Elskar þú mig?

Elskar þú mig?

Magnaðasta og mikilvægasta spurning í lífi fólks. Ég er viss um að við eigum öll reynsluna af því sitja hvað eftir annað í myrkvuðu kvikmyndahúsi og á tjaldinu er tvær manneskjur og spennan er gífurlega þegar borinn er fram þessi spurning: „Elskar þú mig?“

Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“

Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“

Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“

Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“

Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“

Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“

Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir en þegar þú ert orðinn gamall munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ Þetta sagði Jesús til að kynna með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt sagði hann við hann: „Fylg þú mér.“ Jóh 21.15-19

Magnaðasta og mikilvægasta spurning í lífi fólks. Ég er viss um að við eigum öll reynsluna af því sitja hvað eftir annað í myrkvuðu kvikmyndahúsi og á tjaldinu er tvær manneskjur og spennan er gífurlega þegar borinn er fram þessi spurning “Elskar þú mig” “Do you love me”. Og við vitum að allt umbreytist með þessari spurningu og svarinu við henni. Því líkur léttir þegar svarið er JÁ “Yes, I love you” og svo er fallist í faðma. Ég er hrædd um að við íslendingar höfum verið alltof spör í gegnum aldirnar að játa ást okkar. Ég hef haft margt miðaldra fólk í sálgæslu sem vissi af væntumþykju foreldra sinna en hafði aldrei heyrt foreldra sína segja: “Ég elska þig”. Við þetta norræna jarðbundna fólk höfum sparað þessi orð óþarflega við ástvini okkar. Ég er hrædd um að mörg manneskjan hafi ekki sagt þetta við ástvini sína hér á landi fyrr enn á dánarbeðinu og þá hvíslað þau með eftirsjá að hafa ekki gert það fyrr. Ég hvet allra foreldra að vera dugleg að játa ást sína á börnum sínum. Ég hvet hjóna-og sambúðarfólk að játa ást sína hvert á öðru. Elskar þú mig? Spurning guðspjallsins í dag. Ég held að þessi spurning liggi dýpst í vitund allra manna, alls fólks. Já! Við erum öll háð því að vera elskuð. Þannig erum við. Jesús spurði Pétur vin sinn þessarar spurningar. Jesús hafði fengið að reyna ástleysi af verstu sort. Pétur hafði lýst því yfir að hann væri reiðbúinn að ganga í dauðann fyrir hann en flúði svo samt af hólmi eins og allir hinir lærisveinarnir. Síðan neitaði hann að nóttu í þrígang og sór við Guð að hann þekkti ekki Jesú. Pétur hafði áður heitið Símon, en Jesús gaf honum nafnið Pétur, sem þýðir klettur “Á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína” hafði hann sagt. Svo þegar Jesús spurði hann sagði hann: “Símon Jóhannesson, elskar þú mig?” Hann fór með Pétur á byrjunarreit. “Símon Jóhannesson, elskar þú mig?” Hann svaraði: “Já, Drottinn. Þú veist að ég elska þig” Hann hefur örugglega beðið eftir þriðja skiptinu og kippst við þegar spurningin reið yfir. Pétur hefur heyrt í huga sínum hanagalið í garði æðstaprestsins. Allir menn standa í garði æðsta prestsins, umkringdir gráðugri veröld. Hvert sinn sem við ekki viljum kannast við að manneskjur eru manneskjur þá galar haninn. Spurningin er bara sú hvort við heyrum í hananum. Spurningin er sú hvort samviska okkar er særð eða slævð. Enginn maður hefur góða samvisku. Allir hafa brugðist nánunga sínum í hjartakulda og sérgæsku. Við sjáum þetta mjög greinilega í íslensku samfélagi og í okkar eigin lífi. En hvort berum við slævða samvisku sem ekkert heyrir, eða særða samvisku sem heyrir hanann gala? Eitthvert brjálæðislegasta dæmið um slævða samvisku sem hægt er að finna í mannlífinu eru þjóðernishreinsanir! Bara hugtakið eitt er ógeðslegt og í sjálfu sér rangt—ÞjóðernisHREINSANIR-Það hefur á sér jákvæðan blæ. Hreinsun er jú gott mál. En það sem um er að ræða er nákvæmlega það sama og átti sér stað í garði æðstaprestsins. Menn hætta að kannast við vini sína og nágranna. Menn kannast ekki lengur við að manneskjur eru manneskjur og vilja ekki muna það sem mestu skiptir. Foreldrar Jesú urðu að flýja frá Betlehem með Jesú nýfæddan