Lærisveinar í afneitun

Lærisveinar í afneitun

Ég veit ekki hvort þú kannast við óraunveruleika tilfinninguna og doðann sem getur heltekið okkur þegar við fáum vondar fréttir. Og þú þekkir kannski afneitunina sem getur fylgt því. Ég held að þetta hafi kannski komið fyrir okkur, íslensku þjóðina, þegar bankarnir hrundu og kreppan skall á. Fæst okkar vildu líklega trúa því að ástandið yrði eins hræðilegt og það hefur orðið og mun verða.

Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa. “En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var. Lúk 18.31-34

Skilningslausir lærisveinar

En þeir skildu ekkert af þessu. Orð þessi voru þeim hulin. Þeir skynjuðu ekki það sem sagt var. Hér er aldeilis lögð áhersla á að lærisveinarnir hafi ekki skilið orð Jesú. Það er endurtekið þrisvar.

Vinur þeirra og meistari segir þeim að nú eigi að taka hann af lífi, að hann verði hæddur, að honum verði misþyrmt, að á hann verði hrækt. Hann segir að hann verði húðstrýktur og drepinn. Og lærisveinarnir skilja þetta ekki.

Hvað er það sem þeir ekki skilja?

Skilja þeir ekki að brátt muni vinur þeirra deyja?

Skilja þeir ekki að brátt verði sá sem þeir elska handtekinn, píndur og hæddur? Eða skilja þeir kannski ekki að hann muni rísa upp aftur á þriðja degi? Ég held að þeir skilji ekkert af þessu. Ég held að þeir vilji ekki skilja þetta, að þeir heyri ekki það sem Jesús segir þeim því það er of hræðilegt. Þeir eru að verja sig gegn þessu hræðilega. Þeir afneita því.

En hvernig ætli það sé fyrir Jesú að upplifa skilningsleysi þeirra? Hann trúir þeim fyrir því að endalok lífs hans séu að nálgast og þeir hlusta ekki, eða skilja ekki. Ég sé þetta fyrir mér þannig að Jesús er búinn að safna kjarki til þess að segja bestu vinum sínum frá þessu hræðilega sem brátt muni gerast. Og hverskonar vinir eru þetta eiginlega sem ekki hlusta, ekki skilja. Í þessum stutta texta sé ég fyrir mér hinn mannlega Jesú Krist. Jesús var nefnilega algjörlega maður um leið og hann var algjörlega Guð. Guð varð maður í Jesú Kristi. Og hann varð ekki aðeins mannlegur Guð. Hann varð algjörlega og fullkomlega maður. Og þarna held ég að við sjáum hið mannlega hjá Jesú. Hann langar kannski að ræða við vini sína um dauðann. En einhvern veginn er það of erfitt fyrir þá og þeir bregðast honum.

Ég efast um að vinir Jesú hafi allir verið svo heimskir að þeir hafi ekki skilið hann. Hann valdi sér varla eingöngu vitleysinga sem vini. Nei ég held að þeir hafi bara ekki getað rætt þetta við hann. Kannski vildu þeir ekki viðurkenna eða trúa því að eitthvað svo vont gæti gerst.

Sorgarviðbrögð

Ég veit ekki hvort þú hafir einhvern tíma fengið svo hræðilegar upplýsingar, eða fréttir að þú hafir valið að trúa þeim ekki, að þú hafir kannski ekki skilið þær almennilega. Þó ekki sé nema stutta stund.

Ég veit ekki hvort þú kannast við óraunveruleika tilfinninguna og doðann sem getur heltekið okkur þegar við fáum vondar fréttir. Og þú þekkir kannski afneitunina sem getur fylgt því. Ég held að þetta hafi kannski komið fyrir okkur, íslensku þjóðina, þegar bankarnir hrundu og kreppan skall á. Fæst okkar vildu líklega trúa því að ástandið yrði eins hræðilegt og það hefur orðið og mun verða. Mörg okkar afneituðu þessu, keyptu dýrar jólagjafir eins og undanfarin jól og héldu þau með pomp og prakt þó atvinnuleysi, launalækkanir og verðhækkanir hafi blasað við. Og það var ekki aðeins almenningur sem afneitaði. Þau sem stjórnuðu landinu gerðu það líka. Þegar afneitunin gekk ekki lengur þá tók kannski einhverskonar doði og óraunveruleika tilfinning við. Kannski var það þess vegna sem það gerðist ekki svo mikið til að byrja með. Við vorum líkleg öll í sjokki, almenningur og þau sem stjórnuðu landinu.

Þegar Jesús trúir lærisveinunum fyrir örlögum sínum, þá eru það enn aðeins orð. Ekkert hefur gerst. Hann er ekki dáinn. Hann hefur ekki verið handtekinn. Þeir geta látið sem ekkert sé þar til eitthvað gerist.

