Forgangsröðun!

Forgangsröðun!

Þær snerta okkur misdjúpt fréttirnar úr fjölmiðlunum, sem við heyrum daglega og stundum nokkrum sinnum á dag. Sumir telja sig ekki geta verið án frétta en engu síður geta þær valdið streitu og stressi.

Þær snerta okkur misdjúpt fréttirnar úr fjölmiðlunum, sem við heyrum daglega og stundum nokkrum sinnum á dag.

Sumir telja sig ekki geta verið án frétta en engu síður geta þær valdið streitu og stressi.

Féttirnar um að Alþjóða Heilbrigðisstofnunin WHO hefði hækkað viðbúnaðarstig sitt í vikunni vegna heimsfaraldar, Svínaflensu eru eitthvað sem maður er hræddur og óöruggur við.

Daglega hefur verið greint frá fleirum sem hafa verið greindir með flensuna, í fleiri þjóðlöndum og tala látinna hækkar.

Þetta eru fréttir sem vekja hjá manni ótta og ugg og óneitanlega leiðir maður hugann að sér og sínum.

Dagblað eitt hér í Englandi gekk svo langt í vikunni að birta stóra forsíðumynd af tveimur bretum sem hafa verið greindir en eru á batavegi.

Fyrirsögn blaðsins var eitthvað á þessa leið:

„Viltu að þessi smiti þig?“

Hver er tilgangur þessarar fyrirsagnar?

Söluaukning blaðsins?

Gera erfiðleika annarra að söluefni?

Skapa hræðslu?

Fólk að deyja sökum þessarar flensu og það er verið að bregðast við henni með viðvörunum, fræðslu og lyfjagjöf.

Sérfræðingar eru að átta sig á ástandinu og hvernig sé best að bregðast við og það tekur tekur tíma.

Margir eru hræddir.

En ekki ber mikið á í fjölmiðlum þeirri hræðilegu staðreynd að 27 þúsund börn í heiminum deyi á hverju ári úr fátækt.

Hvernig er brugðist við þeirri staðreynd?

Þær eru ýmsar fréttirnar sem hafa vakið með manni ugg og ótta í gegnum tíðina og maður oft ekki getað gert sér í hugarlund hvernig hægt verði að komast í gegnum hlutina, allt hefur þetta vaxið manni svo í augum. En þrátt fyrir það allt heldur lífið áfram.

Það er margt að skelfast í þessu lífi því það á í vök að verjast gegn dauðanum og maður verður að fara með gát.

Heimilið þar sem þú býrð er ef til vill gamalt hús sem á sér sögu baráttu og blíðu.

Göturnar sem þú leiðir börnin þín yfir á hverjum virkum degi á leið í skólann, þær eiga sér sögu. Þar hafa orðið slys jafnvel dauðaslys í gegnum tíðina.

Bílstjórarnir eða þau sem þú mætir, þau eiga sér sögu.

Kannski líður þeim illa eða vel, hafa mætt einhverju erfiðu, eru stressuð og eða afslöppuð.

Þú ert með augun og athyglina hjá þér þar sem þú og börnin þín halda áfram á leið í skólann.

Það þarf að gæta sig á því að rekast ekki á neinn, ekki hlaupa út á götu og að ekkert komi fyrir, sem geti skaðað þau.

Hætturnar eru víða og þær þarf að varast.

Hvað tekur við?

Má ekki líka spyrja:

“Hver tekur við?”

“Er einhver á bak við þetta allt?

“Hjarta yðar skelfist ekki, trúið á Guð og trúið á mig. Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.”

Þessi orð sagði dauðadæmdur maður á hinsta kvöldi sínu.

Og rétt áður en hann er krossfestur segir hann:

“Skelfist ekki, trúið á Guð og trúið á mig, faðirinn, sem er á bak við allt, þér þekkið hann ef þér þekkið mig, ég fer til þess að búa yður stað í stóru húsi föður míns og svo kem ég og tek yður til mín til þess að þér séuð þar sem ég er.”

Á skírdagskvöldi eru þessi orð sögð, kvöldið fyrir krossfestingu, en þau eru skráð eftir páska, eftir upprisu, og varðveitt vegna þess að höfundur þeirra steig upp úr hylnum, ekki til þess að auglýsa það sérstaklega, að hann hefði komist af og að það væri líka líf í djúpinu, heldur til þess að opinbera það vald, sem er sterkara en allar flensur, umferðarhættur, þann mátt sem hið daglega hjaðnar fyrir, strandar á.

Hvað tekur við?

Hver hefur valdið, úrslitin í hendi sér?

Að lifa og njóta, upplifa og eiga þetta allt saman, er ýmsum keppikefli í þessu lífi.

En hraðinn getur orðið of mikill, freistingarnar liggja víða og erfitt að stjórna alltaf lífsins takti.

Þá verður að forgangsraða og setja mörk.

Það komu einu sinni bændur frá Texas í heimsókn til starfsfélaga sins í Þingeyjarsýslu.

Sá hitti þá úti á túni og lýsti landinu og kostum þess fyrir hópnum.

“Nú landið liggur hér í suðri að ánni þarna” sagði bóndinn stoltur “og upp eftir þessari fjallshlíð í austri og norðri og svo að þjóðveginum í vestri”.

Einum úr hópnum fannst þetta nú ekki mikið og sagðist geta sest upp í jeppann sinn við sólarupprás í Texas og þó hann keyrði beint af augum til sólarlags væri hann enn þá innan bújarðar sinnar.

Sá þingeyski horfði á starfsbróður sinn, fékk sér hressilega í nefið og sagði:

„Já, já, ég átti nefnilega einu sinni svona jeppa!!“

Veraldlegi auðurinn er ekki allt, né metingur um land eða aðrar veraldlegar eigur.

Dauðinn gerir ekki mannamun og það gerir lífið ekki heldur, hið raunverulega líf.

Líkklæðin hafa enga vasa, segir orðtakið.

Og hvort sem þú átt auðæfi í löndum og lausum aurum eða vart meir en moldina undir skósólunum þínum, þá skiptir það engu í innsta samhengi tilverunnar.

Jesús Kristur er sá sem sigrað hefur dauðann.

Hann haggast ekki, hann stendur með krossinns sinn, kærleikans sigurtákn, ofjarl dauðans, lífsins höfundur og konungur.

Hann birtir það í upprisu sinni, að ægivald dauðans er ekki hið algera né endanlega, það er aflvana, nær ekki lengra en til hans, lýtur honum, fellur að fótskör hans, bugað, brostið.

Skelfist ekki, trúið, treystið mér og Guði, föður mínum, þér sjáið hann þar sem þér sjáið mig, komið, verið þar sem ég er, þar sem ekki er framhald þess sem er, heldur allt nýtt, algerlega nýtt, engin tvísýna, þar sem líf kærleikans er fullkomnað, þar sem Guð er allt í öllu.

Hann er vegurinn, brúin yfir djúpið, sannleikurinn og lífið sjálft.