Maðurinn er aldrei einn

Maðurinn er aldrei einn

Algóði himneski faðir, megi það sem ég tala hér í húsi þínu í dag, vera þér þóknanlegt og fólki uppbyggilegt. Minnstu þess Guð minn að ég, þjónn þinn, er aðeins maður.

Algóði himneski faðir, megi það sem ég tala hér í húsi þínu í dag, vera þér þóknanlegt og fólki uppbyggilegt. Minnstu þess Guð minn að ég, þjónn þinn, er aðeins maður.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi.
Þetta hef ég talað til yðar svo að þér fallið ekki frá. Þeir munu gera yður samkunduræk. Já, sú stund kemur að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gera af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. Þetta hef ég talað til yðar til þess að þér minnist þess að ég sagði yður það þegar stund þeirra kemur.

(Jóh 15:26-16:4)

Maðurinn er alltaf einn er heiti á fyrstu bók Thors Vilhjálmssonar. Í þeirri bók er meðal annars að finna ljóð sem heitir „Gönguferð í leit að ævintýrinu“. Það hefst með þessum orðum:

Enginn veit
hvar hann endar
allir halda
að þeir komist eitthvað

(Maðurinn er alltaf einn, bls. 115)

Já, það halda allir að þeir komist „eitthvað“ – og kannski er það rétt. Kannski ekki. Og svo er það spurning um hvort það sé uppbyggilegt að fara bara eitthvað.

Á öðrum stað í heimsbókmenntunum, Lísu í Undralandi, segir af því þegar Lísa ráfar um í skóginum og rekst á Cheshire-köttinn sem situr makindalegur uppi í tré. Lísa spyr hann:

„Vildir þú vera svo vænn að segja mér í hvaða átt ég á að ganga til að komast héðan?“
„Það veltur nú mikið á því hvert þú hyggst fara,“ svaraði kötturinn.
„Mér er eiginlega alveg sama hvert,“ sagði Lísa þá.
„Nú þá skiptir engu máli í hvaða átt þú stefnir,“ ansaði kötturinn.
„Bara svo fremi að ég komist eitthvað,“ sagði þá Lísa, eins og til útskýringar.
„Nú hvað, þú kemst örggulega eitthvað bara ef þú gengur nógu langt,“ svaraði kötturinn.

(Mín þýð. GB)

Í guðspjalli dagsins undirbýr Kristur lærisveina sína fyrir þá stund að hann muni fara. Eða öllu heldur, hann er kannski fyrst og fremst að búa þá undir þá daga sem eru nákvæmlega núna, á dagatalinu. Dagana á milli Uppstigningardags og Hvítasunnu. Og svo, dagana sem síðar koma – þegar undur Hvítasunnudags hafa útbúið postulana þannig að þeir geti fram haldið verki hans – og, liðið fyrir boðskap hans og góðu verkin. Stuttu áður en þarna er komið í spjalli meistarans við lærisveina sína hefur hann einmitt sagt: „Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig því ég lifi og þér munuð lifa.“ (Jóh. 14:18-20)

Hann er að búa þá undir þá stund að þeir verði einir – í mannheimum, í heiminum. Hvað gerir maður þegar maður hefur verið skilinn eftir einn? Allt er breytt, það sem þú hafðir vonast eftir er ekki – eða, í besta falli, þá ertu ekki viss. Það er vond staða að vera ekki viss. Svolítið eins og að vera, áttavilltur, líkt og Lísa í Undralandi. Samt er það mannleg staða – óvissan er þáttur í lífi okkar. En samt leitum við, það líka er mannlegt, vissan er öryggi sem margir leita eftir. Þetta vissi Jesú auðvitað þegar hann spjallar við lærisveina sína – hann veit hvernig þeim muni líða þegar þeir hafa horft á hann hefjast til skýja. Hann veit að þeir munu standa eftir, óvissir.

Hvað gerir maður þegar maður er ekki viss? Hvað gerir maður þegar maður er áttavilltur og hefur ekki kött til að spyrja til vegar. Hvað gerir maður þegar allt er breytt? Jú, maður horfist í augu við sjálfan sig, líf sitt – maður skoðar stöðu sína. Maður spyr sjálfan sig spurninga sem skipta máli.

