Njótum og elskum núna

Njótum og elskum núna

Kveðjan berst mann frá manni, allir óska náunga sínum gleði á jólum. Við köstum kveðju á vinnufélagana síðasta dag fyrir jólafrí, við kveðjum kunningja með þessari ósk, sem við hittum á harðahlaupum í jólainnkaupum á Þorláksmessu. Við förum inn á sjúkrastofnun, vitjum ættingja og bjóðum þeim gleðileg jól. Við setjumst örþreytt við matarborðið á aðfangadagskvöld og óskum ástvinum okkar gleðilegra jóla. Á þeirri stundu er eins og allt verði innilegra, betra. Þá eru jólin hafin og þá er allt gott. Atið er frá, og það sem við náðum ekki að gera fyrir jól, það verður ekki gert, en við erum samt sæl hérna innst inni, því það er runnin upp stundin með fjölskyldunni. Við höldum heilög jól.

Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.

Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins, sögðu hirðarnir sín á milli: Förum beint til Betlehem að sjá það, sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss. Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið, sem lá í jötu. Þegar þeir sáu það, skýrðu þeir frá því, er þeim hafði verið sagt um barn þetta. Og allir, sem heyrðu, undruðust það, er hirðarnir sögðu þeim. En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það. Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það, sem þeir höfðu heyrt og séð, en allt var það eins og þeim hafði verið sagt. Lúk 2.14-20

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

I

Nú er stundin upp runnin, helgin er gengin í garð. Við höldum heilög jól.

Kæri söfnuður, gleðileg jól!

Kveðjan berst mann frá manni, allir óska náunga sínum gleði á jólum. Við köstum kveðju á vinnufélagana síðasta dag fyrir jólafrí, við kveðjum kunningja með þessari ósk, sem við hittum á harðahlaupum í jólainnkaupum á Þorláksmessu. Við förum inn á sjúkrastofnun, vitjum ættingja og bjóðum þeim gleðileg jól. Við setjumst örþreytt við matarborðið á aðfangadagskvöld og óskum ástvinum okkar gleðilegra jóla. Á þeirri stundu er eins og allt verði innilegra, betra. Þá eru jólin hafin og þá er allt gott. Atið er frá, og það sem við náðum ekki að gera fyrir jól, það verður ekki gert, en við erum samt sæl hérna innst inni, því það er runnin upp stundin með fjölskyldunni. Við höldum heilög jól.

II

Það er samt ekkert sjálfsagt að setjast sæll með fjölskyldunni við veisluborðið á aðfangadagskvöld. Það getur svo margt spilað inn í, lífið er ótrúlega óútreiknanlegt.

Mikil streita fyrir jólin, langur vinnudagur foreldra, miklar kröfur á börn og fullorðna sem við sjálf setjum okkur, geta haft þau áhrif að kergja er hlaupin í alla.

Nútímabörnin sem mörg hver halda að peningar vaxi á trjánum gera ótrúlegar kröfur um jólagjafir. Ég ranka stundum við mér þegar ég heyri mín eða önnur börn tala, og spyr: Var þetta svona hérna áður fyrr? Lagði ég fyrir óskalista, var ég beðin um að gefa skýr skilaboð um það sem ég vildi fá?

Það var bara ekkert inn í myndinni hér áður fyrr að börn væru spurð að því hvað þau langaði í. Þau fengu gjafir, og það var ægilega spennandi og yfirþyrmandi erfitt að bíða eftir að aðfangadagur liði, því um kvöldið var hátíðin og þá voru margar dýrindisgjafir dregnar upp úr jólapappír. Guði sé lof fyrir það að spenningurinn og tilhlökkunin er enn söm við sig.

Þegar börnin vaxa úr grasi og vita að á bak við jólagjafir foreldranna er oft blóð, sviti og tár, þá leggja þau kröfurnar til hliðar og skyggnast um eftir öðrum gæðum. Þá er samræðan við börnin og nærveran dýrmæt. Nærveran er svo mikils virði þegar allt er á fljúgandi ferð. Uppkomin börn flogin úr hreiðrinu og samverustundir fáar. Þá ríður á að allir dragi fram spariandlitið og láti kærleikann fljóta. En það er ekki alltaf svo auðvelt ef að álagið hefur farið langt úr hófi fram á aðventunni. Á allnokkrum heimilum landsins hefur verið rifist hraustlega á aðventunni. Hver á að fara út með ruslið, hver ætlar að skrifa jólakort og hvenær, hvenær á að komast á jólaleikrit barnanna og getur einhver munað eftir namminu og gosinu sem þau mega koma með á kertadaginn í skólann. Hvernig eiga útivinnandi foreldrar að sinna börnunum sínum fjórum á aðventu þegar allt er með öðru sniði en venjulega? Og hvernig eiga börnin að vera stillt og þæg þegar allt er gengið úr sínum venjulegu skorðum? Er hægt að koma sér saman um nýja jólasteik þegar rjúpan kostar yfir 8000 krónur kílóið? Því var nú sem betur fer bjargað á síðustu stundu með innfluttum rjúpum og hefur kannske bjargað einhverri sálarheill fyrir jólin. Er eitthvað skrítið þó að sum hjónabönd gliðni í þessu neyslusamfélagi okkar?

