Ferðasögur lífsins

Ferðasögur lífsins

Dvelja sumir í fortíðinni? Horfa ætíð um öxl? Saga er til af manni sem gekk eitt sinn eftir sjávarsíðu með sonarsyni sínum. Á vegi þeirra varð gamall maður, sem kvartaði sáran yfir vandræðum sínum en hann hafði nýlega fengið sólsting og leið ekki vel. Drengurinn hlustaði á samtal afa síns og hins mannsins en náði greinilega ekki alveg öllu vegna þess að stuttu síðar sagði hann við afa sinn: „Afi ég vona það að þú fáir aldrei sólsetur.“ Þau sem játa kristna trú stefna áfram í ferðalagi sínu um lífið, ekki til sólseturs heldur til dögunar. Ekki afturábak heldur áfram að markinu.

Prédikun 2. sunnudag eftir þrenningarhátíð 2015 Útvarpsmessa í Kópavogskirkju, 14. júní

“Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.”

“Svanir fjúga hratt til heiða, huga minn til fjalla seiða. Vill mér nokkur götu greiða? - Glóir sól um höf og lönd. Viltu ekki, löngun leiða litla barnið þér við hönd?

Nú finn ég vorsins heiði í hjarta. Horfin, dáin nóttin svarta. Ótal drauma blíða, bjarta barstu vorsól, inn til mín. Það er engin þörf að kvarta, þegar blessuð sólin skín.

Í vetur gat ég sagt með sanni: Svart er yfir þessum ranni. Sérhvert gleðibros í banni, blasir næturauðnin við. - Drottinn, þá er döprum manni dýrsta gjöfin sólskinið.

Nú er hafinn annar óður. Angar lífsins Berurjóður. Innra hjá mér æskugróður. Óði mínum létt um spor. Ég þakka af hjarta, Guð minn góður, gjafir þínar sól og vor.”

Hér yrkir skáldið Stefán Sigurðsson, frá Hvítadal í kvæðinu “Vorsól”.

Stefán var einn af brautryðjendum nýrrar stefnu hér á landi í ljóðagerð, þar sem skáldið lýsir einkum sínum eigin tilfinningum, sorgum og gleði.

Kvæðið lærði ég, sem barn úr bókinni “Skólaljóð”.

Ég rakst á það nýverið þegar ég heimsótti vin, sem kenndi mér lestur í barnaskóla á sínum tíma.

Viðkomandi dvelst nú á hjúkrunarheimili og á náttborðinu var bókin góða með ljóðunum, sem við mörg lærðum í æsku.

Ljóðið las ég í heimsókninni fyrir þennan góða vin og kennara, sem nú síðar í mánuðinum á 94 ára afmæli.

Við vorum bæði sammála, gamli nemandinn og gamli kennarinn um að það væri gott að lesa “Vorsól”.

Þá, væri til dæmis: hægt að ferðast í huganum frá myrkri til birtu, þar sem sólin glóir um höf og lönd, líkt og hægt var sjá víða á landinu í gærkvöldi á áhrifaríkan hátt.

Gleði og bros lýsa einnig upp tilveruna.

“Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt” segir skáldið Einar Benediktsson.

Sagt er að bros sé ljós í glugga sálar, sem sýni að hjartað er heima. _________________

Þau voru mörg brosin síðastliðinn fimmtudag á sumarhátíð leiksskólans Marbakka hér á Kársnesi.

Börnin gengu fremst í skrúðgöngu ásamt kennurum sínum og leiðbeinendum með fána og heimatilbúnar trommur.

Á eftir gekk Skólahljómsveit Kópavogs og lék tónlist af fagmennsku og fjöri.

Bros og gleði.

Einnig brostu margir í Kársnesskóla síðastliðinn miðvikudag þegar útskrifaður var glæsilegur hópur 10. bekkinga frá skólanum.

Skólastjórnendur hvöttu útskriftarnemendur meðal annars: til að vera jákvæð, leyfa sér og öðrum að vera það sem þau eru, standa með sjálfum sér og vanda það sem þau segja.

Uppbyggilegar og góðar ráðleggingar.

Mikilvægt veganesti í lífinu. Gefin var út í tilefni af útskriftinni skemmtileg “Árbók”, þar sem eru myndir og stutt viðtöl við þetta efnilega og glæsilega unga fólk.

