Ævintýrin eru börnum bjóðandi

Ævintýrin eru börnum bjóðandi

Eftir endurtekinn lestur bókanna um Harry Potter finnst mér þær vera um allt annað en kukl og Satansdýrkun. Mér finnst þær aftur á móti fjalla um það til dæmis að ekki séu allir menn eins, þeir séu ekki annað hvort algóðir eða alvondir.
Arnfríður Einarsdóttir
14. febrúar 2002

Eftir endurtekinn lestur bókanna um Harry Potter finnst mér þær vera um allt annað en kukl og Satansdýrkun. Mér finnst þær aftur á móti fjalla um það til dæmis að ekki séu allir menn eins, þeir séu ekki annað hvort algóðir eða alvondir. Söguhetjurnar gera líka mistök en boðskapurinn er sá að menn eiga að vera heiðarlegir gagnvart sjálfum þér og öðrum og vinir í raun.

Þá er lögð áhersla á það að allar manneskjur séu mikils virði og hafi hæfileika, t.d. bekkjarfélagi Harrys, sem er lítill í sér og getur ekkert í íþróttum, hefur líka hæfileika og í einni bókinni sýnir hann mikið hugrekki. Nokkrir skólafélagar leggja aðra í einelti og stríða Harry fyrir að vera foreldralaus, vini hans fyrir að vera fátækur og vinkonu hans fyrir að vera ekki af galdraættum. Hér er lýst dæmigerðu einelti, bæði gagnvart börnum og fullorðnum, vegna ástæðna sem allir þekkja. Hins vegar er í bókunum lögð áhersla á það að slíkt skipti ekki máli, heldur beri að meta hverja manneskju eftir henni sjálfri, án tillits til ættar, stöðu eða ríkidæmis. Svo eru bækurnar fyndnar og skemmtilegar. Mér finnst slík lesning ekki óholl.

Börnin þola að nota ímyndunaraflið

Gallinn við umræðu sumra um skaðsemi Harry Potter er sá að hún virðist byggjast á þeirri skoðun að börn eigi ekki að lesa aðrar bækur en þær sem fjalla um það að allir eigi alltaf að vera góðir og eigi ekki að nota ímyndunaraflið, því það leiðir menn ekki alltaf að því sem sumir telja vera hreinan og kláran kristindóm. Ég er ósammála þessu og held ekki að sögur um það, sem aflaga fer, hafi vond áhrif á börn svo fremi sagan færi jafnframt einhvern góðan boðskap um það hvernig glíma megi við það og leysa vanda.

Venjulegt fólk og siðferðileg ábyrgð

Boðskapur Harry Potter bókanna er ekki sá að galdrar leysi vandann. Það er heilmikil hugsun í því hvernig má nota galdrana í Potterbókunum og hún snýst að mínu áliti einmitt um það hvernig maður á að nota hæfileika sína almennt, gáfur og ímyndunarafl. Samkvæmt bókunum eiga menn ekki að nota hæfileika sína og gáfur öðrum til tjóns eða í tilgangsleysi og þeir bera fulla ábyrgð á orðum sínum og gjörðum. Hér er ekki hvatt til kukls og svartagaldurs heldur svífur andi ævintýra með heilbrigðum boðskap yfir vötnum. Hins vegar eru söguhetjurnar hvorki algóðar né alvondar heldur eins og fólk er í alvörunni, breyskar manneskjur með kosti og galla. Mér finnst lítið gert úr skynsemi barna og viti að telja þau ekki höndla slíkar sögupersónur.

Hæfilegir og hollir skammtar

Galdrarnir í Potterbókunum eru líka þeir sömu og galdrar í öðrum ævintýrum, eitthvað sem alla krakka hefur einhvern tíma dreymt um. Hingað til hef ég ekki talið Síðasta bæinn í dalnum kukl þótt börnin í sögunni svífi í kistu fyrir einhverja galdra eða töfra. Aladdín sveif um á fljúgandi teppi og átti töfralampa. Sögurnar í 1001 nótt eru fullar af skrítnum fyrirbærum. Þyrnirós svaf í heila öld, kannski fyrir galdra?

Þessi ævintýri þykja mér börnum bjóðandi og tel ekki að þau séu þeim til tjóns. Þau auka án efa ímyndunarafl þeirra og kynna þeim töfra bókmennta og sagnalistar. Mín skoðun er sú að hæfilegir skammtar af ævintýrum og töfrum séu öllu fólki hollir, bæði börnum og fullorðnum.