Við þekkjum þetta öll, erfiða tíma. Erfiður tími kallar á ekki á pælingar um nýja eldhúsinnréttingu, eða spurningar um nýtt golfsett eða tíma í lit og plokkun. Erfiður tími kallar á hugsun. Oft á þessar hugsanir:

„Er ég einn eða ein í heimi?“, „Er einhver hér?“, „Eða þar?“, „Hvar og hver er minn hjálpari?“

Bókin hans Thors heitir, Maðurinn er alltaf einn – sú bók er frá þeim tíma, árið 1950, að margir aðhylltust svokallaðan existensíalisma, tilvistarstefnu. Heimurinn var sagður guðlaus og skuggi hinnar viðbjóðslegu kjarnorkusprengju sem nýlega hafði sannað mátt sinn til manndrápa grúfði yfir jörðinni. Heimurinn virtist vera að syngja sitt síðasta. Þjóðirnar grétu eftir hörmungar síðari heimstyrjaldarinnar. Í þessu undarlega ástandi þurfti hver að spyrja sjálfan sig, þá virtist hjálpræðið horfið, trúin hafði beðið hnekki. Guðleysið fikarði sig áfram í ólíklegustu myndum og hrakti fólk á flótta, þá eins og nú. Hér austan við kirkjuna stóð einmitt kotið Hátún, þar bjuggu flóttamenn þeirra tíma – og kannski allra tíma – þau hétu nefnilega Jósef og María og höfðu hingað hrakist undan guðleysisalræðinu sem þá ríkti í Austur-Evrópu. Þau komu til landsins á aðfangadag jóla árið 1956.

Það var einu sinni viðtal við þau í Morgunblaðinu, þau höfðu meðal annars þetta að segja:

Flóttans sjálfs, minnist ég sem skelfilegustu stundar lífs míns,“ segir María. „Já, það var óttalegt,“bætir Jósef við. „Við löbbuðum í gegnum skóg, þessa þrjátíu kílómetra. Við tókum af okkur skóna til að koma í veg fyrir hinn minnsta hávaða. Vopnaðir verðir voru auðvitað út um allt, því eftirlitið með flóttamönnum var orðið miklu strangara. Í hvert sinn er við urðum vör við þrusk, bjuggumst við við því að nú væri hinsta stundin komin, en þá var bara ein og ein hræða að slást í hópinn. Kannski var það kraftaverk að við náðum til landamæranna í dögun. Alla nóttina höfðum við labbað beint af augum, við vissum að við vorum hólpin, þegar við sáum blikkandi ljós í morgunskímunni. Það voru bifreiðar frá Rauða krossinum. En tilfinningar manns voru blendnar á þessu augnabliki,“segir María. „Við vissum að við vorum að kveðja föðurlandið og heimilið okkar mundum við vart sjá aftur. Handan landamæranna var kominn hópur um fimmtán þúsund Ungverja. Í Vínarborg, var okkur komið fyrir í herbúðum á vegum Rauða krossins. Þarna voru samankomnar tugþúsundir flóttamanna, en alls flúðu frá Ungverjalandi á þessu tímabili um 200 þúsund manns. Þann 20. desember hittum við svo dr. Gunnlaug Þórðarson, sem fylgdi okkur og fleirum til Íslands. Gunnlaugur var okkur afskaplega góður. Til hans viljum við skila þakklæti svo og allrar íslenzku þjóðarinnar.

(Mbl. 4.12.1976)

Þau vissu ekki nákvæmlega hvert þau voru að fara en þau urðu að fara, þau trúðu ekki á þann djöfulskap sem ríkti í landi þeirra á þessum tímum – þau urðu að fara og stefndu á frelsið – þannig séð vissu þau mætavel sinn áfangastað. Þau fundu að lokum skjól hér við Kálfatjarnarkirkju, Jósef og María – blessuð sé minning þeirra.

Ég man ekki til þess að þau vektu sérstaka athygli hér í hreppnum, ég minnist þess ekki að fólki fyndist þau vera að taka eitthvað frá okkur – eða að þau væru fyrir okkur. Svo má geta þess að það var hjá þeim sem ég sá í fyrsta sinn á ævi minni, geitur. Blessuð sé líka sú minning, og geitanna sem ég geri ráð fyrir að séu héðan horfnar úr heimi. Það var nú allur skaðinn sem ég hafði af þeim flóttamönnum – ég sá geit.

Og enn eru flóttamenn á ferð, nýlega var kristnum hjónum vísað í burt héðan frá landinu ásamt þremur börnum, þau höfðu þurft að yfirgefa Úsbekistan vegna trúarofsókna. Því var lítið sinnt af fjölmiðlum – aðeins einn fjölmiðill hefur fylgt því máli eftir. Maður spyr sig um áhugaleysið – jú, tíðarandanum, hinum nýja existensíalisma finnst það minna spennandi að kristnir menn séu á flótta – enda ekki í tísku að viðurkenna lifandi trú á Jesú Krist. Og trú hans jafnvel úthrópuð, afsögð og burtskýrð úr hinu almenna rými – af fólki sem þó þykist vera málsvarar fjölbreytileikans.