Þetta er kannski ekki ólíkt því að fá fréttir af því að einhver sem er þér kær sé haldinn ólæknandi sjúkdómi og eigi stutt eftir. Það eru alltaf hræðilegar fréttir og það er misjafnt hvernig við bregðumst við þeim. En öll verjum við okkur með einhverjum hætti. Það gerum við einfaldlega til þess að lifa af. Þetta er kannski ekki ólíkt því að fá fréttir af því að einhver sem þú elskar sé að fara í fangelsi og hafi kannski gert eitthvað hræðilegt. Tilfinningarnar eru kannski ekki ólíkar þeim sem geta hellst yfir þig ef þú missir vinnuna. Ef þú sem alltaf hefur haft vinnu og getað séð fyrir þér og þínum en síðan er þér sagt upp og þú hefur ekkert. Kannski ferðu í afneitun, verður dofinn og allt verður óraunverulegt, þó ekki sé nema stutta stund.

Þetta eru allt saman klassísk sorgarviðbrögð sem ekkert okkar kemst hjá að upplifa einhvern tíma á ævinni.

Lærisveinarnir voru að öllum líkindum í afneitun. Það var þeim um megn að meðtaka þessar fréttir.

Að deila sársaukanum með öðrum

En hvernig ætli upplifunin hafi verið fyrir Jesú sjálfan. Hann trúir vinum sínum fyrir því sem er að fara að gerast. Ég tel ólíklegt að hann hafi gert það í von um að þeir kæmu í veg fyrir það. Ég held að hann hafi gert það vegna þess að hann vildi létta örlítið á byrðinni sem hann bar og ákvað að treysta vinum sínum. Hann vildi tala, segja frá. Hann þurfti á skilningi að halda. Hann var kannski sjálfur í sorg. Sorg yfir of stuttu lífi. Sorg yfir mannkyninu sem ekki vildi hlýða og sem ekki vildi trúa honum, trúa á hann.

Þegar eitthvað mikið gerist í lífi okkar þá höfum við flest þörf fyrir því að deila því með einhverjum. Að sjálfsögðu er þörfin mis mikil og við gerum þetta á mismunandi hátt. Þau sem eru sérfræðingar í muninum á hegðun kynjanna vilja meina að konur hafi ríkari þörf fyrir að tala um alla hluti á meðan karlmenn þegja og melta þetta með sér lengi vel en opna sig síðan þegar þeir eru tilbúnir. Og þeir hafa kannski ekki alltaf sömu þörf og konurnar til þess að ræða þetta ofan í kjölinn.

Ég veit ekki hvort Jesús var dæmigerður karlmaður (ef þeir eru þá til) eins og við þekkjum þá 2008.

Kannski vildi hann ekkert kryfja þetta ofan í merginn með lærisveinunum en hann vildi samt augljóslega segja frá.

Og þeir gátu ekki einu sinni hlustað og hvað þá skilið!

Ég get aðeins gert mér í hugarlund hræðslu Jesú við allt sem átti eftir að gerast og við hana bættist einmannaleikinn. Ég vona að þú hafir einhvern að tala við þegar þér líður illa.

Kristur er alltaf tilbúinn að hlusta og hann þjáist með þér hvort sem þú gefur honum rými í hjarta þínu eða ekki.

Staðgenglar lærisveinanna

En við þurfum líka á vini að halda sem við getum séð og snert og því erum við svo mikilvæg hvert fyrir annað. Ef þú átt góðan vin eða vinkonu sem þú getur treyst og deilt með tilfinningum þínum þá er það kannski gjöf Krists til þín. Kannski er það hans aðferð til þess að láta þig finna að hann er með þér, að hann er að hlusta.

Ef einhver treystir þér fyrir erfiðum tilfinningum eða hræðilegri lífsreynslu þá er ekki gerð sú krafa á þig að þú takir sársaukann í burtu og gerir allt gott á ný. Það er aðeins gerð sú krafa á þig að þú þorir að hlusta og heyra það sem sagt er. En eins og lærisveinarnir, þá getum við ekki heyrt og meðtekið allt. Sumt er einfaldlega of erfitt. Og þess vegna eru nú til samtök og félög fyrir fólk sem á við ýmsan vanda, sorg eða veikindi að stríða. Það er til félag fyrir fólk sem greinist með krabbamein og fyrir aðstandendur þeirra. Það eru til samtök fólks sem misst hafa börn, fyrir MS sjúka og svo mætti lengi telja. Prestar bjóða upp á samtöl og eru þjálfaðir í að hlusta, líka á þetta erfiða og hræðilega.

Vinir og ættingjar geta ekki alltaf veitt þann stuðning sem sá sem líður þarf á að halda frekar en lærisveinarnir gátu. Því er Gott að geta leitað til annarra. Einhverra sem geta verið staðgenglar lærisveinanna, staðgenglar vinanna. Þar er Kristur einnig að verki.