Er nokkuð skrítið þó að sum börn gangi sjálfala á heimilinu þegar uppeldinu er fjarstýrt í gegnum síma?

Þessar spurningar leita á huga prests um leið og hann undirbýr sig með lestri og góðri tónlist undir að nema jólaundrið í Jesúbarninu.

Þegar ég hafði farið í tíu búðir til að leita að sparilegri peysu á níu ára dóttur mína utanyfir kjól og fann ekkert var mér hugsað til þess hvort ég gæti sætt mig við að sparipeysur á níu ára stúlkur og eldri væru hálfgengsæir magabolir.

Ég er ekkert hissa þó að þjóðfélagið sé stundum að fara á límingunum og ég væri ekkert hissa að heyra sögur frá ungu fólki sem segði aðfangadagskvöld hafa verið friðlausa stund eða hálf vonlaust.

Þessi litla þjóð þarf að taka sér taki svo að þjóðarsálin kollsteypist ekki.

Hvaða ægilegu læti eru þetta í okkur og hvað færir hamagangurinn okkur?

Eiga jólin ekki að vera hátíð ljóss og friðar?

Við vitum öll svarið en samt sogumst við inn í þessa hringiðu. Fyrsta ávarp engilsins sem flutti fyrstur fagnaðarboðin um frelsarann á jörðu voru: "Óttist ekki"

Við vitum öll að hraðskreið hringekjan fyrir jól vekur ótta þegar ferðin er orðin of mikil.

Afhverju erum við að kalla á andhverfu jólaboðskaparins inn í líf okkar? Spyr sá sem ekki veit. Reynslan á eigin skinni og annarra segir mér að það er svo ótrúlega auðvelt að sogast inn í þetta andrúm erils sem sýgur úr manni alla helgi og hvíld en fyllir hugann myrkri og óyndi.

Lífið er stutt og hver stund dýrmæt. Við eigum aðeins andrúmið sem við drögum að okkur á þessari stundu. Lífið er núna, lífið er okkur gefið af skaparanum, lífið er okkur gefið til að njóta, til að elska og vera elskuð.

Njótum og elskum núna.

Leggjum rækt við ástina í okkar garði. Stillum hugi okkar inn á það að vera saman til að elska og njóta nærveru hvers annars.

Reyndar er það svo merkilegt með óútreiknanleika mannlífsins að ég held að mjög víða slakni spennan þegar kirkjuklukkurnar hringja jólin inn. Það leggst einhver leyndardómsfull helgi yfir mannlífið og við erum tilbúin til að gefa og njóta einmitt þessa kvöldstund. Við erum tilbúin að slíðra sverðin og þiggja og veita almennilegheit og góða nærveru þessa kvöldstund.

Sumum er það reyndar um megn, skammdegisdrunginn, jólakvíðinn eða persónulegir erfiðleikar draga marga niður í holu þunglyndis eða drykkju. Þau eiga erfitt með að vera sjálfum sér eða öðrum ánægjuauki.

Lífið er óútreiknanlegt, það er tækifæri og gjöf sem rétt er til þín úr hendi Guðs á hverjum morgni. Opnaðu augun með þakklæti og bæn um blessun, styrk og varðveislu þennan dag. Biddu um að þú megir verða öðrum blessun í dag.

Slíkur undirbúningur undir daginn tekur aðeins eina mínútu, en veitir ómælda velsæld inn í daginn.

III

Hugum að orðum engilsins á fyrstu jólanótt.

Það var fyrsta predikun sem mönnum var flutt um fæðingu frelsarans.

