Barnahátíð

Barnahátíð

Þess vegna hef ég aldrei skilið þetta þegar verið er að rembast við að afsanna jólin, rembast við að afhjúpa Jesúbarnið...

Gleðileg jól! „Yður er í dag frelsari fæddur.“ Jesús sagði: „Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.“ Þegar ég var barn hlakkaði ég til jólanna. Bernskujólin voru sjarmerandi í fallegri sveit, foreldrar mínir stemmningsfólk, og á heimili mínu fékk ég að vera barn. Fyrir það er ég þakklátur. Stóra systir segir ósjaldan frá því að ég hafi fengið í skóinn þar til ég varð 16 ára, en það er náttúrulega bara gott og blessað. Þegar ég óx úr grasi, var svona á milli vita eins og sagt er, og var að reyna ákveða hvað ég ætlaði að verða og gera úr þessu lífi mínu voru jólin þó ekki eins ofarlega í huga, ég fjarlægðist eilítið jólaandann í kvíðanum fyrir framtíðinni. Þá var það þegar ég eignaðist sjálfur fjölskyldu, fór að búa með konu minni og börnin litu dagsins ljós, að þessi tilhlökkun lét aftur á sér kræla og ég fór að upplifa jólin á ný afar sterkt t.a.m. í gegnum tilhlökkun barna minna. Vonandi fær maður svo einhvern tímann að upplifa afahlutverkið þannig að jólastemmningin viðhaldist. Stemmingin sú er þó venjulegast á eigin ábyrgð en börnin styðja óneitanlega við hana. Jólin eru þannig barnaleg með jákvæðum formerkjum og Guð lífs og ljóss sendir þau skilaboð með Jesúbarninu í Betlehem að einlægni og sakleysi æskunnar veki frið og kærleika og með því að taka á móti jólum eins og barn í þeim skilningi hjálpar það okkur að eiga þau áfram í hjarta, með því að taka á móti Guðs ríki eins og barn verður það þér opið og gefandi. Barnið í Betlehem minnir okkur á öll börn þessa heims, áhyggjuleysi hjalandi barns, sem á allt gott skilið, fæðist inn í heim er felur í sér ótal gjafir en jafnframt ófáar gildrur og ógnir, er hafa orðið til af manna völdum og orðið til í ranni þeirra er fengu ekki að vera börn. Ég velti fyrir mér heimilislífinu hjá Heródesi konungi. Hvað var gert, um hvað var rætt? Á hverskonar umræður hlýddu börnin á þeim bænum? Hvernig skal nú skattpína alþýðuna frekar, hvern skal lífláta næst? Reyndar lét Heródes deyða stóran hluta fjölskyldu sinnar og hann lét líka deyða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni af ótta við konungstign Jesú þegar hann komst að því að þessi kærleikans konungur var ekki fullorðinn herforingi eins og hann sjálfur heldur lítið hjalandi sveinbarn. Guð kemur okkur sífellt á óvart, að ekki sé talað um þegar við höfum alveg gleymt að líta þessa veröld með augum barnsins. Þetta var auðvitað ekki mjög barnvænt umhverfi sem Jesús birtist í, en koma hans var einmitt lifandi ljós inn í myrkur valdsýkinnar og þeirrar þjáningar, sem hún olli og grúfði yfir öllum heiminum, hvergi var sanna einlægni að finna vegna ótta við miskilinn heim fullorðinna. Þannig kom Jesús sem friðarljós inn í myrkur óreiðunnar og ávallt mun birtingarsaga hans, þessi djúpstæða jólasaga hina fyrstu jólanótt, sem sumir fullorðnir vilja enn í dag burtskýra og afsanna og hrista höfuð yfir, minna á þetta þegar fullorðnir hafa flækt veröldina og gert hana ógnvænlega, þegar þeir hafa gleymt barninu, þá koma jólin, minna á sig og mörg hörkutólin verða meyr. Hin kristna saga jólanna segir okkur nefnilega svo mikið um eðli kærleikans, þann er afvopnar og afhjúpar fólk í hatursham og biður það að finna barnið í sér, biður um að sérhver manneskja fái að kynnast hreinleika og sakleysi æskunnar. Þess vegna hef ég aldrei skilið þetta þegar verið er að rembast við að afsanna jólin, rembast við að afhjúpa Jesúbarnið og þau, sem á það trúa og jólasveinninn fær jafnvel ekki frið, hann er fylltur samviskubiti af hinum og þessum skríbentum við að gefa í skóinn. Það er fátt skrýtnara en þegar fullorðið fólk reynir á vísindalegan hátt að afsanna trúarheim barnsins hvort sem það tengist Guði lífs og ljóss eða því sem flokkast undir ævintýraheim, hvortveggja er nefnilega stór þáttur þess að fá að vera barn og hver einstaklingur þarf nauðsynlega að fá að kynnast öllu því sem bæði vökvar trú og jafnframt ímyndunaraflið, það þroskar