur viðskiptavinur fyrirtækisins! Fullyrt er að það að geta tekið svona lán „aukin þægindi".

Samkvæmt heimasíðu Kredia ehf. eru algengar spurningar: „Ef ég greiði lánið mitt í dag, hvenær get ég tekið næsta lán? Ef lán er greitt fyrir kl. 21.00 er unnt að sækja um annað lán um hádegisbil daginn eftir." Ég spyr: En hvað svo?

Á Norðurlöndum hefur verið hægt að taka SMS-lán um nokkurn tíma og þau hafa valdið miklum vanda og stuðlað að „skuldafangelsi" einstaklinga vegna lána sem upphaflega voru smáaurar. Aðstæður í samfélaginu í dag gera þessi lán enn hættulegri.

Ný fyrirtæki stuðla að auknum atvinnutækifærum og það má segja að slíkt eigi við um þau fyrirtæki sem bjóða SMS-lán. En er okkur sama í hverju ný störf felast?

Erum við föst í að gera það sem er löglegt en siðlaust?

Ég skora á Alþingi að samþykkja lög sem hindra slíka starfsemi. Ég er ekki að biðja um alræðisríki hér á landi heldur um ábyrga siðferðilega hegðun og skynsemi. Félagsmálaráðherra hefur tjáð sig um þessi lán í sama anda og greinarhöfundur.

Með því að skrifa þessa grein vil ég halda málinu vakandi og benda á hversu ósiðlegt er að bjóða fólki upp á falskar lausnir.