Víst þurfti Ísraelsþjóðin á frelsara að halda á þessum tíma því víða voru átök innan Gyðingasamfélagsins. Ágústus keisari sem réði yfir öllu Rómarveldi hafði komið með ytri frið inn í ríki sitt. Hann var á stundum nefndur friðarhöfðingi. Hjá Gyðingum var mikil samfélagsólga, þar voru uppþot og átök eins og nú. Keisarinn sá um með hervaldi að halda óeirðum niðri. Inn í þá ólgu fæddist frelsarinn, hinn sanni friðarhöfðingi.

Um nóttina þegar allt varð bjart í kringum fjárhirðana vakti það með þeim skelfingu. Kannske þeir hafi haldið að heimsendir væri runninn upp? Ljós út í haga um miðja nótt var algjörlega óútskýranlegt og vakti djúpa hræðslu. En þegar sagan er skoðuð í heild sjáum við að annað hafði yfirhöndina þegar yfir lauk.

Það voru orð sendiboðans frá Guði, engilsins. Hann byrjaði á því að draga úr óttanum. Óttist ekki voru fyrstu orð hans. Síðan kom boðskapurinn ljúfi: "Því sjá ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum. Yður er í dag frelsari fæddur."

Í stað óttans lagði hann þeim inn fögnuð og eftirvæntingu eftir því að þeim væri á þessari stundu frelsari fæddur.

Orðið frelsari vísar til þess sem gerir mann frjálsan. Íslenska orðið frjáls er byggt upp af tveim orðum sem síðan runnu saman í eitt. Frí-háls, það voru þeir fangar sem losnuðu við hlekkina af hálsi sér. Þeir voru frí-hálsar, þeir gátu farið sinna ferða frjálsir og tekið ábyrgð á eigin lífi. Þetta dýpkar merkingu okkar á orðin frelsi og frelsari. Jesú fæddist í þennan heim til að gera okkur frjáls undan oki sem leggst um háls okkar eins og mara og dregur okkur niður. Okið getur verið margvíslegt, það getur verið ótti út af ytri aðstæðum, það getur verið glíma við manns eigin langanir eða gerðir sem stangast á við ást og réttlæti, það eru syndahlekkirnir sem gera okkur að föngum eigin fíkna. Okið getur verið friðleysi, áhyggjur, innantómt líf eða skerandi einmanaleiki.

Inn í allt þetta og miklu miklu meira gekk Jesús þegar hann fæddist hér á jörð. Hann var fulltrúi Guðs kominn til að mæta manninum. Orðið varð hold, Guð gerðist maður í Jesú Kristi til að geta gengið inn í allar okkar aðstæður. Til að geta fylgt okkur eftir á leið. Til að geta grætt sárin og frí-hálsað okkur frá okinu sem bindur okkur niður.

Guð kom inn í heiminn með gjöf ástar í Jesú Kristi, sú ást er ætluð þér. Ást sem frelsar og leysir, bindur um og græðir.

Engillinn sagði: "Hafið þetta til marks, þér munuð finna barn reifað og lagt í jötu."

Áhrifin sem boðun engilsins hafði á hirðana voru sterk. Þeir gleymdu óttanum en lögðu af stað til borgar Davíðs til að sjá nýfæddan frelsarann. Þegar þeir litu ásjónu Jesú öðluðust þeir þá innri ró og gleði sem gerði þá sæla. Eftirkeimurinn af áhrifum Jesúbarnsins var að þeir hlupu til sinna að segja þeim hvað þeir hefðu upplifað. Þeir vildu leiða aðra að þessari blessun.

Þannig er það þegar Guð mætir, þú upplifir að innstu þrám þínum er svalað í þessum undarlega friði sem blessar og græðir allar aðstæður.

Guð skapar rými fyrir djúpa kyrrð og hvíld mitt í ólgunni. Hann kemur inn í óttan og ýtir honum til hliðar. Guð er kærleikur og ótti er ekki í elskunni 1. Jóh. 4.18 Þegar Guð kemur inn með kærleika sinn verður óttinn að víkja á braut. Kærleikurinn er óttanum yfirsterkari.

IV

Það er gaman að skoða upprisu Krists og fyrstu áhrifin sem hún hafði í Matteusarguðspjalli.

María og María gengu að gröf Jesú, þá varð jarðskjálfti mikill og engill sté niður af himni. Það greip um sig skelfing.

Fyrstu orð engilsins til kvennanna voru: "Þér skuluð ekki óttast." Síðan sagði hann konunum að Jesús væri ekki í gröfinni, hann væri upprisinn eins og hann sjálfur hefði sagt fyrir. Þarna er kjarni boðskaparins, eins og þegar hann fæddist.