okkur sem manneskjur og hjálpar okkur að varðveita barnið í okkur um ókomna tíð. Við megum líka hugleiða þetta á þann hátt að líf okkar allra er sem eitt stórt ævintýri, þetta er heimur sem er fullur af kraftaverkum. Á meðan við erum að velta fyrir okkur viðburðum úr lífi Jesú eins og þegar hann breytti vatni í vín, gekk á vatninu, læknaði fólk, sigraði sjálfur dauðann að lokum og tökumst á við trú okkar í því sambandi og finnst við þurfa að brosa af og til út í annað, þá höfum við fyrir augum okkar í raun ótrúlega þróun og framfarir, já óvenju hraða byltingu á ýmsum sviðum hér í heimi, hver hefði trúað því fyrir einhverjum árum síðan að það yrði hægt að senda fólk út í geiminn eða rita skilaboð, sem bærust á milli tölvu-og símtækja, hver hefði trúað því að hægt yrði að aka í gegnum fjöll og undir sjó, hver hefði trúað því að hægt yrði að græða líffæri á fólk? Fólkið sem bjó í gamla torfbænum í Laufási hefði í það minnsta hrist höfuðið. Þetta eru ótrúlegir hlutir, en þegar við förum að hugsa veröldina sem sjálfsagt fyrirbrigði, þá getur trúin liðið fyrir það, þegar þakklætið dofnar vegna þess að við finnum okkur ekki tíma til að meðtaka og höfum flækt veröldina talsvert eins og fólkið sem sá ekki keisarann berrassaðan í ævintýri HC. Andersen, þá líður trúin talsvert fyrir það, því af mörgu því sem er gott og gefandi í þessari tilvist, þá er það sannfæring mín að Guð megi finna hvað skýrast í þakklætinu og það kann að eiga undir högg að sækja á þessum tíma okkar þar sem lögmálið framboð og eftirspurn er leynt og ljóst farið að hasla sér völl sem trúarbrögð. Og með þakklætið á vörum komum við að þætti gestanna í gripahúsinu forðum. Fjárhirðar fóru og veittu barninu lotningu sína, báru virðingu fyrir hinu heilaga, létu ekki óttann kúga sig, voru vakandi, voru ábyrgir, voru þakklátir fyrir þessa stóru gjöf Guðs, komu auga á sérstöðu barnsins og mikilvægi æskunnar í samhengi kærleikans, flæktust ekki í afsönnunarkenningum og burtskýringum heldur meðtóku og þáðu, sáu síðan ástæðu til þess að kunngjöra heiminum, voru með hlutverk sitt á hreinu. Glöddust á ómengaðan hátt. Það gerðu vitringarnir líka, lögðu á sig langa og stranga ferð, létu Heródes ekki leiða sig í villu, héldu sínu striki, fylgdu innsæi sínu og stjörnunni björtu, færðu gjafir, sýndu barninu með þeim hætti virðingu, hlýju og trú. Gjafirnar gull, reykelsi og myrra undirstrikuðu að konungur var fæddur, ekki konungur sem sest í valdastól þessa heims, heldur sá er opnar okkur sýn á annarskonar valdi, það er kærleikans vald, það þegar við finnum þránna eftir því að vera til fyrir hvert annað, styðja hvert annað og huga að þeim sem vegna aðstæðna sinna geta ekki notið daganna sem skyldi. Það er þessi óeigingjarni kærleikur er kemur frá Jesúbarninu, kærleikur án skilyrða, heiðarlegur kærleikur eins og sá er bjó í huga barnsins er benti á keisarann og afhjúpaði klæðaleysi hans í fyrrnefndu ævintýri dönsku og góðu. Áhrif þessa kærleika sem kviknaði í Betlehem hafa síðan verið ómælanleg í gegnum árin, kærleikurinn hefur komið víða við, glatt á gleðistundum, stutt við í þrengingum, ýmsir hafa séð glitta í birtu í dalnum dimma fyrir tilstuðlan kærleikshugsjónar Krists. Dietrich Bonhoffer, kunnur þýskur guðfræðingur og lútherskur prestur, sem var tekinn af lífi af nasistum í seinna stríði, skrifaði sína guðfræði að mestu fjötraður í fangaklefum nasista. Þar kynntist hann áþreifanlega hatrinu, ógninni, óttanum, þeim veruleika sem jólasagan afhjúpar og segir okkur að sætta okkur aldrei við, hann segir um kærleikann: „Innsæi, þekking, sannleikur, er ekkert án kærleika, það er ekki einu sinni satt, því sannleikurinn er Guð og Guð er sannleikurinn. Þannig að sannleikur án kærleika er lygi, hann er ekki neitt, sannleikur sem er talaður í heift og úlfúð er ekki sannleikur heldur lygi, því sannleikurinn leiðir okkur nær Guði, og Guð er kærleikur. Sannleikur er annaðhvort skýrleiki kærleikans eða hann er ekki neitt.“ (Lausleg þýð. BPB) Með þessi orð í huga bið ég góðan Guð að gefa ykkur öllum gleðiríka jólahátíð í Jesú nafni. Amen.