Af illu augu

Af illu augu

Okkur er gefið ungum að hugsa um orsök og afleiðingar gjörða okkar. Í djúpvitund mannsins býr vitneskjan um illskuna. Tungumálið tjáir það sem hjartað veit. En með því er aðeins hálf sagan sögð. Flest lesum við um og heyrum vonandi aðeins um líkamsmeiðingar og „tilefnislaust ofbeldi“ eins og það er orðað.

Lúk.11.14-28.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Í hjartans einlægni verður að segja að í gegnum tíðina höfum við manneskjurnar verið ósköp iðin við að merkja eða festa „límmiða“ á ýmis verk og hugsanir sem andinn bíður okkur að gera. Við ætlum einstaklingum eða hópum ákveðna hugsun eða verk sem aftur hefur ákveðnar afleiðingar sem okkur eða einhverjum öðrum er að skapi eða ekki. Það er keppst við setja og koma fyrir einstaklingum og hópum í sérmerktar skúffur eða hillur, sem hægt er að ganga að vísu eins og í stórmarkaði verslana. Mannkynssagan segir af þessum hugsunarhætti hvort heldur það tengist stjórnmálum, bókmenntum, myndlist og eða tónlist, trúarbrögðum svo eitthvað sé nefnt.

Á sínum tíma þegar rokk tónlistin á sjötta áratug síðustu aldar kom til sögunnar var tónlistastefnan af sumum álitin skilgetið afkvæmi djöfulsins sjálfs, slíkur var fyrirgangurinn og hávaðinn í eyrum einhverra. Það er nú einu sinni þannig að ekkert verður til af engu, rokktónlistinn þróaðist út frá ryþmablús og kántrítónlist. Guðhræddar manneskjur voru sannfærðar um að þeir sem spiluðu og þeir sem hrifust af og hlustuðu á Rokk og Ról væru andsetin þess illa, eða djöfulsins sjálfs. Rokktónlistin var á sínum tíma gríðarlega gagnrýnd. Til að byrja með var rokkið mest vinsælt hjá ungu fólki af lágstéttum og líklegast svörtum uppruna. Þetta gerði það að verkum að eldri, hvíta millistéttin fannst þessi tónlist vera smekklaus og vildi ekkert með hana hafa. Rokk tónlistin var bönnuð á mörgum útvarpsstöðvum og í hundruðum skóla. Sumir gengu svo langt og kölluðu rokkið tónlist Satans.

Auðvitað hefur í gegnum tíðna og allt til þessa dags verið spilað og slegið á þessar nótur að verið sé að skemmta skrattanum. Hljómflutningstækin þegar þau komu almennt til sögunar var kallað, glym-skratti.

Ég hef gaman af tónlist, allskonar tónlist. Ég læt mig hafa það að fara á tónleika þegar tækifæri gefst til að lyfta upp andanum og njóta góðra tóna og flutnings eins og við höfum fengið og eigum eftir að heyra meira af hjá okkar ágæta kirkjukór. Ég á til heima að blasta rokktónlistinni úr glymskrattanum sem á sinn sess á besta stað, því ég deili ekki áhuganum á þungarokki með öðrum fjölskyldumeðlinum. Auðvitað er það svo að tónlist almennt sígild eða dægurtónlist samtímans og tjáning andans er margvísleg, ristir djúpt og grunnt og allt þar á milli. Auðvitað er það líka að einhverjir með annarlegar hugsanir stökkva á rokkvagninn og gera það úr tónlistinni sem aðrir hafa ætlað að hún sé-þ.e.a.s. að skemmta þeim gamla í neðra. Í árdaga rokktónlistarinnar trúði grandvart fólk því að þau sem hlustuðu á og eða spiluðu þá tegund tónlistar var og er hætta búin vegna þess að djöfullinn var líklegur til að veiða sálina í manni við þá iðju.

Ég geri ráð fyrir að nafnið Ronald James Padavona segir ekki mikið í eyru flestra ykkar sem enn á hlýðið. Mögulega kviknar ljós hjá einhverjum er ég segi gælunafnið hans (Dio). Hann var bandarískur tónlistamaður af ítölskum ættum sem starfaði meðal annars með hljómsveitunum Rainbow, Black Sabbath og að ógleymdri sveit sinni Dio. Að margra áliti var hann álitin holdgervingur þessa að dýrka djöfulinn í verkum sínum því hann hafði þann sið eða kom á þeim sið á tónleikum og flestum þeim opinberu myndum sem til eru af honum að vera með vísi og litafingur á lofti eins og um horn kölska væri að ræða. Hann gerði þessa kveðju fræga.

