Þakklát á jólum

Þakklát á jólum

Þegar ég var barn og unglingur var venjan að sækja jólaboð í stórfjölskyldu móður minnar á jóladag. Á öðrum degi jóla, eða í seinasta lagi um áramót, var svo komið að boði í föðurfjölskyldunni. Ein af minningum mínum tengdum þessum ágætu fjölskyldusamkomum er sú, að ég átti auðvitað að þakka ættingjunum fyrir jólagjafirnar sem ég hafði fengið frá þeim. Vandinn við það var hins vegar sá að þurfa að leggja á minnið, hvaða frænka eða amma hefði nú gefið hvaða bók eða peysu, til að geta þakkað almennilega fyrir sig og virðast ekki vera svo vanþakklátur að hafa gleymt gjöfinni.
Þorgeir Arason - andlitsmyndÞorgeir Arason
25. desember 2018

Jóladagur í Áskirkju, Fellum

I.
Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Fyrir hvað ert þú þakklát eða þakklátur á þessum jólum?

Þegar ég var barn og unglingur var venjan að sækja jólaboð í stórfjölskyldu móður minnar á jóladag. Á öðrum degi jóla, eða í seinasta lagi um áramót, var svo komið að boði í föðurfjölskyldunni. Ein af minningum mínum tengdum þessum ágætu fjölskyldusamkomum er sú, að ég átti auðvitað að þakka ættingjunum fyrir jólagjafirnar sem ég hafði fengið frá þeim. Vandinn við það var hins vegar sá að þurfa að leggja á minnið, hvaða frænka eða amma hefði nú gefið hvaða bók eða peysu, til að geta þakkað almennilega fyrir sig og virðast ekki vera svo vanþakklátur að hafa gleymt gjöfinni. En þar sem við systkinin erum fjögur og báðar stórfjölskyldurnar nokkuð fjölmennar, gat pakkaflóðið orðið töluvert á aðfangadagskvöld og sem foreldri í dag dáist ég nú að móður minni fyrir að hafa haldið reiður á öllu dæminu!

Já, fyrir hvað erum við þakklát, sem höfum komið saman hér í Áskirkju á þessum jóladegi?

Eflaust fyrir einhverjar góðar gjafir, sem leyndust undir jólatrjám í gærkvöldi. Við höfum sjálfsagt öll lært þakklæti sem hluta af þeim kurteisisvenjum, sem okkur eru innrættar í bernsku.

Með auknum þroska áttum við okkur svo á því, að það mikilvægasta sem við getum þakkað okkar nánustu fyrir eru ekki áþreifanlegir hlutir, heldur samvera og nærandi tengsl.

En hvað með þakklæti okkar fyrir þær gjafir, sem Guð hefur gefið okkur í lífinu?

Hér kemur áskorun: Hvernig væri að prófa að setjast niður, t.d. núna um jólin eða áramótin – það mætti þess vegna gera það í huganum strax í þessari messu – og telja upp fyrir sér allt það sem maður getur verið þakklátur fyrir? Við getum byrjað á fjölskyldu okkar og öðrum ástvinum, heilsu okkar og öðru lífsláni, og haldið svo áfram þangað til við skynjum að hver einasti andardráttur er þakkarverð gjöf frá Guði sem við lofum hann fyrir.

II.
Ef við skoðum aðeins persónurnar í jólaguðspjallinu sjáum við, að eitt af því sem einkennir þær er lofsöngur til Guðs fyrir það sem þær eru að upplifa:

Þegar María hafði fengið fréttirnar af því að hún yrði þunguð af Jesúbarninu, og farið til Elísabetar frænku sinnar, sem gekk með Jóhannes skírara, þá tjáði hún þakkargjörð sína með frægum lofsöng, sem hefst á orðunum: Önd mín miklar Drottin og andi minn gleðst í Guði. Þessi texti er kallaður Magnificat á latínu og hefur orðið innblástur fjölmargra tónverka og annarra listaverka.

Svo eru það fjárhirðarnir. Þegar þeir höfðu fyrstir manna orðið vitni að fæðingu Krists og sneru aftur til starfa sinna frá Betlehem, hvað gerðu þeir þá? Þeir „vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það, sem þeir höfðu heyrt og séð“ (Lk 2.20).

Ekki má gleyma englunum, sem lofa dýrð Guðs, lofa þann Guð sem hefur „velþóknun… yfir mönnum“ (Lk 2.14).

Lofgjörðin er tjáning á þakklæti fyrir boðskap jólanna, að Kristur er kominn í heiminn.

