Friður til þúfu eða þurftar

Friður til þúfu eða þurftar

Jóh. 14.27 Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Á alþjóðavettvangi er þess að vænta að ársins 2017 verði minnst sem óróaárs eða jafnvel óttaárs. Að vísu er það ekkert nýtt að heimsbyggðinni stafi ógn, til að mynda af samtökum sem nota trúarbrögð sem skálkaskjól fyrir ofbeldisverk, eða þá af […]

Jóh. 14.27

Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Á alþjóðavettvangi er þess að vænta að ársins 2017 verði minnst sem óróaárs eða jafnvel óttaárs.

Að vísu er það ekkert nýtt að heimsbyggðinni stafi ógn, til að mynda af samtökum sem nota trúarbrögð sem skálkaskjól fyrir ofbeldisverk, eða þá af valdasjúkum leiðtogum sem svífast einskis til að færa út kvíarnar og ráðast jafnvel gegn sínum eigin þegnum. Við þekkjum jú Ríki íslams, Bashar al-Assad, Kim Jong-Un og þeirra „kollega“ á ýmsum tímum allt of vel úr fréttum síðustu ára og áratuga. En nú ber svo við að það embætti, sem gjarnan hefur verið talið heimsins valdamest, sæti forseta Bandaríkjanna, vermdi allt undanfarið ár maður sem sjálfur hvetur til ófriðar í ræðu og riti og breiðir yfir eigin sjálfsmyndarkrísu með því að kynda undir bál ofbeldis fremur en að reyna að bera vopn á klæðin. Óttinn um að púðurtunnur kunni að springa, og jafnvel að glampa taki á kjarnaoddana í vopnabúrum heimsins, er því miður ekki úr lausu lofti gripinn.

Og gríðarlegur fjöldi fólks er á flótta í heimsálfunni okkar. Óróaár munu engin ofmæli um það ár sem er (var)að kveðja. Við þetta bætist
hnattræn hlýnun, sem er – hvað sem Donald Trump kann um það að segja – mesta manngerða ógnin sem að jarðarbúum steðjar. Hana virðist ekki síst mega rekja til margs konar ofneyslu. Samkvæmt gögnum Eurostat skiljum við Evrópubúar að meðaltali eftir okkur næstum því hálft tonn af rusli á ári, 480 kg á hvert mannsbarn.

Þvert á allt þetta hljómar okkur í kirkjunni boðskapur um frið. Hér var lesinn einn af guðspjallstextum áramótanna. Það er bara eitt vers úr annars langri kveðjuræðu Jesú Krists til lærisveina sinna í Jóhannesarguðspjalli: „Frið læt ég ykkur eftir, minn frið gef ég ykkur. Ekki gef ég ykkur eins og heimurinn gefur. Hjarta ykkar skelfist ekki né hræðist.“

Er hægt að segja við þessi áramót að okkur sé gefinn friður?

Eiginlega verðum við að byrja á annarri spurningu: Hvað er friður?

Friður getur hljómað sem fremur yfirborðskennt hugtak og ekki minnt á annað en friðsæla þúfu þar sem sólin skín og engir byssustingir eru sjáanlegir. Orðið friður gæti líka til dæmis minnt okkur á það að njóta kvöldstundar í hægindastól fyrir framan flatskjá með tebolla eða bjórdós innan seilingar. En í Biblíunni kafar friðarhugtakið miklu dýpra. Friður, eða á hebresku shalom og grísku eirene (það er orðið sem guðspjallið notar), orðið friður í Biblíunni vísar í lífið allt sem eina heild þar sem allar hliðar þess eru í góðu jafnvægi, bæði hjá einstaklingnum og í þjóðfélaginu. Þess háttar friður, shalom, beinir okkur að því að vinna að auknu jafnvægi og vellíðan innan lífsheildarinnar. Við þetta er líka átt í blessunarorðunum í lok messunnar þegar presturinn tónar: Drottinn blessi þig og varðveiti þig… og endar á því að segja: …og gefi þér frið. Hér erum við ekki að biðja Guð að gefa okkur notalegu þúfuna eða stóra flatskjáinn til að njóta friðsældar. Í staðinn er okkur beint til verka, til að finna frið í því að leggja okkar af mörkum í þágu lífsins. Því ef lífsheildin á að vera í jafnvægi lætur hinn kristni friður sig varða um misrétti og fordóma, lætur sig varða um hag þeirra sem minna mega sín og um hag lífríkisins. – Þið kannist við að stundum er talað um að „halda bara friðinn.“ Þetta á eiginlega ekkert skylt við það!