Þau voru spurð til dæmis um: draumastörfin, fyrirmyndir og hvar þau vilji búa í framtíðinni?

Draumastörfin þeirra eru af ýmsum toga.

Mörgum ungmennanna langar að ferðast um heiminn.

Næstum helmingur stefnir á að búa erlendis í framtíðinni.

Önnur segjast ekki viss og einn í hópnum segir að skipti ekki máli hvar hann muni búa í framtíðinni.

Ungt fólk með drauma og þrár.

Áfanga er lokið og áfangar framundan.

______________________

Í einu helgardagblaðanna var viðtal við íslenska listakonu, sem fór frá Íslandi fyrir tæpum sextíu árum og hefur búið erlendis síðan.

Fyrirsögn viðtalsins er “Með Ísland í hjarta sér”.

Listakonan hefur ekki haft lögheimili hér á landi frá árinu 1957 en þekkir landið ákaflega vel og fylgist glöggt með fréttum og atburðum héðan. Hlýja hennar og ást til Íslands er þeim, sem listakonuna þekkja augljós og kemur hún hingað á hverju ári og ferðast vítt og breitt um landið.

Sagt er meðal annars; frá því í viðtalinu að listakonan hafi komist að kjarna landsins, eins og glöggt megi sjá á ljósmyndasýningu með verkum hennar, sem opnuð var nýverið í safnaðarheimili Kópavogskirkju.

Sýning listakonunnar er óður hennar til ættjararðinnar.

Ljósmyndirnar eru óvenjulegar að því leyti að vatn og himin sjást varla heldur er íslenska bergið í forgrunni hjá henni.

Listamaðurinn beinir athyglinni að hinu fjölbreytta formi, litum og áferð, sem er víða að finna á landinu okkar.

Hraun, mosi, stuðalberg, steinar, skófir, skriður, jafnvel grjót og þari á svörtum söndum.

Listakonan segir hálendi Íslands algjöra perlu, sem verði að varðveita eins vel og mögulega við getum.

Spurð um hvernig henni þyki íslenskt samfélag hafa þróast frá því að hún flutti frá landinu hugsar hún sig um stundarkorn.

“Úff, þetta er stór spurning. Yfirleitt til hins betra, myndi ég segja. Ég er stolt af mörgum afrekum landa minna. Auðvitað mætti sumt betur fara en það á við alls staðar.” Og hún endar viðtalið á að segja að: “Það sé bjart yfir Íslandi.” _______________

Ljóð Stefáns frá Hvítadal segir frá ferðalagi hugans.

Útskrift 10. bekkinganna segir meðal annars: frá ungu fólki með drauma og þrár, sem veltir fyrir sér framtíðinni, lífinu.

Viðtalið við íslensku listakonuna, sem hefur búið áratugi segir frá ferðalögum erlendis og hérlendis og hvað þau ferðalög hafa fært viðkomandi.

Eru þetta ferðasögur í ýmsum myndum?

Ferðasögur um lífið? _______________

Í guðspjalli dagsins hjá Lúkasi er sagt frá ferðalagi.

Ferðalagi Jesú Krists og lærisveina hans til Jerúsalem.

Sendiboðar Jesú fóru á undan í Samverjaþorp til útvega gistingu en var ekki vel tekið.

Gyðingar voru ekki velkomnir hjá Samverjum.

Lærisveinunum Jakobi og Jóhannesi líkaði þetta illa og spurðu Jesú hvort hægt væri að tortíma viðkomandi aðilum.

Jesús ávítaði þá og sagðist ekki vera kominn til að tortíma mannslífum heldur frelsa og áfram hélt Jesús leiðar sinnar.

Hann boðaði að ýmsar leiðir væru færar og Guð færi sína leið að hverju hjarta og að þolimæði Guðs væri byggð á kærleika.

Kærleika hans til fólks. __________________

Á leið Jesú varð maður, sem sagðist vilja fylgja honum.

Jesús sagði manninum að það væri erfitt að fylgja sér, það fæli í sér verulegar breytingar, lífsbreytingar.

Öðrum manni bauð Jesús að fylgja sér en viðkomandi bað um leyfi að fá að fylgja föður sínum fyrst til grafar.