III.
Við Íslendingar höfum á seinni árum tekið ýmsar venjur upp frá Bandaríkjamönnum. Íslensku jólasveinarnir þrettán eru t.d. undir sterkum áhrifum frá frænda sínum í vestri, honum Santa Claus, ameríska hrekkjavakan eða Halloween hefur á svipstundu náð að skjóta rótum á Íslandi undanfarin ár, og þannig mætti áfram telja. Við höfum samt almennt ekki tekið upp hina sér-bandarísku Thanksgiving eða þakkargjörðarhátíð, sem haldin er í lok nóvember ár hvert. Sú hátíð á sér vissulega býsna vafasamar sögulegar rætur. Hún mun eiga að byggja á þakklæti evrópsku landnemanna í Vesturheimi til frumbyggjanna, sem skrumskælda þjóðsagan segir að hafi tekið skælbrosandi á móti nýbúunum með mat. Þarna er víst farið frjálslega með söguna. En þakkargjörðin er samt fallegur siður, því að hún er fagnaðarhátíð yfir þakkarefnum lífsins og áminning um þau.

Í nútímanum hefur þessi hlið, þakkargjörðin sem slík, víða horfið í skuggann, og meira farið fyrir því að þakkargjörðarhátíðin sé nú orðin upptakturinn að jólaversluninni með meðfylgjandi svörtum föstudegi og netmánudegi. Þá daga höfum við Íslendingar verið að taka upp, merkilegt nokk! En við gleymdum þakkargjörðinni sjálfri og það sem meira er, inntaki hennar!

Auðvitað þurfum við öll að kaupa eitt og annað og verslunareigendur þurfa sitt lifibrauð. En hið kaldhæðnislega er að þakklæti minnir okkur á þær gnægtir sem við njótum í lífinu. Neyslu- og markaðshyggjan vill á hinn bóginn telja okkur trú um að okkur skorti alltaf eitthvað meira, og að birgðirnar séu takmarkaðar. Þetta hefur gengið svo langt að fólk hefur látið lífið vestanhafs á svörtum föstudegi í baráttunni um ódýran snjallsíma eða leikfang.

Iðkun þakklætis er hins vegar jákvætt hreyfiafl sem vinnur gegn samfélagslegri græðgi.

IV.
Í Biblíunni erum við víða minnt á gildi þess að vera þakklát. Páll postuli segir meira að segja í Fyrra bréfi sínu til Þessalóníkumanna, blátt áfram: Þakkið alla hluti því að það er vilji Guðs með ykkur í Kristi Jesú (1Þess 5.18).

Gengur þetta upp, að maður eigi að þakka alla hluti? Er virkilega ætlast til þess af okkur að við þökkum fyrir hluti á borð við ofbeldisverk, óréttlæti eða fyrir ótímabæran dauða okkar nánustu? Nei, það tel ég afdráttarlaust að sé ekki merkingin hér.

Hér eru það þýðingar Biblíunnar sem gera okkur svolítið erfitt fyrir. Nýja testamentið er skrifað á grísku og í þessu versi sem ég nefndi er að finna örlítið orð sem flækir textann en skýrir innihaldið, það er gríska orðið en sem má þýða sem í eða með eða í gegnum. Versið gæti þá hljóðað svo: Þakkið í öllum hlutum, semsagt: Leitið að tilefnum til þakkargjörðar í og með og til að komast í gegnum allt sem mætir í lífinu.

Þau, sem til að mynda þurfa að halda jólin í skugga erfiðs ástvinamissis, geta að sjálfsögðu ekki þakkað fyrir sinn missi. En ef til vill geta þau þakkað fyrir hlýjar minningar, fyrir þau sem eftir lifa, fyrir að sólin heldur áfram að koma upp, fyrir þann styrk sem trúin á Drottin veitir, og fyrir að það má vel kreppa hnefann til himins þegar hjartað býður.

Iðkun og tjáning þakklætis gefur okkur seiglu sem hjálpar til við að takast á við erfiða daga.

V.
Munið þið eftir áskoruninni frá því áðan, um að telja upp fyrir sér allt sem maður getur verið þakklátur fyrir? Ég gleymdi að segja ykkur, að þessi áskorun gildir ekki bara á jóladag. Hún gildir alla þá daga, sem okkur eru gefnir, vegna þess að þakklæti er lífsstíll. Og það að geta „þakkað alla hluti“ það er: fundið sér þakkarefni í öllum aðstæðum lífsins, með öllu, í gegnum allt, þrátt fyrir allt – það er einn af lyklum þeirrar lífshamingju, sem Guð vill gefa okkur.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.