Brauð

Brauð

Brauð er yfirskrift textanna sem hér voru lesnir. Brauð er næring og allir þurfa á næringu að halda. Hér er bæði talað um brauð sem líkamlega næringu en einnig andlega. Um þetta biðjum við í Faðir vorinu þegar við biðjum Gef oss í dag vort daglegt brauð.

Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir, hefur eilíft líf. Ég er brauð lífsins. Feður yðar átu manna í eyðimörkinni, en þeir dóu. Þetta er brauðið, sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því, deyr ekki. Ég er hið lifandi brauð, sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði, mun lifa að eilífu. Og brauðið, sem ég mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs. Jh. 6. 47-51

Brauð er yfirskrift textanna sem hér voru lesnir. Brauð er næring og allir þurfa á næringu að halda. Hér er bæði talað um brauð sem líkamlega næringu en einnig andlega. Um þetta biðjum við í Faðir vorinu þegar við biðjum Gef oss í dag vort daglegt brauð.

I

Í guðspjallinu segir Jesús að sá sem trúi hafi eilíft líf. Hann á við að sá sem trúi á sig og Guð föður muni lifa óendanlega. Þar á hann ekki við að hið jarðneska líf verði eilíft heldur að lífið haldi áfram með honum eftir hinn jarðneska dauða. Ég hef hitt fólk sem hvílir í þessari trú og þráir að lifa áfram með Guði á annan hátt en hér á jöðinni. Þessi sannfæring gefur viðkomandi frið og sátt við endanleika lífsins. Það er oft erfitt að horfast í augu við að allt líf tekur enda en þannig er það og ég veit að þið hafi öll reynslu af því.

II

Í textanum sem var lesinn úr 2. Mósebók er talað um það þegar Guð lét brauð falla af himnum ofan. Þetta brauð þekkjum sem manna. Þegar ég var barn og heyrði þessa sögu fannst mér hún alveg stórkostleg. Guð var sannarlega sterkur og sá til þess að fólk sem var nær dauða en lífi af hungri fékk brauð. En skrítið fannst mér þegar að mannað var orðið ónýtt daginn eftir ef einhver geymdi það. Það var bannað að geyma það en sumir freistuðust til að taka meira en þau þurftu fyrir daginn. Næsta dag kom neflilega nýr dagsskammtur. En við sem höfum staðið fyrir heimili vitum að það verður að hugsa fyrir meira enn einn dag í einu. Þannig var það ekki á eyðimerkurgöngunni. Fólkið varð að treysta á að á hverjum degi kæmi nýtt manna. Það lærði þvi að lifa einn dag í einu. Ég er viss um að mörg ykkar hafa þurft á því að halda að horfa þannig á lífið. Í ýmsum aðstæðum er það nægilegt verkefni sem samt getur verið erfitt. Þetta reyna margir í veikindum og sorg. „Dag í senn eitt andartak í einu“ byrjar sálmur eftir Sigurbjörn Einarsson. Það er gott að vera minnt á þessa lífsspeki.

III

Í guðspjallinu notar Jesús söguna af manna til að útskýra hver hann sé og eðli sitt. Þau sem átu manna í eyðimörkinni dóu en hann segir ég er brauð lífsins, sá sem etur af því deyr ekki. Er þetta ekki ótrúleg fullyrðing?

Það þótti bæði lærisveinum Jesú og fræðimönnunum og faríseunum. Þung er þessi ræða hver getur hlustað á hana? sögðu lærisveinarnir sem voru miklu fleiri en postularnir 12. Sum hættu að fylgja Jesú upp úr þessu.

IV

Þið kannist við þessi orð Jesú frá orðunum sem lesin eru fyrir sérhverja atlarisgöngu. Þar fáum við að heyra að brauðið og vínið sé líkami og blóð Krists. Í kristinni trú er margt sem er erfitt að útskýra og finna rökréttar skýringar á. En þetta er leyndardómur. Leyndardómur trúarinnar - kannski mundi einhver vilja segja yfirnáttúruleg hlið trúarinnar.

Jesús steig niður af himni - kom frá Guði og bauð öllum að trúa á sig. Í síðustu kvöldmáltíðinni leggur hann áherslu á að við sem trúum skulum minnst hans með því að eta brauð og drekka vín sem hefur verið blessað. Hann segir sá sem neytir kvöldmáltíðarinnar er í mér og ég í honum. Hann leggur áherslu á samfélag sitt við hvert og eitt okkar og hann er þar nærverandi eða með öðrum orðum hann er með okkur og kemur til okkar á áþreifanlegan hátt.

Það má líta á brauðið í altarissakramentinu sem eitt brauð sem er deilt út til allra og allir fá sinn hlut. Þannig er draumurinn að allir eigi brauð sem gefur andlega næringu en einnig þá líkamlegu. Þetta brauð lífsins þurfa allir jarðarbúar að fá af og ég veit að margar gefa fátækum brauð, eða lífsviðurværi sem kristin trú hvetur okkur til.

V

Í Jóhannesarguðspjalli 3.16 segir hann: Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.

Í raun og veru er verið að segja það sama á tvo mismunandi vegu annars vegar í texta dagins þegar Jesús segir Ég er brauð lífsins og svo í Litli biblíunni sem Jóh. 3.16 er oft kallað. Að taka á móti Jesú Kristi og trúa á hann gefur eilíft líf. Að taka á móti Jesú og trúa á hann er náð sem Guð gefur okkur. Þó að hér sé ekki altarisganga í dag þá er nærvera Guðs og blessun hér. Hann er nálægur okkur og styrkir okkur sérhvern dag og við allar aðstæður. Það er líka náð.

VI

Jesús verður fyrirmynd okkar ef við trúum á hann en það reynist oft erfitt.

Í Filippíbréfinu erum við hvött til að vera með sama hugarfari og Kristur. Það veitir ekki af að minna okkur á það og ég held að það sé ósk margra að geta verið lík honum - þó í veikum mætti sé. Lífsreynt fólk hefur lært margt gegnum lífið og á stundum auðveldara með að sjá hin raunverulegu lífsgildi - ekki dauða hluti heldur að það er kærleikur og samvera sem eru það dýrmætasta í lífinu og túin og trautsið á Guð. Páll talar líka um að við ættum að hugsa um hag annarra meira en okkar eigin. Þetta er þjálfun allt lífið.

Páll þráir og biður söfnuðinn í Filippí að gera gleði sína fullkomna með því að söfnuðurinn sé samhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Að þau geri ekkert af eigingirni eða hégómagirnd, séu lítillát og meti hvert annað meira en sjálf sig. Hvílík ósk og hversu erfitt það hlýtur að hafa verið fyrir fólkið að gera allt þetta - eða öllu heldur að vera allt þetta. Því hér er ekki verið að tala um verk heldur afstöðu til þess að lifa í trú á Jesú Krist og taka afstöðu með því góða og uppbyggilega.

VII

Jesús segir ég er brauð lífsins sá sem trúir hefur eilíft líf.

Guð gefi okkur náð til þess að lifa í trúnni á Jesús Krist.