Auk oss auð

Auk oss auð

Það hefur mikið gengið á í samfélagi okkar undanfarnar vikur. Ef eitthvað er hefur atgangurinn aukist frá því sem var. Í raun þannig að ógjörningur er að segja til um hvernig endar. Einhverjir vilja meina að þetta sé upphafið að einhverju meiru og aðrir vilja meina að þetta sér endirinn á upphafinu, sem hlýtur að leiða af sér eitthvað annað.

Postularnir sögðu við Drottin: „Auk oss trú!“

En Drottinn sagði: „Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður.

Hafi einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann þegar hann kemur inn af akri: Kom þegar og set þig til borðs? Segir hann ekki fremur við hann: Bú þú mér kvöldverð, tak þig til og þjóna mér meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið. Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gera það sem boðið var? Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gert allt sem yður var boðið: Ónýtir þjónar erum vér. Vér höfum gert það eitt sem oss bar að gera.“ Lúk.17.5-10

Það hefur mikið gengið á í samfélagi okkar undanfarnar vikur. Ef eitthvað er hefur atgangurinn aukist frá því sem var. Í raun þannig að ógjörningur er að segja til um hvernig endar. Einhverjir vilja meina að þetta sé upphafið að einhverju meiru og aðrir vilja meina að þetta sér endirinn á upphafinu, sem hlýtur að leiða af sér eitthvað annað. Hvort heldur þá er það morgunljóst á dögum sem vart birtir af degi að fólk almennt hefur misst trúna á það sem var og það sem verra er það sem mun verða. Það sem var er ekki lengur og kunna einhverjir að sakna þess og aðrir fagna því nýja sem verður en er ekki orðið.

Það eru margir uggandi um framtíð sína þessa dagana af ástæðu sem þarf ekki að fjölyrða um. Margir sem hafa misst trúna á að eitthvað gerist sem bendir áfram vegin ekki endilega þann veg sem við höfum gengið á heldur einhvern annan veg sem mögulega gæti leitt til einhvers betra. Það getur þessvegna verið vegslóði sem við höfðum beygt af fyrir einhverjum árum síðan því að við vorum sannfærð um að við værum á réttri leið með það samfélag sem við byggðum í kringum okkur og ætluðum að væri sú eina rétta en reyndin orðið allt önnur.

Einhver kanna að hugsa með sér að þetta sé ný staða. Sagan kennir okkur og segir við okkur brosandi út í annað að svo er alls ekki. Hún segir okkur þegar manneskjan gengur fram í hroka og drambsemi og trú á eigin mátt endar það aðeins á einum vegi. Vegi einstefnunnar þar sem eina leiðin er að snúa við og viðkurkenna eigin vanmátt. Sagan er eins og baksýnisspegill sem við látum ekki svo lítið sem að horfa í því að við erum svo upptekinn af að horfa fram á vegin, þann veg sem við höfum sjálf lagt yfir allt og alla. Við þurfum reglulega á því að halda að stöðva og teygja úr okkur og spyrja á hvaða leið erum við og rýna í söguna. Við höfum ekki gert það og þarafleiðandi vitum við ekki hvort heldur við eigum að halda ferð okkar áfram eða snúa við og leita annarra leiða fyrr en að það er sprungið á öllum.

Mælikvarði trúarinnar

Kann að vera að postularnir sem sagði frá í guðspjallinu hafi verið komin á leiðarenda á þeirri vegferð sem þeir voru á og sögðu við Drottinn “Auk oss trú.” Eðlilegt er að ætla að þeir hafi verið komnir að endimörkum trúar. Ég hef stundum sagt í gamni og alvöru að það sé ekki hægt að leggja mælikvarða á trúna, lengd og breidd. Trúin er og ekkert meira en það. Mér gremst alltaf þegar talað er um að þessi eða hinn hafi verið eða sé sanntrúaður. Í mínum huga er trú – trú og það þurfi ekki að vera deildarskipta því á einn eða annan hátt. Auðvitað iðkum við trúna á misjafnan hátt eins og hvert okkar finnur sig í að gera. Við heyrum stundum sagt að þessi eða hinn sé sterk trúaður eða hafa sterkra trúarvitund andstæða þess hlýtur þá að að vera trúarmeðvitundarleysi.

Ég get allveg sagt ykkur þegar ég las guðspjallstextann kom upp í huga minn farsímaþjónusta. “Auk oss trú” eða “auk inneign mína.” Svipað því að vera á frelsissamningi hjá símafyrirtæki, þegar inneignin er að klárast er hringt inn og eða farið í tölvuna og inneignin aukin um einhverja x tölu. Það er með trúna eins og inneign í frelsi að við göngum misfljótt á hana og þurfum þarafleiðandi til að vera í sambandi að auka á hana. Á sama hátt er trúin okkur nauðsynleg til að takast á við daglegan raunveruleika.