Yður er í dag frelsari fæddur.

Við gröfina:

Jesús er upprisinn, hann hefur leyst sundur bönd dauðans, hann er frí-háls frá dauða.

Síðan sagði hann þeim að fara og færa lærisveinunum tíðindin. "..þær fóru í skyndi frá gröfinni með ótta og mikilli gleði." Mt.28.8 Það voru sterkar andstæðar tilfinningar innra með þeim. Þær fundu til ótta en einnig til mikilla gleði, þær fylltust von. Á leiðinni kom Jesús á móti þeim.

Fyrstu orð hans voru: "Heilar þið." Mt.28.9

Sjáið þið hvað þetta er falleg kveðja. hann vill að konurnar séu heilar heilsu til anda, sálar og líkama. Hann vill ekki að þær séu brotnar. Heilar þið. Það næsta sem hann segir við þær er: Óttist ekki. Hann vissi um þessar andstæðu tilfinningar innra með þeim. Hann vildi að fögnuðurinn yfirskyggði óttann, að elskan ræki út óttann.

Þannig kemur Kristur til okkar enn í dag. Hann vill mætta okkur í óttalegum aðstæðum og skapa þar rými fyrir innri frið, gleði, von og kærleika.

Þegar Jesúbarnið mætti augum fjárhirðanna hafa þeir sjálfsagt fallið á kné frammi fyrir barninu eins og sagt er um vitringana og konurnar sem mættu Jesú upprisnum. Þeir voru síðan knúnir til að segja öðrum frá gleðinni sem þeir upplifðu við nærveru barnsins í jötunni.

Jesús sagði konunum að fara og segja bræðrunum að halda til Galíleu því þar myndu þeir sjá hann.

Hann ætlaði að mæta bræðrum sínum aftur upprisinn og bræðurnir voru karlar og konur.

Jesús var og er og verður. Hann gengur enn um til að mæta bróður sínum og systur sem er hvert mannsbarn sem snýr sér til hans og segir: Já ég vil vera bróðir þinn og systir.

Við hvern þann sem í einlægni snýr sér til Krists segir hann: "Heilar þið."

Vér erum systkin orðin hans syngjum við í jólasálminum eftir Valdimar Briem ( Sb 73).

V

Jóladagur er enn upp runnin og allar gjafir þegar opnaðar. Við undirbúning jóla þetta árið iljuðu mér orð móður þegar hún vaknaði til lífsins aftur eftir níu daga dásvefn. Það var hún Anna María okkar úr bakaríinu í Hveragerði. Við vitum öll um bílslysið með henni og börnunum hennar þrem í Hólmsá seint í nóvember. Röð af góðum atburðum veittu giftusamlega björgun. Orðin hennar í sjónvarpsviðtali snertu við mér: "Ég er allavegana búin að fá mína jólagjöf." Sagði hún þegar hún vissi að börnin hennar væru heil á húfi.

Lífið er dýrmæt gjöf sem okkur er gefin af Guði. Líf barnanna eigum við foreldrarnir ekki. Við fáum börnin að láni stutta stund og okkur er treyst fyrir að koma þessu dýrmæta lífi til manns. Kenna þeim að greina á milli góðs og ills og læra að elska það góða.

Þegar líf Jesú sem hafði verið frá upphafi, varð að holdi í venjulegu nýfæddu barni, þá var okkur gefin hlutdeild í eilífa lífinu hans. Lífinu sem leystist frá dauða í upprisunni.

Okkur er gefið jarðneska lífið og við þurfum að spila úr spilunum sem við höfum, hvort sem þau eru góð eða slæm. Eilífa lífið er okkur rétt úr höndum barnsins nýfædda í jötunni.

Við tökum við því þegar við snúum okkur að Jesú, játum hann, biðjum, elskum hann og þjónum honum í kærleika.

Aukreitis njótum við elsku hans, elskunnar sem rekur út óttann, og við njótum friðarins sem er æðri öllum skilningi og Guð einn getur gefið. Þessi innsta kyrrð sem ekkert getur haggað þó að úti blási kalt og dimmt.

Við njótum ljóssins hans sem vill lýsa okkur leið í flóknu munstri lífsleiðarinnar. Þá eiga orð skáldsins vel við:

Lýsi ljós og gleði, ljómi kærleiks sólin. Heilar sættir semji sárþjáð jarðar bólin. Frelsarinn oss færi friðinn sinn um jólin. J.Hj. J.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.