Margir tónleikagestir tóku þetta upp eftir honum og enn í dag má sjá þess merki á rokktónleikum og mætti allveg eins flíka þessu merki á Sinfó á fimmtudögum í Hörpu eða á tónleikum með Geirfuglunum eða hinum ástsælu Spöðum svo einhverjar sveitir eru nefndar. Öndvert við það sem margur heldur hefur þetta ekkert að gera með dýrkun á Kölska. Einhverju sinni aðspurður hvers vegna hann gerði þetta svaraði Dio því til að þegar amma hans; guðrædd ítölsk trúuð kona, svæfði hann sem gutta og fór með kvöldbænirnar með honum setti hún visifingur og litla fingur fram eins og horn væri, „þannig varði hún sig frá illu auga.“ Pöpullinn hélt og sumir hverjir enn í dag halda að hann hafi verið að hampa kölska en það var akkúrat öfugt. Amma hans notaði þetta þegar hún var að svæfa guttann til að hrekja illa vætti og anda í burtu.

Flest könnumst við, við orðasambandið „að gefa einhverjum illt auga.“ Trúin á hið illa auga er mjög útbreidd en alls ekki almenn allstaðar í heiminum í dag. Samkvæmt trúnni getur einstaklingur með augntilliti eða lofi gert það að verkum að sá sem fyrir verður veikist, deyr eða eitthvað slæmt hendir. Á það sér langa sögu ekki aðeins í fjarlægum löndum. Trúin á „hið illa auga“ er að finna í Eyrbyggja sögu og Laxdælu og ekki sé minnst á í Biblíunni. Enn í dag er þessi trú á illt auga sterk í löndum Miðjarðarhafs og innflytjendur fyrri ára til Bandaríkjanna, eins og amma hans Dio tóku þessa trú með sér til nýja landsins og Dio heitinn seinna meir yfirfærði á þungarokk nútímans. Sveittir þungarokkarar án betri vitundar eru að verja sig fyrir „hinu illa auga.“ Það er nefnilega þetta með betri vitund.

Betri vitund samtíðarfólks Jesú var sú að veikindi hverskonar orsakaðist af tilveru og íveru illra eða óhreinna anda. Ef þú veiktist var orsökin að illur andi hafði tekið sér bólfestu í líkama þínum. Kann að vera þegar við heyrum þetta og lesum, að okkur sækir nettur hlátur, eða við hristum hausinn í vandlætingu fávisku og hindurvitna fólks fyrri alda. Með öðrum orðum í dag - við vitum betur. Við erum upplýst um orsök og afleiðingar gjörða okkar. Eða það skyldi ég halda.

Ég tók mig til og skoðaði námskrá læknardeildar HÍ. Þar er ekki að finna eitthvað sem kallast mætti særingar anda. Særingar er heldur ekki að finna í námskrá Guðfræðideildar. Samt erum við í sífelllu að fást við andann, slæman sem og góðan anda. Eitthvað sem við getum ekki þreifað á en finnum fyrir. Okkur er tamt að tala um að hér eða þar sé slæmur eða góður andi. Það er slæmur andi eða góður andi á vinnustaðnum í skólastofunni á heimilinu í vina eða kunningja hópnum.

Þegar við leitum skýringa er fátt um svör, þrátt fyrir að við erum upplýst eða kannski má frekar segja að margt það sem hér fyrr á árum var álitið orsök og afleiðing eins og sjúkdómar hverskonar sem herjuðu á fólk er í dag baðað birtu þekkingar og upplýsingar um orsök og afleiðingar. Þökk sé vísindum og ekki síður mannsandanum sem leitast stöðugt við að nema ný ónumin lönd hugans. Þar er að finna grösug sléttlendi sem og eyðihrjóstur, melar, ár og djúp vötn og íllkleif fjöll sem er ekki hindrun á vegferð okkar í leit að þekkingu og ekki síður sannleikanum. Talandi um sannleika.

