Um vígslubiskupa

Um vígslubiskupa

Ef á hins vegar að hafa vígslubiskupsembættin áfram þá minni ég á þá hugmynd að þeir yrðu ásamt dómprófasti í Reykjavík umdæmisstjórar kirkjunnar og tækju yfir flest verkefni prófastanna. Þeir yrðu þá jafnvel fleiri en verið hafa og fyrst og fremst leiðandi í samstarfi kirkna á sínu svæði.

Margar ástæður má nefna til þess að fjalla núna um vígslubiskupsembættið og sem oft áður þá þurfum við að hrökkva við til þess að taka eitthvað til skoðunar hjá okkur í Þjóðkirkjunni. Við eigum merkilega erfitt að gera okkur mynd af áfanga sem við vildum ná í tiltekinni framtíð. Ég hef margsinnis rekið mig á það og undrað það.

Saga vígslubiskupsembættanna er ekki tiltakanlega löng, rétt um öld og ekki öllu fleiri gengt þessum embættum en hálfur annar tugur manna. Lengst af hafa embættin fólgist í því að vera til taks ef biskup forfallaðist og vígja þyrfti nýjan. Síðast kom til þess þegar sr Sigurgeir Sigurðsson var vígður 1953. Enginn vígslubiskup hefur þjónað sem staðgengill biskups Íslands nema sr Sigurður Guðmundsson í mínu minni.

Vígslubiskupsembættin urðu sjálfstæð embætti seint á tíunda áratugnum en þróun aðferðafræði og ráðstafanir seinni tíma hafa leitt til þess að núorðið eru harla lítil umsvif hjá þeim. Alla þá sem gegnt hafa embættunum einvörðungu hef ég vitað kvarta undan því að hafa litla hlutdeild í biskupsstörfum og svo þröng starfsskilyrði að litlu yrði áorkað þrátt fyrir besta vilja. Sumir hafa komið með umtalsverðar hugmyndir í farteskinu en hafa orðið að setjast á skott sér all fljótt.

Ég geri ráð fyrir því að þetta stafi fyrst og fremst af því að bæði ráði biskup Íslands vel við biskupsverkin og telji þau tengsl sem þau skapa nauðsynleg fyrir embætti sitt.

Eigum við ekki þá að athuga að leggja þessi embætti niður núna þegar við þurfum að draga saman seglin af fjárhagsástæðum?

Hvað þá með gömlu biskupsstólana á Hólum og Skálholti? Á Hólum hefur starfið vissulega eflst en þar er aðeins kirkjan, prestsetrið og Auðunarstofa á snærum Þjóðkirkjunnar. Auðunarstofa er merkilegt hús og staðarprýði og hlýtur að nýtast sem athvarf og starfstöð fyrir embætti kirkjunnar áfram. Þar mætti sjá fyrir sér starfsstöð dómkirkjuprests sem jafnframt væri sóknarprestur og annað starfsfólk, einkum að sumarlagi.

Skálholt hefur skóla/kirkjumiðstöð, rektor og dómkirkjuprest sem bera uppi starfið á þeim stað. Forysta sr Sigurðar vígslubiskups skipti vissulega miklu máli en hennar nýtur nú ekki við lengur og aðrir hljóta að axla hana og skiptir þá meira máli viska og dugur heldur en biskupstign.

Með þessum vangaveltum er ekki kastað rýrð á störf þeirra sem þessari þjónustu gegna og hafa gegnt. Þeir hafa lagt sig fram en væntu líklega annars en á varð raun.

Ef mönnum þætti nú með öllu ótækt að kalla til biskup frá systurkirkjum okkar til biskupsvígslu í viðlögum (þeir koma nú í hópum að biskupsvígslum hvort sem er) þá er til að Kirkjuþing kalli einhvern roskinn og vellátinn prest og láti biskup vígja hann til þessa hlutverks. Þá gæti hann og verið staðgengill biskups Íslands þó hann gegndi jafnan því embætti sem hann hefði fyrir.

Ef á hins vegar að hafa vígslubiskupsembættin áfram þá minni ég á þá hugmynd að þeir yrðu ásamt dómprófasti í Reykjavík umdæmisstjórar kirkjunnar og tækju yfir flest verkefni prófastanna. Þeir yrðu þá jafnvel fleiri en verið hafa (ma. á höfuðborgarsvæðinu) og fyrst og fremst leiðandi í samstarfi kirkna á sínu svæði.

Það er tími núna til að athuga þetta og alla vega betra að spara vígslubiskupana, heldur en taka af sérþjónustu við áfengissjúka og aldraða sem og þau sem þurfa að leita læknisþjónustu erlendis. Lögum má breyta og það tekur ekki alltaf langan tíma. Vilji er allt sem þarf!