Takturinn í samfélaginu

Takturinn í samfélaginu

Það er átak að ætla að ganga í takt við það samfélag sem Jesú hvetur okkur til að byggja upp. Hann spyr hvar hjarta okkar slær, vill að við leyfum því að slá í takt við þá sem minna mega sín en ekki í takt við auðvaldið.

Enn á ný er takturinn sleginn á búsáhöld við Seðlabankann og víðar. Fólkið sem tekur sér stöðu þar, minnir okkur hin á að við búum í taktlausu þjóðfélagi. Það er rétt eins og að einstaklingshyggjan þvingi því upp á hvert og eitt okkar að slá okkar eigin takt, takt sem er allt af því samviskulaus af því að við virðumst ekki geta hugsað okkur að byggja upp samfélag þar sem fólkið er í takt hvort við annað. Það sem er sérstaklega vont við þetta taktleysi er að við virðumst ekki ætla að halda okkur við nótur, hvað þá tónverk.

Stundum þykir mér þó sem tónverkið sé eftir mammón, þann mammón sem Biblían varar við. Í Lúkasarguðspjalli (16:13) erum við minnt á að enginn getur þjónað tveimur herrum. Við þurfum að velja á milli þess Guðs sem skapaði heiminn og sendi son sinn okkur til bjargar og hins rangláta mammóns! Valið virðist ekki vera okkur auðvelt, mörg okkar – og þar get ég ekki undanskilið sjálfan mig – eigum í erfiðleikum með að taka eindregna afstöðu með samfélagi þar sem við erum í takt hvort við annað.

Ungur, ríkur maður kom til Jesú og spurði hann hvað hann gæti gert til að öðlast hið eilífa líf. Svar Jesú var afdráttarlaust: ,, Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En þessi ungi maður varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir. Það er átak að ætla að ganga í takt við það samfélag sem Jesú hvetur okkur til að byggja upp. Hann spyr hvar hjarta okkar slær, vill að við leyfum því að slá í takt við þá sem minna mega sín en ekki í takt við auðvaldið.

Kirkjan sjálf á í þessum erfiðleikum. Ég fæ ekki betur séð en að okkur sem erum kirkjan hætti allt of oft til að byggja hallir í stað þess að sinna fólki, þjóna auðvaldinu í stað þess að slá þann búsáhaldatakt sem krefst jafnrar stöðu á meðal mannfólksins. Vert er að minna okkur öll á að sú jafna staða á ekki að nema staðar við manngerð landamæri. Guð skapaði heiminn allan, ekki bara Ísland. Manneskjan, hvar sem hún er fædd, hver sem litarháttur hennar er, stjórnmálaleg eða trúarleg afstaða hennar er, er gerð í Guðs mynd, Guð elskar hana og Jesú hvetur hana til samfylgdar við sig í uppbyggingu á samfélagi jafnræðis og samstöðu. Slíkri uppbyggingu fylgir að borðum víxlaranna sé velt (Markús 11:15) og mammón kveðinn í kútinn.

Ef taktur jafnræðis á að nást í þessum heimi, þurfum við hvert og eitt að hefjast handa heima fyrir. Við þurfum að vanda valið þegar við verslum því að með innkaupum okkar tökum við afstöðu með eða á móti barnaþrælkun, með eða á móti bóndanum sem framleiðir vöruna, með eða á móti umhverfinu, nærsamfélaginu, verslunarkeðjunni ... En sú vinna nær lengra, hún þarf að ná til hjartans, við þurfum að átta okkur á því að við erum þau sem minna mega sín, við erum ekkert öðruvísi en sá einstaklingur sem stendur frammi fyrir gjaldþroti, á ekki fyrir mat þegar búið er að greiða mikilvægustu reikningana, getur ekki leyft sér nokkuð sem heitir munaður. Þetta er spurningin um samtöðu. Eða eru 150 ára gömul orð Íslendingsins ekki enn í fullu gildi? ,,Vér mótmælum allir!“