Að sjálfsögðu býður kristin trú ekki upp á neina töfralausn við þeim margþætta vanda sem veröldin stendur frammi fyrir og leiðir af óhaminni sjálfhverfu, græðgi og valdafíkn. En styrkur trúarinnar er sá að þar finnum við ekki aðeins siðferðilega leiðsögn og hvatningu, heldur samfélag við lifandi Guð, Guð sem er kærleikur (1. Jóh. 4.8). Þegar Jesús segir „Minn frið gef ég ykkur,“ þá vill hann raunverulega gefa okkur ákveðna gjöf: að friður búi innra með okkur, friður sem knýr okkur til að láta gott af okkur leiða. Og kristið fólk, við sem viljum játa nafn Jesú og finnum styrk og ró í bæninni /kirkjunni / Guðs orði, við getum í sameiningu haft mikið að segja um það hvernig þeirri veröld, sem Guð hefur skapað, mun reiða af.

Þetta eru ekki orðin tóm. Þó að skuggar kirkjusögunnar séu vissulega ýmsir vil ég nú beina sjónum okkar að ljósinu: Frans páfi er einn af þeim sem hafa leitt umræðuna gegn loftslagsbreytingum á heimsvísu. Kristnar kirkjur víða í Evrópu, þar á meðal hér á Íslandi, hafa tekið upp hanskann fyrir þau sem hafa þurft að flýja heimkynni sín vegna ofbeldis og ofstækis. Allt frá dögum postulanna (Post. 2.45) hefur það verið hluti af þeirri iðkun, sem er raunverulega kristin, að gefa með sér til þeirra sem á þurfa að halda. Í dag renna til dæmis tæp 90% af fjármunum Lútherska heimssambandsins, sem íslenska Þjóðkirkjan er aðili að, beint til verkefna í þróunarlöndum og annars hjálparstarfs. Hjálparstarf íslensku kirkjunnar starfar að aðstoð og ráðgjöf innanlands gegn fátækt, sem er skömm þjóðarinnar. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að bein fylgni er milli aukinnar kirkjusóknar hjá fólki og þess að það sé tilbúið að taka samfélagslega ábyrgð og gefa af sér.

Frið læt ég ykkur eftir, segir Jesús, minn frið gef ég ykkur. Ekki gef ég ykkur eins og heimurinn gefur.

Það getur verið erfitt að finna raunverulegan frið í heimi, sem virðist oft fullur af spennu, hraða og óöryggi.

Lítil dæmisaga endurspeglar þetta: Einu sinni var konungur sem boðaði til samkeppni um hvaða listamaður í ríki hans gæti málað mynd, sem best lýsti sönnum friði. Fjöldi mynda barst en loks stóð valið milli tveggja. Á annarri mátti sjá kyrrlátt vatn þar sem fagrir fjallstindar og tré spegluðust í lygnum vatnsfletinum. Konungur var hrifinn af þessari mynd, en ekki sannfærður um að hún ætti að fá verðlaunin. Hin myndin var gerólík, því að hún sýndi drynjandi foss í dimmu gili og gráar skýjahrannir á himni líkt og stormur væri í aðsigi. En ef vel var að gáð mátti sjá lítinn fugl kúra öruggan í hreiðri sínu á klettasillu við fossinn. Konungur benti á þessa mynd og sagði: „Hér er sigurmyndin, því að sannur friður er ekki stöðugt logn og stilla. Sannur friður er að finna skjólið mitt í storminum.“

Kæri söfnuður. Biðjum Guð á nýja árinu að gefa okkur sannan frið, jafnvel þó að stormur sé allt um kring. Látum þá rósemd hjarta og huga, sem Guð vill gefa, ekki aðeins styrkja okkur sjálf heldur knýja okkur til að leggja lóð á vogarskálar jafnvægis fyrir lífsheildina - Shalom! Gleðilegt ár í Jesú nafni! Amen.