Því er ég að tala um þetta? Jú, í seinni hluta guðspjalls dagsins er meistarinn frá Nasaret einmitt að vara lærisveina sína við því hvað muni bíða þeirra – hví þeir þurfi að reiða sig á sannleiksandann: „Þeir munu gera yður samkunduræk. Já, sú stund kemur að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gera af því að þeir þekkja hvorki föðurinn né mig.“

Ég hef ekki alltaf vitað hvert ég væri að fara, hvert ég ætti að fara, og ég hef spurt þann sem síst skyldi til vegar – og hefði þá betur talað við Cheshire-köttinn í Lísu í Undralandi – ráðlaus sem ég var. Samt þekkti ég leið. Sá vegvísir mótaðist einmitt hér í þessu húsi, Kálfatjarnarkirkju, undir leiðsögn séra Braga Friðrikssonar (blessuð sé minning hans), og í foreldrahúsum á Hellum, og í sunnudagaskólanum í Brunnastaðaskóla þar sem meðal annars yndislegar gamlar konur héðan úr sveitinni sögðu frá frelsaranum Jesú Kristi og mætti hans og miskunnsemi. Því get ég, persónulega, tekið undir þann stað í Davíðssálmum er segir: „Lofaður sé Guð er hvorki vísaði bæn minni á bug né tók frá mér miskunn sína.“ (Sálm 66.20)

Hjá mér var þetta spurningin um að rata heim. Vita hvert skyldi halda. Hlusta á sannleiksandann sem hafði hvíslað að mér fyrir mörgum árum á þeim góðu stöðum sem ég nefndi. Því tek ég orð guðspjallamannsins bókstaflega hér í þessu guðshúsi bernsku minnar – húsi húsanna, Kálfatjarnarkirkju, og tek þetta til mín: „Þér skulið einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi.“

Ljóðið hans Thors endar svo:

Enginn veit
hvar hann endar
enginn veit
er hann byrjar
að hann endar hvergi.

Þetta er sérstök niðurstaða, og í raun ekki jafn guðlaus og upphafsorðin eða heiti bókarinnar. Maðurinn endar hvergi því honum er lofað eilífu lífi – og við það verður staðið. Maðurinn er nefnilega aldrei einn og ef hann kærir sig um, og hefur heilsu, getur hann í flestum tilfellum verið nokkuð klár á því hvert hann er að fara. Og ef um allt þrýtur má spyrja köttinn til vegar. Ég rataði aftur að Kálfatjörn – og þið hin sem hér sitjið, sum eftir langa fjarveru frá þessar kirkju. Þessi kirkja er leiðarsteinn í lífi okkar, hús sem á stað í hjörtum okkar og um hana má segja, líkt og segir í bæn Sigurðar Pálssonar vígslubiskups sem finna má í fordyri Strandarkirkju:

Þetta er ekkert venjulegt hús,
heldur himinn á jörðu.
Því Drottinn himnanna býr hér …

Ég vil þakka fyrir það boð að fá að prédika hér í dag – í gömlu góðu kirkjunni minni sem er ekkert venjulegt hús. Og það er viðeigandi að vitna í sálmaskáldið „okkar“ síra Stefán Thorarensen Kálfatjarnarprest í tæp 30 ár, viðeigandi eftir allt þetta tal um hafvillur lífsins og erindi okkar við guðdóminn til að ná áttum:

Ég heyrði Jesú himneskt orð:
„Kom, hvíld ég veiti þér.
Þitt hjarta’ er mætt og höfuð þreytt,
því halla’ að brjósti mér“.

Ég kom til Jesú sár af synd,
af sorg, af þreytu’ og kvöl,
og nú er þreytta hjartað hvílt
og horfið allt mitt böl.

Ég heyrði Jesú ástarorð:
„Kom, eg mun gefa þér
að drekka þyrstum lífs af lind,
þitt líf í veði er“.

Ég kom til Jesú. Örþyrst önd
þar alla svölun fann,
hjá honum drakk ég lífs af lind.
Mitt líf er sjálfur hann.

Ég heyrði Jesú himneskt orð:
„Sjá, heimsins ljós ég er.
Lít þú til mín, og dimman dvín
og dagur ljómar þér“.

Já Jesús Kristur er hjálparinn sem sendir okkur sannleiksandann, Hann er ljós heimsins, dag hvern – okkur til hjálpræðis.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda, Amen.