Er kirkjan traust?

Er kirkjan traust?

En hvað felst í þessum skilaboðum? Af hvers konar reynslu eru svarendur að miðla í viðhorfum sínum til kirkjunnar? Getur líka verið, að skilningur á trausti hafi breyst og eigi við vinsældir?

Kirkjan hefur mælst með fallandi traust í könnunum. Þær niðurstöður verður að taka alvarlega. Það eru gerðar miklar kröfur til kirkjunnar, og meiri en almennt gerist um aðrar stofnanir, m.a. vegna hins siðræna gildismats sem kirkjan boðar og stendur fyrir.

En hvað felst í þessum skilaboðum? Af hvers konar reynslu eru svarendur að miðla í viðhorfum sínum til kirkjunnar? Getur líka verið, að skilningur á trausti hafi breyst og eigi frekar við vinsældir?

Það ríkir þó traust. Fólkið heldur áfram að sækja þjónustu til kirkjunnar á hinum fjölþættu sviðum, og aðsóknin eykst, t.d. á sviði sálgæslunnar þar sem sannarlega reynir á traustið. Einnig hefur starfið í kirkjunni blómgast að fjölbreytni sem birtist líka í aukinni þátttöku, þrátt fyrir mikinn fjárhagslegan samdrátt. Telja verður, að þau sem leita til kirkjunnar um þjónustu og taka þátt í starfinu treysti henni. Þar virðist traustið hafa styrkst..

En fólkið, sem ekki hefur slíka reynslu, hlýtur þá að meta kirkjuna af öðrum forsendum og hvað skiptir þá máli? Líklega vegur þyngst ímynd kirkjunnar og opinber umræða. Þar hefur kirkjan átt í vök að verjast vegna erfiðra mála sem hafa verið til umfjöllunar undanfarin ár. Ólíkar skoðanir og viðbrögð við handleiðslu erfiðra mála í samskiptum við einstaklinga og fjölmiðla, oft hlaðið breyskni og heitum tilfinningum, voru fyrirferðamikil og sárt að reyna, auk þess harður áróður fyrir úrsögnum úr kirkjunni. En þetta virðist ekki hafa bitnað á safnaðarstarfinu eins og ætla mætti af umfangi umræðunnar.

Það staðfestir hve kirkjan stendur traustum rótum í þjóðlífinu og býr yfir dýrmætum mannauði í starfi og þjónustu. Þar felast sóknarfærin fyrir framtíð kirkjunnar til þess að rækta traustið, ekki með flugeldasýningum til stundarvinsælda, heldur trúnaði við fólkið í landinu með heilindum í blómlegu starfi og gefandi þjónustu. Kirkjan er heilagur samastaður menningar-og félagslífs í blíðu og stríðu þar sem Guð er í miðju og opnar faðminn á móti hverjum sem leitar. Þar nærist traustið í lifandi trú.