Kirkjan í sveitinni

Kirkjan í sveitinni

Og ekki leið á löngu fyrr enn skuldin við kaupmanninn á Seyðisfirði var að fullu greidd. En uppi stóð þetta fallega hús sem enn er hlúð að af sama metnaði og alúð og mótað hefur viðhorf fólksins í sveitinni til kirkjunnar sinnar um aldir.

Hér í Þingmúla hefur staðið kirkja um aldir. Við hverja helga stund í kirkjunni, þá erum við í fótsporum genginna kynslóða. Minnumst og þökkum um leið og við horfum fram á veg og ræktum fallega von. Saga kirkjunnar er svo samofin mannlífinu í landinu, ekki einvörðungu hinum stærstu atburðum í þjóðlífinu, heldur hinni persónulegu sögu fóksins og sveitarinnar í blíðu og stríðu.

Kirkjan er því persónulegur staður sem fólkið binnst með tilfinningum sínum, ræktar minningar samofnar stundum og samverum í kirkjunni sem hvíla djúpt í sálinni. Heilagur staður, helgaður af Guði, en líka af fólki í aldanna rás. Sömuleiðis er kirkjan kjölfesta og vitnisburður um menningu og reisn mannsins.

Er það tilviljun að þær skuli enn standa, vera viðhaldið og mikið í lagt að varðveita þær og glæða helgu lífi? Nútíminn heimtar hagræðingu og samþjöppun á öllum sviðum. En kirkjan stendur á sínum stað, falleg hús og sómi sinni sveitar.

Þingmúlakirkja er lifandi vitnisburður um það. Þetta fallega hús sem reist var 1865 og endurbyggt frá grunni árið 1886. Sagan um þá byggingu segir mikið um stórhug og metnað í sveitinni og ástríkið í garð kirkjunnar undir forystu sóknarprestsins, sr. Páls Pálssonar.

Presturinn veðsetti kirkjuna til Ottó Watne, kaupmanns á Seyðisfirði, til þess að geta tekið út byggingarefnið sem svo var flutt frá Seyðisfirði á Hrúteyri við Reyðarfjörð og þaðan hingað í Þingmúla. Biskupinn í Reykjavík var ekki sáttur við veðsetningu kirkjunnar og skrifaði um það í sérstöku bréfi á til prófastsins.

En bygginginarframkvæmdin tók aðeins sumarið og var í raun reist alveg ný kirkja og vígð á fyrsta sunnudegi í aðventu árið 1886 af sóknarprestinum, af því að prófasturinn á Hólmum á Eskifirði treysti sér ekki til að ganga yfir fjöll á þessum tíma vegna veikinda.

Og ekki leið á löngu fyrr en skuldin við kaupmanninn á Seyðisfirði var að fullu greitt, en uppi stóð þetta hús sem enn er hlúð að af sama metnaði og alúð og mótað hefur viðhorf fólksins í sveitinni til kirkjunnar sinnar um aldir. Guð launi það allt.

Þetta er saga um hve rætur kristinnar trúar eru samofnar í þjóðarsálina. Þangað sækjum við andlega næringu, viðmiðin í siðrænum efnum og blómgum fallega menningu. Og í skjóli trúarinnar komum við saman í kirkjunni á stórum stundum lífsins hvort sem er við hinstu kveðjustund, skírnina, ferminguna eða hjónavígsluna, auk þess sem við ræktum fagurt samfélag í kirkjunni með helgri samveru, þegar við tökum okkur hlé frá dagsins önn, eins og við gerum hér núna.

Hér er mikið að þakka. Umvafin sumarsins dýrð, grósku jarðar og uppskeru, fegurð landsins fjalla og engja og ekki síst að við eigum hvert annað að, erum saman á lífsveginum, hönd í hönd. Vináttan er lífinu svo dýrmæt, traust fjölskylduböndin og trúfesti ástvinatengsla. Og vináttan með náttúru landsins sem felst í meiru en að hugsa um veðrið frá degi til dags. Náttúran brauðfæðir mannsins líf. Þar skiptir sumarið með gróandi gjöfum sínum svo miklu um afkomu og velfarnað. Þar eru Guð og maður saman að verkum, hönd í hönd og rækta fagurt mannlíf.

Náttúran kenndi Íslendingum að þroska með sér æðruleysi, en líka lifandi von og ól með fólkinu metnað og kjark til að halda áfram, gefast ekki upp, þrátt fyrir oft mikið andstreymi. Þetta var svo inngróið í trúarvitundina og er enn, að Guð er skapari himins og jarðar og til hans leitum við í blíðu og stríðu, þökkum og biðjum, lofum og minnumst. Finnum þar í samfélagi við Guð áræðni og styrk, huggun og von. Lífsbarátta kynslóðanna vitnar um það, og engin tækni eða vísindi hafa breytt því. Það staðfestir þessi fallega kirkja.

Einu sinni voru þrír menn á ferð um náttúru landsins og hittu fyrir hamingjuna ofan í skurði. Hún bauð þeim hverjum fyrir sig eina ósk. Sá fyrsti bað um fallegt hús til að búa í og samstundis varð honum að ósk sinni. Annar bað um fullar hendur fjár og það varð.

En sá þriðji varð hugsi og vafðist tunga um tönn, svo hamingjan spurði hvort hann vantaði ekki eitthvað. „Nei, ekkert sérstakt, ég hef það ágætt. En hvað ertu þú að gera ofan í þessum skurði“?, spurði þá maðurinn hamingjuna. „Æ, ég datt hérna ofan í og sit hér föst“, svaraði hamingjan. „Ég skal hjápa þér upp úr“, sagði maðurinn, og gerði það og síðan fylgdust þau að hönd í hönd, maðurinn og hamingjan.

