„Laskaður sannleikur“

„Laskaður sannleikur“

Lærisveinar Jesú fundu sig í sannleikanum þegar það hentaði þeim. Sannleikurinn var þeim ljós, en þeir kusu að virða hann ekki viðlits. Sannleikurinn var þeim óþægilegur, sár.

Í guðspjalli dagsins (Jóh. 16. 5-15) kemur meðal annars fyrir orðið – sannleikur.  Orð sem okkur er tamt á tungu en leggjum mismunandi skilning eða í besta eða versta falli frjálslega farið með í huga.   Ég fletti upp í  íslensku orðabókinni um  Sannleikann, þar segir – „frásögn sem skýrir frá því  sem gerðist í raun og veru, það sem er satt og rétt“ –  af því gefnu hlýtur sannleikurinn að vera okkur öllum hugleikin.  Sannleikurinn getur verið frelsandi og hann getur verið sár.   Við viljum dveljast í sannleikanum, ekki aðeins dveljast í honum heldur og að hann hafi sem víðasta skírskotun.  Sannleikurinn getur verið grimmur, bitið frá sér allt eftir hvernig hann sækir að okkur, eins og máltækið segir:  „Sannleikanum er hver sárreiðastur.“  eða sem ljúf sumargola sem strýkur hörund og veitir svölun í þrúgandi aðstæðum.   Sannleikurinn er alltaf ekki bara stundum þegar það hentar.   Sannleikurinn getur legið  á yfirborðinu, sýnilegur öllum.   Hann getur vísvitandi og eða óaðvitandi verið undir hrúgu af orðum sem reyna að kæfa hann, fela hann en hann er þarna sannleikurinn stundum þarf að hafa fyrir því að leita hans sem er rétt og satt.

Lærisveinar Jesú fundu sig í sannleikanum þegar það hentaði þeim.  Sannleikurinn var þeim ljós, en þeir kusu að virða hann ekki viðlits.  Sannleikurinn var þeim óþægilegur, sár.  Virtu hann ekki viðlits eins og barn sem tekur fyrir augu sér þegar það vill ekki horfast í augu við það sem veldur því ótta.   Þeir vildu ekki horfast í augu við sannleikann að meistari þeirra sem hafði deilt með þeim kjörum yfirgæfi þá, færi í burtu.  Það var ekki umflúið til þess að rými skapaðist til einhvers annars og meira sem þeir vissu ekki og kærðu sig kollótta um að vita.   Þeir efuðust um sannleikann því þeir héldu að þeir gætu haldið í það sem var, það sem þeir þekktu.    Það er mannlegt að halda í það sem var sem við þekkjum eða teljum okkur þekkja.  Ég segi teljum okkur þekkja og vita því að ég leyfi mér að efast um að við þekkjum til fullnustu það sem var.   Í dag stoppar það sem var, yfirleitt stutt við, áður en annað tekur við.  Í dag er um margt auðveldara að nálgast það sem er í augnablikinu og þá um leið vandast leitin af sannleiklanum.     Ég veit ekki hvort þið eruð að fylgja mér?   Það er fátt auðveldara en að gúggla það sem var þegar okkur  langar að vita og vera upplýst um það sem er  í dag.  Upplýsingamagnið er svo mikið og fjölbreytt að sannleikurinn vill verða afgangsstærð. Yfir það heila erum við mjög uppteknar manneskjur.  Eflaust á öllum tímum er manneskjan  upptekinn við brauðstrit, að hafa í sig og á.   Sækja fundi hér og þar um margvísleg málefni og við myndum okkur skoðanir  á hinu og þessu á meðan börnin eru í skólanum eða tómstundum í kirkjunni sinni, íþróttafélagi hverfissins eða utan.    Dagbókin full af komandi tíma sem hrópa á okkur að verða sinna, fjölskyldu, vinum og vinnu og tómstundum.   Sjaldan sem við stöndum okkur sjálf að því að vita ekki hvað er næst, eða við ætlum að sé næst á dagskrá.   Tíminn líður hjá með verkefnin mörgu sem við klárum okkur af gefum okkur ekki andartaksstund að íhuga hvers virði eða hverju máli það skiptir að sækja þennan eða hinn atburðinn eða fundinn.  Við bara erum og sinnum því sem okkur er ætlað og trúað fyrir, erum ekkert að velta fyrir okkur-hvað ef? 