undan hreinsunarmorðum Heródesar. Þetta er sami hluturinn. Og hvað var það sem ýtti Móse og ísraelsmönnum af stað burt úr Egyptalandi á sínum tíma. Ekkert annað en tilraunir Faraós til hreinsunarmorða á nýfæddum börnum þegar hann skipaði ljósmæðrunum að deyða börn ísraelsmanna. Það er ekkert nýtt undir sólu. Grimmd hinnar slævðu samvisku hefur fylgt mannkyni frá örófi. Hatur getur erfst óafvitandi í gegnum kynslóðirnar. Við skulum ekki ímynda okkur að annað sé að gerast milli kynslóða t.d. ísraelsmanna og palestínumanna í dag. Hvað annað er að gerast í huga þessara ungu barna sem þjást og missa á Gasasvæðinu. Fullorðna fólkið innrætir hatur meðal þessara barna. Það er skelfilegt að hugsa til þess, hvernig verður þá nokkurn tímann hægt að koma í veg fyrir átök og ofbeldi t.d. á þessu landsvæði, fyrir botni miðjarðarhafs. Ofbeldi er í raun svo einfalt. Það geta allir beitt ofbeldi. Það kostar bara fyrirhöfn. Kristur hefur lýst því yfir að sú leið er ófær. Bæði í mannlegum samskiptum og í alþjóðasamskiptum. “Slíðraðu sverð þitt!” sagði Jesús við Pétur í Getsemane. “Allir sem sverði bregða munu fyrir sverði falla”. Slævð samviska getur orðið félagslegur arfur. Jesús vill vekja samvisku okkar til meðvitundar. Hann spurði ekki bara Pétur, hann spyr okkur hvert og eitt: “Elskar þú mig” Hann spyr aftur og aftur og aftur, alveg þar til samviskan vaknar og við heyrum hanann gala í hjarta okkar. Já! – Hvaða degi var haninn að heilsa í garði æðsta prestsins. FÖSTUDEGINUM LANGA. Jesús vill vekja samvisku okkar upp á föstudeginum langa. Hann vill að við göngum að krossinum hans og sjáum þjáningu hans. Hann vill að við meðtökum þann veruleika sem krossfesting hans var og er. Hann vill að við sjáum hvernig Guð sigrar ofbeldið. Hann vill að við sjáum hvernig Guð hefur tekið á sig aðstæður þjáðrar veraldar. Börnin sem við sáum þjást á Gasa á þessum vetri eru ekki undanskilinn. Eitt þessara barna hefði getað verið Kristur. Krossfestingin var lokapunkturinn á því ferli að Guð tók á sig kjör okkar, gerðist manneskja og spurði okkur þeirrar spurningar sem er brýnust: “Elskar þú mig?” Við skulum ekki gleyma því að Pétur sat ekki áfram og ornaði sér við bálið í hallargarði æðsta prestsins. Hann var sönn manneskja. Hann spratt á fætur og flýtti sér útfyrir og grét. Þannig vill Guð ekki heldur að við sitjum samviskulaus við eld græðginnar í samfélagi okkar þar sem sóun og umhyggjuleysi hefur alltof mikið og lengi ráðið ríkjum. Nei, við eigum að rísa á fætur í þessu þjóðfélagi, við eigum að iðka lýðræðið, samtalið, samstöðuna, og ástina. Þegar við heyrum hanann gala megum við ekki sitja og slæva samvisku okkar heldur hljótum við að ganga út fyrir með særða samvisku og biðja um styrk til að breyta því sem við getum breytt. Það gerði Pétur og Guð gaf honum styrks síns heilaga anda til þess að verða málsvari réttlætisins. Hann gaf honum styrk til að vera hirðir í kirkju sinni. Pétur elskaði Krist og í félagsskapnum við hann lærði Pétur að elska heiminn og alla menn. Hann endaði ekki hræddur og skjálfandi við bálið í garði æðstaprestsins. Samviska hans vaknaði við hanagalið, hann stóð á fætur í veikleika sínum til þess að bera ótta sinn fram fyrir kross Jesú. Hann gat ekki í eigin mætti horfst í augu við grímmúðugan heiminn. En þegar Jesús var upprisinn og heilögum anda hafði verið úthellt í hjörtum lærisveinanna þá gekk hann aftur inn í þennan sama garð, horfði óhikað í sömu augun sem hann hafði áður óttast og bar lífinu og sannleikanum vitni. Þú þarft ekki að sitja hræddur eða hrædd við eldinn. Kristur er upp risinn. Grimmdin, ranglætið og óttinn hefur tapað. Stríð eru ómerk. Græðgin getur engu safnað. Við þurfum ekki að hlaupa burt frá bálinu, við getum bara staðið upp þar sem við erum. Eldtungur óttans ná ekki að brenna okkur-hugsum um það á þessum tímum þegar margir vilja tala íslensku þjóðina niður. Og þegar við erum spurð hvort við könnumst við manneskjurnar í kringum okkur, hvort við könnumst nokkuð við Jesú. Þá megum við óhrædd svara með Pétri: Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss”