Svaf Guð yfir sig?

Svaf Guð yfir sig?

Hún er með áleitnari spurningum guðfræðinnar sú þegar við spyrjum okkur hvar Guð sé þegar ósköpin öll dynja yfir. Margir af helstu spekúlöntum heimsins hafa rætt hana fram og tilbaka og gera enn.
Bolli Pétur Bollason - andlitsmyndBolli Pétur Bollason
08. september 2014

Hún er með áleitnari spurningum guðfræðinnar sú þegar við spyrjum okkur hvar Guð sé þegar ósköpin öll dynja yfir. Margir af helstu spekúlöntum heimsins hafa rætt hana fram og tilbaka og gera enn. Lokaði Guð augunum þegar turnarnir féllu í hryðjuverkaárás í New York 2001? Svaf Guð yfir sig þegar 20 skólabörn og sex kennarar voru skotnir í Sandy Hook skólanum í bænum Newtown 2012 . Af hverju grípur Guð ekki inn í svona skelfilega atburði sem eiga sér stað á þessari blessuðu jarðarplánetu okkar?

Bandarískur blaðamaður og rithöfundur Philip Yancey, búsettur í Colorado, hefur fjallað mikið um þetta viðfangsefni í ræðu og riti. Hann er nú ritstjóri Christianity Today magazine og ófáar bækur hans snúast um manneskjuna í aðstæðum sem enginn getur séð sjálfan sig í. Bækur eftir hann bera m.a. þessar yfirskriftir á frummáli:

„Disappointment with God“ „Where is God when it hurts“ „The Question that never goes away. WHY?“

Ég staðnæmist við síðasttöldu bókina, sem vakti hug minn. Þar kemur fram að Yancey hefur ósjaldan verið kallaður til þegar vofveifleg atvik hafa hent, til að flytja fyrirlestra fyrir ástvini og heilu samfélögin sem líða vegna náttúruhamfara eða ofbeldis. Hann fór með fyrirlestur til Japan eftir jarðskjálftahamfarir árið 2011, hann heimsótti Sarajevo og upplifði gömul sár og ný eftir langvarandi átök, þar sem fólk hafði m.a. reynslu af fjögurra ára fyrirsát leyniskyttna, hann talaði inn í aðstæður fólks í heimafylki sínu, þar sem fjöldamorð áttu sér stað í Columbine High skólanum og þá var hann fenginn til að ræða við ástvini fórnarlamba Sandy Hook barnaskólans í Newtown Connecticut, en þar lágu 20 skólabörn og sex kennarar í valnum eftir að Adam Lanza gekk þar berserksgang skömmu fyrir jól árið 2012. Margvísleg skilaboð höfðu hljómað á opinberum vettangi í kjölfar þessara átakanlegu skólaatburða. Útvarpsmenn útskýrðu þá með þeim hætti að þarna væri Guð að hefna sín því nútímafólk væri að viðurkenna fóstureyðingar og hjónabönd samkynhneigðra og þarna væri Guð hljóður því það væri verið að útiloka Hann frá skólakerfinu. Dæmi sem sýndu að fordómar ættu sér engin takmörk.

Yancey lýsir því þegar hann kemur til Newtown og hittir fyrir fólkið þar. Þjónar í nærliggjandi kirkju höfðu beðið hann um að koma og tala inn í raun fáránlegar sorgaraðstæður. Yancey fann fyrir miklum vanmætti eins og allir í tengslum við þennan voðaatburð.

Skipuleggjendur fyrirlestursins voru vondaufir á mætingu og höfðu útskýringar á reiðum höndum ef það yrði fámennt. Um þúsund manns mætti tvö kvöld í röð. Yancey hóf mál sitt á því að segja samfélaginu hvað hann myndi ekki tala um. Hann skyldi ekki tala um byssueign eða andleg veikindi eða uppeldi, hann myndi ekki rekja atburðarrásina í Sandy Hook í smáatriðum né gefa hagnýt ráð. Hann ætlaði einkum að ræða spurninguna hvar er Guð í þjáningunni.