Lífið birtist okkur oft í óvæntum atvikum og aðstæðum og öll eigum við minningu um, að það fór öðruvísi en við ætluðum og oft geta atburðir leitt af sér framrás sem enginn sá fyrir. Það er víst, að ekki ber allt upp á sama daginn í lífinu og sérhver dagur og hver einasta stund sem líður er dýrmæt. Og hamingjuna getur einmitt verið að finna þar sem síst skyldi og engum gat til hugar komið.

Margur er svo upptekinn af tækifærunum langt í burtu, en kemur svo ekki auga á dásemdir lífsins sem blasa við hér og nú við hvert fótmál. Og þar ríst hæst samfélagið í ástvinahópi þar sem ræktin við vináttu og traust er í fyrirrúmi og þar sem líka er spurt af andans stryk: Hvað get ég gert fyrir þig, samfélagið mitt, þjóðina mína? Að við þjónum hvert öðru. Þjónusta sem er samofin ástinni sem elskar lífið.

Guðspjallið, sem ég las frá altarinu og helgað er þessum sunnudegi, segir frá því. Hversdagsleg frásögn úr annríki daganna um samskipti Jesú við Farísea og undirokaða konu. Saga sem segir líka svo mikið um það umhverfi mannlegra samskipta sem tíðkuðust á dögum Jesú. Stéttskiptinguna, dramblætið, dómhörkuna.

Margir voru dæmdir til útskúfunar vegna stöðu sinnar, þjóðernis eða veikinda. En Jesús tók einmitt þetta fólk sérstaklega að sér og fyrir honum voru allir jafnir. Lífsréttur hvers einasta manns er heilagur. Þetta var nýtt á þeim tímum. Að elska náungann óháð stöðu og stétt. Og þetta gildismat var ekki til vinsælda fallið hjá yfirstéttinni og leiddi að lokum til að Jesús var krossfestur.

Hver einasti maður er barn Guðs og borið í þennan heim til réttlætis. Það var einmitt þetta gildismat sem skipti svo miklu við útbreiðslu kristninnar í öndverðu. Jesús sagði: „Elskið hvert annað, takið hvert annað að ykkur“. Og það gerðu kristnir.

Barnaútburður var algengur á þeim tímum. Svo fór það að gerast, að útborin börn voru oft skilin eftir við húsdyr kristinna manna, sem tóku þau að sér og ólu upp sem sín eigin börn. Lífsréttur hvers einasta manns var kristnum heilagur og allir eru jafnir í augum Guðs.

Þetta gildismat var svo aftur sett á oddinn með Siðbót Lúthers, sem við minnumst sérstaklega árið 2017, þegar 500 ár verða liðin frá því að sú bylting hófst. Engum vafa er undirorpið, að þróun samfélagsmála í Norður Evrópu varð öðruvísi til velfarnaðar vegna sterkra áhrifa frá Siðbót Lúthers sem festi þar traustar rætur, frekar en annar staðar í álfunni.

Áherslan á lífsrétt einstaklingsins og öflugt átak um alþýðumenntun varð í fyrirrúmi og byggðist á að maðurinn ætti beint samband við Guð sinn í bæn og náð. Siðbótin svipti í raun hina veraldlegu kirkju valdinu yfir Guði og færði frá himninum niður á jörðina þar sem fólkið skynjaði nærveru hans, leiðsögn og vernd og skapandi mátt í önnum daganna.

Kirkjan varð að heilögum samastað þar sem fólkið kom saman í rækt við sína trú á Guð og í rækt við samfélagið með hvert öðru. Þar blómgaðist falleg menning. Guð var ekki skilinn eftir og geymdur í kirkjunni á milli athafna, heldur með og nálægur í lífi fólksins í annríki dagana.

Myndin af heimilisfólkinu sem gengur út úr lágreistu koti sínu árla morguns, horfir til himins og signir sig, helgar sig Guði og þakkar fyrir nýjan dag og leggur í umsjá Guðs. Þetta er falleg mynd, sönn og skír, en segir svo mikið um lífið í landinu um aldirnar.

Það er einmitt þessi nálægð á milli Guðs og manns sem við skynjum svo vel í samtölunum, sem guðspjallið segir frá. Þar eru kona og Faresi á tali í dagsins önn við Guð sinn. Og Jesús opnar augu þeirra með einföldum og hversdagslegum dæmisögum um réttinn til að að njóta lífsins, þiggja Guðs náð og blessun, ekki fyrir það hver maðurinn er, heldur hvernig við viljum haga lífi okkar. Og þar rís eitt boðorð hæst: Að elska Guð og náungann.

Og hér erum við samankomin að kveldi dags umvafin nálægð Guðs og sögu þessarar fallegu kirkju, njótum verka genginna kynslóða og fórnfúsra handa sem standa vörð um þessa kirkju með því að hlúa að og viðhalda öllu af umhyggju.

Og yfir þessari kirkju rísa fjöllin og mynda umgjörðina um sveitina og lífið sem hér blómgast. Og við erum hér og eigum samtal við Guð, finnum fyrir nærveru hans, náð og blessun. Þá blómgast friður í sál og hjarta, og við sjáum fegurðina sem lífið þráir og ræktum von sem elskar allt sem er gott og göfugt. Amen.