Það er morgunljóst að upplýsingaáreiti eykst frá ári til árs.  Við náum með einhverjum hætti að halda okkur á floti með rekaldi því sem við köllum Facebook, Twitter, netmiðla, lesum fyrirsagnir og tjáum okkur í ræmur um það sem ekki var lesið.  Ef við lesum og setjum okkur inn í það sem við lesum ekki þá gerum við ekkert annað.   Ég tók mig til um árið og las nokkrar „Hrun“ bækur.  Ég ætlaði mér að vera upplýstur um og vera viðræðuhæfur um orsakir Hrunsins.  Mér til mikillar skeflingar eftir lesturinn varð ég litlu nær um orsakir hrunsins, en það kom ekki í veg fyrir að ég tjáði mig um orsakir og afleiðingu.

Ef við horfum okkur aðeins nær í tíma er mér minnisstætt og reyndar sláandi að sjá og heyra andartökum eftir að úrskurður Landsdóms varð gerður kunnugur fyrir nokkrum vikum síðan  upp á fjögurhundruð og eitthvað blaðsíður voru fréttamenn með tökumann með sér mættir og ráku hljóðnema upp að andliti grandalausa vegfarenda í verslunarKringlum og strætum borgarinnar í allt öðrum hugleiðingum og spurð spurninga eins og  „hvað fannst þér um úrskurð Landsdóms?“   Spaugstofan hefði ekki getað gert betur. 

Það er freistandi að ætla og reyndar oftar en ekki sagt fullum fetum að þetta sé einkenni nútímans - óþolinmæði og þurfa að hafa skoðun á öllu sem nöfnum tjáir að nefna án þess að eiga  innistæðu fyrir henni.  Skiptir ekki máli hvort  það er fatatíska, kvótamál, veiðileyfigjald, virkjanir eða ekki virkjanir, verg þjóðarframleiðsla, skuldvafningar, hagvöxtur  og fyrir framan eða aftan þessi orð sem okkur er reyndar misjafnlega tamt í munni og hvað þá skilningur er skeytt við orðinu, hugtakinu – „sannleikurinn um.“  Það er svamlað um á yfirborði málefnanna - snorklað og sagt hvað eina sem hverjum og einum dettur í hug, en engin er í raun að hlusta.  Að leggja við hlustir og heyra það sem ekki er sagt krefst athygli.   Það sem ekki er sagt er þarna, sannleikurinn, oftar en ekki dýpra en við flest treystum okkur eða leyfum okkur að fara.   Er einhver furða að Jesú hafi verið pirraður á lærisveinum sínum.  Hann búinn að vera tala sig hásan niðri á láglendi og upp á fjalli til að komast að því að það var bara alls ekki verið að hlusta á hann.  En samt voru lærisveinar hans tilbúnir að tjá sig, þeir væru virkir bloggarar ef þeir væru uppi í dag.

Jesú kvartar yfir því að engin hafi haft fyrir því að spyrja hann þrátt fyrir frá öndverðu hafi hann sagt hvað var ætlast til af honum; það var engin sem spurði „Hvert fer þú?“   Var þeim allveg sama.  Létu sér í léttu rúmi liggja hvert hann færi.  Var það fyrir ofan þeirra skilning og því ekki lagt í spurninguna „Hvert fer þú?“   Við göngum oft fram á þessa spurningu en erum ekkert endilega að tína hana upp og velta fyrir okkur svarinu vegna þess að við teljum okkur ekki hafa svar.  Þurfum við að svara fyrir það? 

Nútíminn kallar á svokallaða  „sérfræðinga“ til að segja okkur hinum á hvaða leið við erum sem þjóð.  Það fer eftir við hvern er talað að sjávarútvegur landsins fari á vonarvöl eða rís upp ef frumvarp ríkissstjórnar um veiðileyfisgjald nær fram að ganga.  Á íslensku kallast þetta hagsmunargæsla og hefur ekkert með sannleika að gera.  Við erum á leið til heljar eða til birtu alls eftir því hver er spurð eða spurður.  Við hin sem ekki erum spurð eða hliðrum okkur hjá því að svara sitjum eftir með laskaðan sannleikann í fanginu vitum ekki hvort við eigum að halda upp á hann eða kasta honum fyrir róða - sannleikanum.  Þar mætum við nefnilega öðru einkenni nútímans, mötuninni – okkur er sagt og við spyrjum ekki.    Í stað þess að leita sannleikans, hlusta á hann  og leyfa honum að vera með okkur í lífi og starfi skulum við frekar aka með hann bæjar og borgarenda á milli og grafa hann djúpt í Sorpu með öllu hinu sem við viljum losa okkur við því það er auðveldara en að hafa fyrir augum.