Hann fékk krefjandi spurningar að loknu máli sínu og ein þeirra og sú síðasta tók verulega á. „Mun Guð vernda barnið mitt?“ Yancey sagðist hafa orðið hljóður í c.a. mínútu. Síðan sagði hann (í lauslegri þýðingu greinarhöfundar):

„Nei, því miður getur ég ekki lofað því. Ekkert okkar er undanþegið. Við deyjum öll, sum okkar gömul og sum átakanlega ung. Guð veitir okkur styrk og myndar einingu, já, en ekki vernd, í það minnsta ekki þá tegund verndar sem við í örvæntingu þráum. Á þessari hverfulu plánetu varð jafnvel Guð að sjá á eftir syni sínum.“

Þarna leggur Yancey áherslu á styrk og huggun í samlíðan Guðs með syrgjendum, að við erum þrátt fyrir allt ekki ein í sorginni. Sumum þætti það óþægilegt að heyra þetta um verndina, að það sé ekki hægt að lofa því að Guð verndi börnin okkar. Yancey vildi innilega byrja á því að segja að auðvitað myndi Guð gera það svo sannarlega sem svar við síðustu spurningunni, en meðvitaður um 26 flöktandi kertaljós fyrir aftan sig í minningu fórnarlamba þá gat hann ekki gefið þetta loforð. Þarna hefði það getað virkað heldur hrokafull afstaða, auk þess sem slíkt hugtak getur þýtt svo margt þegar það er borið fram í hinni dýpstu sorg, mun ég nokkurn tímann sjá á eftir barninu mínu ef það hefur lifað atburðinn af eða mun Guð færa mér barnið aftur sem varð fyrir byssukúlu misgjörðarmanns?

Philip Yancey leggur áherslu á viðbrögð samfélagsins við harmleikjum, í þeim viðbrögðum finnum við Guð, í allri þeirri gæsku og samhygð er fer af stað, vakir Guð. Lögreglan í Newtown tryggði öryggi fjölskyldna í margar vikur eftir harmleikinn, líka til að verja þær gegn ágangi fjölmiðla. Frystikistur fjölskyldnanna fylltust af mat og þær fengu eins mikla sálfræðiaðstoð og þær þurftu. Enn eru kort og kveðjur að berast fjölskyldum fórnarlambanna, þar sem verið er að tjá samúð og hlýhug.

Og hin sammannlega reynsla kemur sem einstakt hjálpræði inn í líf fjölskyldnanna, þar sem ástvinir fórnarlamba úr öðrum harmleikjum í fortíðinni miðla af reynslu sinni og þar steig t.a.m. einn pabbinn fram og sagði að nú væri ómögulegt að finna fyrir gleðinni og að hann hefði haldið sjálfur að hún kæmi aldrei aftur, vissulega myndi sorgin aldrei hverfa, en varðandi gleðina segir hann sjálfur: „Vitið þið til, hún á eftir að koma.“

Andy Murray var einn þeirra, sem lifði af skólaharmleikinn í Dunblane í Skotlandi árið 1996. Hinn 43 ára gamli Thomas Hamilton gekk þar um og myrti 16 börn og einn fullorðinn áður en hann svipti sig síðan lífi. Andy Murray faldi sig undir skólaborði átta ára gamall. Murray þessi varð afreksmaður í tennis, Wimledonmeistari. Amma hans tjáði sig á íþróttarás og sagði að hann hefði alltaf innst inni viljað gera eitthvað til að koma Dunblanebænum á kortið eins og hann átti skilið og afmá um leið þann blett, sem harmleikurinn forðum hafði sett á hann. Murray undirstrikaði þetta þegar hann ákvað eftir ólympíuleikana í London 2012 að fagna gullmedalíu sinni í litla heimabænum sínum fremur en í sjálfri London.

Það eru ekki síst svona sögur, sem m.a. vísa okkur á Guð í allri þjáningu og sorg.