Jörðin er flöt

Jörðin er flöt

Ég vil reyna að brjótast upp úr því djúpa hjólfari sem karlremba árþúsundanna situr enn föst í. Þó þykir mér sem það gangi hægt – það að koma sjálfum mér upp úr þessu hjólfari.

Til eru bækur sem mann langar til að lesa og bækur sem karlmenn þurfa að lesa. En spurningin er hvað við, karlarnir, viljum. Upplifun mín af sjálfum mér sem karlmanni og samkynja félögum mínum er á stundum slík að ég held að við gætum sómað okkur vel í hópi þeirra sem rembuðust eins og rjúpan við staurinn hér um árið og vildu ekki taka neinum rökum um annað en að jörðin væri flöt. Öðru hvoru læðist sú hugsun í koll mér að margur karlinn vilji áfram vera í þeim hópi og gott ef ég verð ekki var við einstaka konur sem reyna að bætast í hópinn. En ég vil reyna að brjótast upp úr því djúpa hjólfari sem karlremba árþúsundanna situr enn föst í. Þó þykir mér sem það gangi hægt – það að koma sjálfum mér upp úr þessu hjólfari.

Sum skref eru hins vegar betur til þess fallin að átta mig á því öngstræti sem þetta hjólfar leiðir í og hjálpa mér að uppgötva hvar og hvenær ég styð hið karllæga samfélag og hvernig ég get stuðlað að samfélagi sem byggir á jafnrétti kynjanna. Eitt slíkt skref reyndist lestur bókar sem kom nýverið út hjá Háskólaútgáfunni og ber titilinn Ofbeldi, margbreytileg birtingarmynd. Bókin inniheldur helstu niðurstöður úr fjórum íslenskum rannsóknum sem gerðar voru nýverið og taka allar á ofbeldi gegn konum. Hér er á ferðinni bók sem nýst getur körlum og konum sem vilja bæta fagleg og persónuleg viðhorf sín í garð þess samfélags friðar sem við viljum byggja upp. Um leið verður lesandanum ljóst hversu alvarlegt vandamál ofbeldi á heimilum, í nánum samböndum og í garð kvenna er.

Mér þykir nefnilega sem við karlarnir séum ekki að átta okkur á alvarleikanum. Stöku sinnum þegar ég var yngri var ég staddur á sveitaböllum þar sem svo vildi til að tveir karlar tókust á í forinni fyrir utan félagsheimilið. Misvel gekk að ganga á milli kappanna og oft endaði slagurinn þannig að einn eða fleiri fengu hressilega á kjaftinn áður en tókst að stöðva slagsmálin. Köppunum var komið heim, þeir settir aftur í Svörtu Maríu eða á annan hátt fundinn staður til að jafna sig. Og gjarnan heyrðust setningar eins og: ,,Þeir verða búnir að jafna sig eftir góðan svefn.” Ég trúði þessari setningu þá. Og vandinn er að ég trúi þessari setningu allt of oft ennþá. Það sem verra er, mig grunar að ég og margir aðrir karlar höldum að hægt sé að yfirfæra hana á hvers konar ofbeldi, líka á það ofbeldi sem á sér stað innan veggja heimilisins.

Þau sem hafa tekið sér tíma til að hlusta á konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi í nánum samböndum eða innan veggja heimilisins sem og þau sem hafa gefið sér tíma til að kynna sér niðurstöður rannsókna eins og þeirra sem fjallað er um í umræddri bók, vita hins vegar að þetta er ekki rétt. Áhrif ofbeldis á andlega líðan og heilsufar kvenna hverfa ekki og þaðan af síður á einni nóttu. Afleiðingarnar geta jafnvel varað alla ævi þó svo að konan sem fyrir ofbeldinu varð nái að slíta sig snemma úr hinu ofbeldiskennda sambandi. Takk Brynja, Erla Kolbrún, Kolbrún og Sía fyrir framtakið að koma rannsóknum ykkar á framfæri í þessari bók. Og takk þið öll sem ætlið að verða ykkur út um bókina og lesa hana spjaldanna á milli. Breytum hugarfarinu, breytum samfélaginu, stöndum saman.