Hvort heldur við erum sanntrúuð eða haldin trúarmeðvitunarleysið þ.e.a.s. þeir sem iðka ekki trúna sem skyldi eða leggja allra jafnan ekki hug að henni - er trúin til staðar. Við skulum varast að vigta trúna. Það er ekki hægt að mæla hita hennar. Það er heldur ekki hægt að bregða málbandi á hana og sjá hversu stór hún er, trúin - hjá hverjum og einum. Einhver eða einhverjir eru sterk í trúnni annar eða aðrir veikir og enn aðrir leitandi og svo eru þeir sem segjast alls engu trúa. Það er nú einustinni þannig að við trúum öll. Trúum á Guð almáttugan sem við á stundum biðjum um að auka trú okkar og eða trúum á mátt okkar og megin og viljum alls ekki vera þvæla Guði almáttugum þar um. Trúarþörf mannsins er sterk og verður ekki svo auðveldlega skilin frá meðvitund mannsins.

Mettun

Kann að vera að víð séum á stundum veik í trúnni og óskum okkur helst að við værum sannfærðari sem að mínu viti er ekki eitthvað sem við eigum að sækjast eftir. Ef við erum sannfærð um eitthvað erum við mett. Mett manneskja er ekki leitandi þess sem hún ætti að leita af. Það var það sem postularnir voru að leita af með spurningu sinni. Ekki það að þeir væru komnir að endimörkum trúar sinnar. Þeir voru leitandi og vildu meira. Ófyllt manneskja fer út og leitar svara við því sem kemur í veg fyrir að hún verði mett. Trúarmettun verður aldrei. Að vera mett eða mettur í trúarlegum efnum er ekki markmið í sjálfu sér því ef svo væri gerðum við ekkert annað en að reyna uppfylla þá þörf.

Við þurfum ekki annað en að horfa til síðustu ára í samfélagi okkar og hversu trúverðugt og hversu sannfærð við vorum um að við værum mett og værum á réttri leið þannig að engum efasemda röddum var hleypt að. Auðvitað vissum við að við vorum ekki mett því við vildum meira. Það er í mannlegu eðli að leita lengra að auka við það sem við höfum. Kannski er það böl manneskjunnar að finna aldrei til mettunar á neinu sviði. Reyndar held ég að það sé okkar gæfa upp að vissu marki. Getum aldrei veitt okkur hvíld í huga og geta sagt að ég er búin að gera allt það sem mig langaði til að gera og ég þarf ekki að bæta meira við. Geta sagt við sjálfa sig þegar að hallar að ævikveldi – ég er sátt eða sáttur. Það þarf alltaf eitthvað að standa út úr sem truflar. Við höfum upplifað tíma þar sem hin veraldlega trú var algjör og ófrávíkjanleg um að við værum að gera rétt - þangað til að annað kom í ljós. Það kom í ljós sem átti ekki að koma í ljós. Við höfum staðið okkur sjálf að því að vera forviða-hvernig gat þetta gerst? Allt það sem við lögðum á okkur hefur ekki skilað neinu. Það sem situr eftir er eitthvað sem við báðum ekki um-skuldir. Þetta var svo trúverðugt að við gáfum okkur ekki tíma til að setjast niður og spyrja okkur sjálf og hvern þann sem var tilbúin að hlusta á okkur. Er þetta ekki lyginni líkast?

Trú er eitt og trú er annað

Ég er ekki svo viss um að postularnir í fyrstu hafi skilið svarið sem Drottinn sagði þeim. Samt liggur það í hendi hvers og eins. Trúin krefst einskis af okkur annað en það að viðurkenna vanmátt huga okkar gagnvart trúnni og því sem hún gefur okkur til að framkvæma langt fram úr því sem við leyfum okkur að halda.

Samfélagsmoldin sem sáð var í fyrir nokkrum árum og í ljós hefur komið að uppskeran var engin var nærandi mold sem kynslóðirnar á undan höfðu lagt til en umhyggjan og þolinmæðin var lítil sem engin síðustu árin. Afleiðingarnar eru okkur ljósar.

Eins er það með trúna hún þarf að fá að vaxa og dafna innra með okkur. Fá sína næringu frá því að við drögum fyrst andann. Hún þarf að fá að taka skrefið í þolinmæði til að byrja með óörugg veit ekki hvert hún leiðir. Hún þarf að fá að falla um sjálft sig og rísa upp að nýju og hún þarf tíma til að ná jafnvægi og halda síðan áfram. Hún þarf þess vegna þess að þannig erum við.

Kann að vera að við berum kvíðboga fyrir því sem verður í samfélagi okkar og þjóða næstu vikur og mánuði. Við getum hugsað um það í ræmur og ekkert af því verður sem minnir okkur á vanmátt okkar eigin vilja. Það er kannski ekki margt sem segir okkur að allt fer á besta veg. Ef við trúum því þá verður svo. Ef við trúum því þrátt fyrir allt sem hefur gengið á í þjóðfélaginu að vel verður fyrir séð mun svo vera. Við þurfum ekki annað en að eiga trú eins og mustarðskorn-agnarsmátt fræ í huga að allt fari á hinn besta veg fyrir okkur sem einstaklinga og sem þjóðar. Hvort heldur við fyllum flokk þeirra sem segja að þetta er upphafið á endinum eða upphafið á einhverju nýju og betra. Þá verður það svo-því trúum við.