Svar Jesú hljómaði og hljómar hart.

Hvað var og er átt við?

„Lát hina dauðu jarða sína dauðu en far þú og boða Guðs ríki.“ ___________________

Til er saga af ungum mjög efnilegum arabískum manni, sem var boðið af englendingum skólavist í Cambridge eða Oxford í Englandi.

Ungi maðurinn sagðist ekki getað þegið boðið fyrr en hann hefði fylgt föður sínum til grafar, sem þá var um fertugt að aldri.

Ungi maðurinn vildi ekki missa af því að geta fylgt föður sínum til grafar.

Jesús lagði áherslu á að stundin væri gripin strax, kalli hans væri svarað strax.

Þriðji maðurinn sagði við Jesú að hann vildi fyrst kveðja fólkið sitt áður en hann fygldi Kristi. Jesús sagði þá að ekki væri hægt að plægja beint ef stöðugt væri litið um öxl. ____________________

Dvelja sumir í fortíðinni?

Horfa ætíð um öxl?

Saga er til af manni sem gekk eitt sinn eftir sjávarsíðu með sonarsyni sínum.

Á vegi þeirra varð gamall maður, sem kvartaði sáran yfir vandræðum sínum en hann hafði nýlega fengið sólsting og leið ekki vel.

Drengurinn hlustaði á samtal afa síns og hins mannsins en náði greinilega ekki alveg öllu vegna þess að stuttu síðar sagði hann við afa sinn:

„Afi ég vona það að þú fáir aldrei sólsetur.“ _________________

Þau sem, játa kristna trú stefna áfram í ferðalagi sínu um lífið, ekki til sólseturs heldur til dögunar.

Ekki afturábak heldur áfram að markinu.

Valdimar Snævarr, skólastjóri yrkir: „Ég er á langferð um lífins haf og löngum breytinga kenni. Mér stefnu frelsarinn góður gaf, ég glaður fer eftir henni. Mig ber að dýrlegum ljósum löndum, þar lífsins tré gróa á göfgum ströndum, við sumaryl og sólardýrð. En stundum aftur ég aleinn má í ofsarokinu berjast. Þá skellur niðadimm nóttin á svo naumast hægt er að verjast. Ég greini ei vita né landið lengur, en ljúfur Jesús á öldum gengur um borð til mín í tæka tíð.“

“Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda". Amen.

Lexía:Okv 9.10-12 Að óttast Drottin er upphaf spekinnar og að þekkja Hinn heilaga er hyggindi. Með mínu fulltingi verða dagar þínir margir og árum lífs þíns fjölgar. Sértu vitur verður vitið þér til góðs en sértu spottari þá mun það bitna á þér einum.

Pistill: 1Kor 1.26-31 Minnist þess, systkin, hvernig þið voruð þegar Guð kallaði ykkur: Mörg ykkar voru ekki vitur að manna dómi, ekki voldug eða ættstór. En Guð hefur útvalið það sem heimurinn telur heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til þess að gera hinu volduga kinnroða. Og hið lítilmótlega í heiminum, það sem heimurinn telur einskis virði, hefur Guð útvalið til þess að gera að engu það sem er í metum. Enginn maður skyldi hrósa sér fyrir Guði. Honum er það að þakka að þið eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn okkur vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn. Eins og ritað er: „Sá sem vill hrósa sér hrósi sér í Drottni.“

Guðspjall: Lúk 9.51-62 Nú fullnaðist brátt sá tími er Jesús skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað. Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu. En menn tóku ekki við honum því að hann var á leið til Jerúsalem. Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það sögðu þeir: „Drottinn, eigum við að bjóða að eldur falli af himni og tortími þeim?“ En Jesús sneri sér við og ávítaði þá [og sagði: „Ekki vitið þið hvaða andi býr í ykkur. Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum heldur til að frelsa.“] Og þeir fóru í annað þorp. Á leiðinni sagði maður nokkur við Jesú: „Ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð.“ Jesús sagði við hann: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“ Við annan sagði hann: „Fylg þú mér!“ Sá mælti: „Drottinn, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.“ Jesús svaraði: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu en far þú og boða Guðs ríki.“ Enn annar sagði: „Ég vil fylgja þér, Drottinn, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.“ En Jesús sagði við hann: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.“