Pistlar um bænina: Erfiðleikar bænalífsins

Pistlar um bænina: Erfiðleikar bænalífsins

Lærisveinarnir báðu Jesú að kenna sér að biðja svo að bænin vafðist eitthvað fyrir þeim auk þess sem þeir sáu Jesú biðja og að hann fékk styrk af bæninni. Þetta eru nokkur orð til þreyttra biðjanda um hvernig hvíla má í bæn í Jesú nafni.
Guðmundur Guðmundsson - andlitsmyndGuðmundur Guðmundsson
24. október 2011

Hvað er það sem gerir þér erfitt fyrir með bænina? Það má ekki fara fyrir okkur eins og fyrir manninum sem var að læra að hjóla í húsagarði. Hann sá stein á planinu og var svo upptekinn af því að hjóla ekki á hann að það endaði með því að hann rakst á steininn og féll um koll því að öll athygli hans var á vandamálinu. Vandinn er til að varast hann en listin að biðja er jafnvægislist sem við þurfum að ná tökum á.

Lærisveinarnir báðu Jesú að kenna sér að biðja svo að bænin vafðist eitthvað fyrir þeim auk þess sem þeir sáu Jesú biðja og að hann fékk styrk af bæninni. Í bók sem bænamaðurinn Hallesby skrifaði og hefur verið nefnd Heimur bænarinnar valdi hann undirtitil: “Orð til þreytra biðjenda”. Hann vildi beina lesendum sínum að fagnaðarerindi bænarinnar með leiðbeiningum sínum. Bænin er að njóta samfélags við Guð, að hvíla í Guði, það ætti að vera okkur eins auðvelt og að anda.

Jesús hvetur okkur til bæna með mörgum orðum og það gerðu postularnir líka sem höfðu verið hjá Meistara bænarinnar: “Biðjið og yður mun gefast. Leitið og þér munuð finna. Knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða, því að sérhver sá öðlast sem biður, og sá finnur sem leitar, og fyrir þeim mun upp lokið verða sem á knýr...” (Matt. 7.7-11). Sex sinnum segir Jesús sama hlutinn til þess að við skiljum að hann vilji að við biðjum hann. “Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað, sem þér viljið, og það mun veitast yður.” (Jóh. 15.71). Páll postuli sá mikli bænarinnar maður segir: “Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gerið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni ásamt þakkargjörð”  (Fil. 4.6).

Vandi bænarinnar hefur tilgang eins og Hallesby bendir á:

“Sú sára og hörmulega reynsla í bænalífinu, sem ég hef nefnt hér að framan, er eflaust flestum okkar nauðsynleg, að minnsta kosti óhjákvæmileg sem liður í þeirri sjálfstæðu reynslu, sem við verðum að afla okkur í bænalífinu. Hún er líklega einn þáttur þeirrar þjálfunar, sem er skilyrði til þess að geta lifað þroskuðu bænalífi.” OH s. 33
Einn algengur vandi er að við ætlum okkur að hjálpa Guði að bænheyra okkur. Það er óskaplega þreytandi staða. Það þarf ekki lengi að hugleiða hana til að sjá þvílíkt annríki það felur í sér. Biblían hefur að geyma skínandi dæmi um hvernig fara á að. Það er María móðir Jesús í brúðkaupinu í Kana (Jóh. 2.1-10). Sagan er sögð til að kenna okkur að biðja eins og hún. Hún fer með vandkvæði sín til Jesú. Hún segir honum frá skorti og vanda vina þeirra Jesú sem voru að komast í mikil vandræði. En svo gerir hún ekkert meira. Það er Guðs að bænheyra en það er ekki okkar að ganga inn á verksvið hans. Merkilegt að við skulum ekki átta okkur á því. Þannig áköllum við Guð í neyð okkar og treystum honum.

Annar vandi okkar er að við höfum tilhneigingu til að segja Guði fyrir verkum. Þetta hljómar ótrúlega en hver kannast ekki við að setja Guði úrslitakosti eða að við ætlum að þvinga hann til að fara að okkar vilja. Við lendum í ógöngu með þetta atriði þar til við heyrum stundum hörkuleg orð Guðs og leiðréttingu. Bæn er auðmjúk, þó að hún geti verið áköf og ágeng, þar sem við gerum óskir okkar kunnar Guði. María gerði enga tilraun til að leggja til hvernig Jesús átti að bænheyra hana, engar ábendingar um vatnskrukkurnar eða aðrar lausnir. Biðjandi maður má vera algjörlega ráðalaus í bæn sinni. Það er Guðs að finna lausnina. Og þannig nær biðjandi maður að hvíla í trú og vissu.

Þriðja atriði sem ég vil nefna er að við gleymum að biðja í Jesú nafni. Stundum verður bænin sæl og góð, umhyggjan glæðir hjarta okkar, við berum allt og alla fyrir brjósti á bænastund. En þegar tilfinningin er rokin út um gluggann og eftir stendur aðeins erfiðið uppgötvum við að bænin var ekki lengur í Jesú nafni. Hvað felur það í sér? Ég er ekki verðugur að koma fram fyrir Guð. Ég hef ekkert fram að færa eða eitthvað það til að bera að Guð heyri bæn mína. Þannig má ég koma, jafnvel þegar mér er um megn að trúa. Bænin í Jesú nafni byggir á bæn Jesú. Jesús biður í hjarta okkar, áreynslulaust, þannig lifir andi bænarinnar í okkur. Og þegar við kunnum ekki að orða bænina biður andinn með andvörpum sem ekki verður orðum að komið. Þannig verður bænina hvíldarstund, jafnvæginu er náð milli mín og Guðs, þar sem Guð er Guð og ég er biðjandi maður og það er í góðu lagi að biðja þannig með frelsara sínum, í Jesú nafni. Þá heyri ég hans bænamál í minni bæn.