Við fæðumst til lífsins og deyjum til lífsins.  Í sjálfu sér ekki flókið. Miklu frekar það sem gerist á milli sem verður af eigin tilstuðlan flækjusamt þannig að við erum ekki að vinda upp á þá flækju spurningu eins og „Á hvaða leið er ég.“ Vissulega ef ég væri spurður úti á götu af fréttamanni sem sendur er út til að fylla upp í rýran fréttatímann gæti ég sagt að ég væri á leiðinni frá stað A til B en allt annað væri ágiskun og raunar allt það sem gæti gerst á milli þess að fara frá A til B.

Samanburður á nútímanum og tíma Jesú nær ekki lengra en að hinu sammannlega þætti á öllum tímum að við erum ekki endilega að hlusta á það sem sagt er við okkur og meðtaka það.  Upplýsingaflæðið í dag má jafna við hamfarir hugans sem skellur á okkur hvert andartak.   Það sem gerist og auðvitað það sem gerist ekki fáum við fyrirhafnarlaust í snjallsímann okkar, tölvuna, ljósvaka og á prentmiðlum sem eru í raun úreld fyrirbæri ef horft er til þess magns að upplýsingum sem berast til okkar hverja vökustund umbeðið eða ekki í tæki og tól sem við berum á okkur. 

Það er ekki skrýtið að margir vilja leiða þá hugsun, þá spurningu  hjá sér  hvert við erum að fara?  Vita ekki hvert stefnir?   Er það af hinu slæma eða hinu góða?   Sannleikurinn er sá að það gerðist ekki fyrir svo mörgum í samfélagi okkar, að gripið var nógu snemma inní þá reynd sem var og við tökumst á við í dag.  Sannleikurinn var sá að honum var haldið fyrir utan gyllta sali glaums og gleði ekki hleypt að í huga þótt heyrðist í honum fyrir utan og hann stæði hjá fyrir innan-sannleikurinn.    ver var þá hvatin og tilgangurinn að spyrja „Hvert fer þú?“    Afhverju að vera spilla ánægjunni.  Nú eins og með lærisveina Jesú þá setjum við lífið og tilveruna á Cruice Control- Fyrir ykkur sem ekki vita hvaða fyrirbæri það er skal upplýsast að það er græja í bíl sem  ökumaður stillir á ákveðin auðvitað löglegan hraða og heldur sig við hann  hvorki hraðar eða hægar.    Verra er að það eru ekki margir beinir og breiðir vegir á landinu okkar litla  þannig að í sífellu verður að halda vöku sinni að grípa inní ef ekki á illa að fara í kröppum beyjum.  Horfast í augu við sannleikann.   Með öðrum orðum „þægindin“ geta gert okkur værukær, að við hættum að sjá og skynja umhverfið og bregðast við á þann hátt sem leiðir af sér réttlátara samfélag.  Til þess að svo megi verða megum við ekki gleyma og eða óttast það, að hryggð leggist að í huga vegna þess sem var því við verðum að hleypa því að sem er.  Það sem var þarf sitt rými því á því er byggt sem framundan er.   Jesús kom í heimin ekki til að yfirgefa ha

n heldur til þess að vera í honum.  Við mennirnir yfirgáfum hann en hann ekki okkur.  Þess vegna varð hann að fara til þess að vera.  Í hryggð augnabliksins hlustuðu lærisveinar hans ekki á sannleikann.  Sannleikurinn var sá að þeir voru óttaslegnir.  Ótti er óttalegur sem bæði bindur hendur og aftrar sýn á veruleikann það sem var og ekki síst það sem verður að vera.  Frásögnin í guðspjallinu um viðbrögð lærisveina Jesú sem fundu sig í ótta varpar ljósi á þann sannleika sem áður segir í Íslensku orðabókinni „frásögn sem skýrir frá því  sem gerðist í raun og veru, það sem er satt og rétt.“  Það segir heldur ekkert um að sannleikurinn sé ætíð okkur að skapi, sem um leið dregur ekki úr vægi hans.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda.  Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.  Amen