Djöfullinn hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir. Þessa sögu þarf að segja. Hún kennir okkur að glíma við illskuna í sjálfum okkur og öðrum mönnum. Nú kann einhver að hugsa og eða segja sem á hlýðir. „Hvaða endalausa tal er þetta um andskotann?“ Þá er því til að svara að við þurfum að eiga orð eins og andskotinn. Við þurfum að get sagt djöfull, til að lýsa illskuaflinu.

Ég las hér áðan og þið heyrðuð að Jesú var sakaður um að reka út illa anda með illu. Kann að vera að engin aðferð er skilvirkari þegar bregðast þarf við einhverju böli. Þ.e.a.s. reka illt út með illu. Flest okkar kannast við orðtakið „með illu skal illt út reka.“ Við sjáum þetta í kvikmyndum hvernig brugðist er við þegar mætt er öflum ofbeldis og illvirkja. Þurfa ekki kvikmyndir til heldur gerist það í raunveruleika. Agent Fresco er íslensk hljómsveit sem spilar polyrythmískt oddtime-rokk með djass ívaf. Í einu lagi sveitarinnar „See Hell“ af nýjustu breiðskífu þeirrar ágætu sveitar daðrar söngvari sveitarinnar við hefndina í kjölfar líkamsárásar sem hann varð fyrir. Í fáum orðum sagt kemst hann að þeirri niðurstöðu að engin kemst heill til baka frá ofbeldi, á hann að sakfella eða upphefja reiðina sem fylgdi í kjölfarið? Átti hann að kæra eða taka málin í sínar hendur? Fyrirgefa? Fyrirgefningin er ekki endilega viðurkennt sem aflvaki andstæðrar kraftar sem stendur í báðar fætur frammi fyrir því afli og vita að til eru þær aðstæður þar sem sannleikurinn fær hvorki hljómgrunn né viðspyrnu – samanber-hið illa. Mannkynssagan tekur fleiri hillumetra; ef svo mætti að orði komast, af þesskonar atburðum í skráðum heimildum veraldarsögunnar að ekki sé talað um það óskráða þar sem ryk gleymskunnar hefur lagst yfir.

Aðferðin getur verið siðferðilega ámælisverð enda skilin á milli skilvirkni sem höfð er að leiðarljósi og síðferðilegs réttmætis oft óljós. Þjóðir og til þess að gera einstaklingar telja sig hafa óskoraðan rétt til þess að bregðast við hinu illa. Þá er tvennt í stöðunni: Annars vegar, bjóða hinn vangann, eða beita valdi. Líklega munu fáir viðurkenna síðari kostinn nema vísa til nauðungar og enn færri velja þann fyrri. Svo virðist vera að það sé innmúrað í vestræna hugsun að tala gegn þeim sem aðhyllast ekki þá hugsun að ofbeldi sé réttlætanlegt í krafti bærilegrar niðurstöðu heldur horfa aðeins á og telja að afleiðingarnar einar skipta máli.

Okkur er gefið ungum að hugsa um orsök og afleiðingar gjörða okkar. Í djúpvitund mannsins býr vitneskjan um illskuna. Tungumálið tjáir það sem hjartað veit. En með því er aðeins hálf sagan sögð. Flest lesum við um og heyrum vonandi aðeins um líkamsmeiðingar og „tilefnislaust ofbeldi“ eins og það er orðað.

Jesús stóð frammi fyrir því að taka málin í sínar hendur ekki með þeim hætti sem viðurkennt var á hans tíma eða okkar, en honum samt ætlað að hann hafi gert svo þannig að hann varð að grípa til varnar. Með öðrum orðum, honum eins og ég sagði frá í upphafi var ætlað af samferðarmönnum sínum eitthvað það sem fjarri var hans huga nema mæta því illa með góðu. Að mæta illu með illu bætir aðeins á andskotans illskuna sem úhýsir sannleikanum. Haldi ein-hver að einfalt sé að uppræta vandamálið, það er illskuna, skýtur rússneski rithöfundurinn Al-eksandr Solzhenitsyn það rækilega niður. „Bara að þetta væri svo einfalt!“ sagði hann. „Bara að það væru einhvers staðar illmenni að fremja ódæði og það eina sem þyrfti að gera væri að greina þau frá okkur hinum og ganga milli bols og höfuðs á þeim. En línan sem skilur að góðmennsku og illsku liggur gegnum hjartað á sérhverri manneskju. Og hver vill tortíma hluta af sínu eigin hjarta?“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen

Takið postullegri blessun:

Náð Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen