Hin kristna von

Hin kristna von

Marta kom hlaupandi á móti Jesú, sem loks var kominn, næstum viku eftir að þær sendu skilaboðin, að Lasarus væri að deyja. Þau ræða saman. Hún ber ótakmarkað traust til hans. Hann hafði ekki brugðist nokkrum sem til hans hafði leitað. „Ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn.“

Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu að hugga þær eftir bróðurmissinn.

Þegar Marta frétti, að Jesús væri að koma, fór hún á móti honum, en María sat heima. Marta sagði við Jesú: Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég, að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.

Jesús segir við hana: Bróðir þinn mun upp rísa. Marta segir: Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.

Jesús mælti: Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?

Hún segir við hann: Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn. Jóh. 11. 19-27

Ef þú hefðir verið hér....

Marta kom hlaupandi á móti Jesú, sem loks var kominn, næstum viku eftir að þær sendu skilaboðin, að Lasarus væri að deyja. Þau ræða saman. Hún ber ótakmarkað traust til hans. Hann hafði ekki brugðist nokkrum sem til hans hafði leitað. „Ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn.” Hún hafði án efa séð Jesú lækna sjúka, og heyrt um enn fleiri kraftaverk. En dauðinn var síðasti óvinurinn. Þó svo Jesús hafi vakið litlu stúlkuna hans Jaírusar til lífsins, þá var hún aðeins búin að vera sofandi í nokkra klukkutíma. Og sonur ekkjunnar frá Nain. Hann hafði aðeins verið dáinn í einn sólarhring. Sál hans var ennþá nærri. En Lasarus var búinn að vera í gröfinni fjóra daga. Sálin var eflaust horfin í dánarheima og kæmi aldrei aftur. Því verða viðbrögð Mörtu skiljanleg, þegar Jesús segir henni að bróðir hennar rísi upp. „Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.” Allt virtist um seinan. Öll kraftaverk og undur Jesú fram á þennan dag lutu öðrum lögmálum. Dauðinn, sem aldrei sleppti taki sínu af nokkru sem hann greip, hafði náð Lasarusi. Nú var upprisa efsta dags hlutskipti hans.

Hugmyndir gyðinga um dauðann á þessum tíma voru þær, að dánir biðu í dánarheimum. Við endi tímanna, þegar Guð myndi opinbera sigur sinn og tilgang, myndu dánir rísa upp. Langlífi og ríkidæmi var auglýsing um blessun frá Guði, en fátækt og snemmbær dauði hið gagnstæða. Þær systur voru ekki í góðum málum, ógiftar og karlmaðurinn í fjölskyldunni dáinn. Lánleysi þeirra orðið augljóst og Jesús kom of seint. „Ef þú hefðir verið hér...”

En hér var meira á ferð, stærra og háleitara. Nokkuð sem snerti ekki aðeins afkomu þeirra systra eða sorg þeirra og missi á þessari stundu. Hvort tveggja snerti Jesú og kom honum til að tárast við gröfina. Hann hafði tilkynnt lærisveinum sínum áður en þeir lögðu af stað, að sótt Lasarusar væri ekki til dauða, heldur Guði til dýrðar, að Guðs sonur myndi verða vegsamlegur. Var hann þá að notfæra sér neyð þeirra systra? Það tel ég ekki. Við þekkjum það ef til vill af eigin reynslu, að bænheyrsla getur dregist. Einnig sjáum við er við horfum til baka, hvernig hönd Guðs stýrir og leiðir, jafnvel í erfiðustu kringumstæðum. Guðs góði vilji vakir öllu yfir. Við gröf Lasarusar gerðust þau undur og tákn, sem breyttu hugmyndum manna um alla framtíð.

Kristin von

Gummi litli hafði verið óþekkur. Mamma hans var að ræða við hann um óhlýðni sína og spurði: „Heldur þú að þú komist til himna, ef þú ert svona óþekkur? Hvað ætlarðu að gera þegar lykla Pétur sér óþekktina í lífsins bók og spyr þig um hana? Gummi hugsar sig um og segir svo: „Þegar ég kem til himna, þá ætla ég að hlaupa inn og út um dyrnar og skella þeim aftur og aftur, þangað til Pétur verður þreyttur og segir:„Hættu þessu drengur og vertu annað hvort inni eða úti.”

Kristin von um himnariki og eilíft líf byggist á því, að Jesús sé upprisan og lífið. En sú von er engin almenn bjartsýni eða óskhyggja, heldur von, sem byggist á trúnni á sigur Jesú Krists.

Jesús breytti hugmyndum manna um afdrif látinna og síðustu tíma á þessum degi. Upprisan var ekki lengur í framtíðinni, eftir að menn hefðu verið dánir um árhundruð eða árþúsund, heldur var hún komin til Mörtu, Maríu og Lasarusar á þeirri stundu. Jesús gaf Lasarusi og systrunum lífið á nýjan leik. Hann staðfesti vald sitt yfir dauða og gröf með því að kalla Lasarus út úr gröfinni. Þessi atburður var betur vottfestur en margir aðrir. Þau systkin ásamt lærisveinum voru þarna, en einnig óvinir Jesú, gyðingarnir, sem höfðu ætlað að koma honum fyrir kattarnef og hrakið hann úr Júdeu. Nokkru síðar reis Jesús sjálfur upp frá dauðum á páskadagsmorgni eftir að hafa legið í gröf sinni frá föstudegi. Við þekkjum hvernig búið var að fara með líkama hans.

Upprisutrú

Upprisutrú kristinna manna byggist fyrst og fremst á upprisu Jesú Krists og því að hann var lifandi meðal lærisveina sinna, mataðist með þeim og kenndi, uns hann steig upp til himna. Lífgun eins manns var næg sönnun. En Jesús reisti a.m.k. þrjá einstaklinga upp frá dauðum eins og ritningin greinir frá. Mesta kraftaverkið var þó upprisa hans sjálfs. Dauðinn hélt ekki lengur taki sínu, heldur varð að láta lausa þessa einstaklinga.

Við fall Adams og Evu við upphaf mannkyns, kom dauðinn, syndin, sjúkdómar og illskan inn í heiminn. Sú heimsmynd sem við kristnir menn glímum við, til að reyna að skilja tilveruna, byggir á þeim hugmyndum Biblíunnar. En við það að Jesús reisir Lasarus upp frá dauðum og rís sjálfur upp, kemur nýr flötur, ný vídd inn í trúna og heimsmyndina. Hér er e.t.v. ekki nægilega sterkt til orða tekið. Guð sjálfur breytir gangi sögunnar með því að koma til okkar mannanna í Jesú Kristi. Hann gengur á hólm við dauðann og sigrar. Hann krossfestir syndina og neglir öll skuldabref veraldar á krossinn. Hann sviptir djöfulinn, óvin mannkyns, valdi sínu. Þrátt fyrir þetta er sigur ekki enn í höfn. Fullnaðarsigurinn bíður upprisu og dóms efsta dags. Þangað til starfar kirkjan, biður, boðar og þjónar í kærleika Krists. 6. júní árið 1944 hefur verið kallaður D – dagurin í síðari heimsstyrjöldinni. Þá réðust bandamenn inn í Normandí í Frakklandi, náðu ströndinni á sitt vald og hófu gagnsókn. Sigurinn var alls ekki í höfn, en innrásarherinn horfði fram til sigurs. Það var ekki fyr en 8. maí árið 1945, tæpu ári síðar, sem Nasistar gáfust endanlega upp og þriðja ríki Hitlers leið undir lok. Evrópubúar nefna þann dag ‘Victory day’ eða sigurdaginn. Á sama hátt má segja að upprisa Jesú Krists hafi verið upphaf endaloka illskunnar í heiminum. Fullnaðarsigur vinnst ekki fyr en á efsta degi, þegar Kristur kemur aftur að dæma lifendur og dauða. Víða í Biblíunni er horft fram til þeirrar stundar og henni lýst á margvíslegan hátt. Það er talað um nýjan himin og nýja jörð, sem munu verða til, þegar máttur illskunnar og dauðinn hafa verið endanlega sigruð. Upprisa Jesú Krists gefur okkur aðeins forsmekkinn að takmarki Guðs, upprisu allrar sköpunarinnar og eilíft líf þar sem Guð verður allt í öllu. Þá verða eilíf jól, hátíð í kirkju og bæ. Guð verður hjá börnum sínum og allt verður gott. Svo er þessu lýst í Opinberunarbókinni: „Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.” (Op. 21.4)

Við fáum aftur ástvini okkar

Fyrst Guðs sonur sigraði dauðann hjá öðrum og sjálfum sér, er þá ekki eðlilegt og gott að trúa orðum hans, um að sá sem trúi á hann muni lifa þótt hann deyi?

Í þessu felst vonin. Við munum lifa um alla eilífð hjá frelsara okkar. Páll orðar það svo í pistli dagsins, að lífið sé honum Kristur og dauðinn ávinningur. Hann langar til að fara héðan og vera með Kristi, því það sé miklu betra. Við ræningjann á krossinum sagði Drottinn: „Í dag skaltu vera með mér í paradís.” Við lærisveinana sagði hann:„Ég fer að búa yður stað. Þegar ég er farinn burt að búa yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er.” (Jóh.14.3)

Kæru vinir, mig langar til að gleðja ykkur með enn einu atriði. Við fáum aftur ástvini okkar. Systurnar héldu að þær væru búnar að missa bróður sinn, en Jesús gaf þeim hann aftur. Hann er upprisan og lífið. Á þann sama hátt fáum við aftur ástvini okkar. Sá sem er upprisan og lífið hefur ástvini okkar hjá sér þar til við eigum samfundi við þá á nýjan leik. Þeir bíða hjá Kristi í himneskri sælu, uns við hittum þá aftur. Upprisa og eilíft líf er þess vegna nátengd voninni um endurfundi og huggun í sorg.

Jesús sagði: Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?

Megi svar Mörtu vera okkar svar: Já, herra. Ég trúi ...

Flutt í útvarpsmessu 11. september 2005.