Ótti

Ótti

Ótti er óttalegur. Ótti skapar óreiðu og veldur því að einstaklingur sem finnur fyrir ótta hugsar ekki rökrétt. Þegar rökhugsun er úr lagi gengin getur einstaklingurinn ekki lengur haft tök á lífi sínu og gerir eitthvað órökrænt, sem aftur leiðir af sér á stundum óafturkræfa aðgerð.
Þór Hauksson - andlitsmyndÞór Hauksson
11. ágúst 2006

Ótti er óttalegur.  Ótti skapar óreiðu og veldur því að einstaklingur sem finnur fyrir ótta hugsar ekki rökrétt.  Þegar rökhugsun er úr lagi gengin getur einstaklingurinn ekki lengur haft tök á lífi sínu og gerir eitthvað órökrænt, sem aftur leiðir af sér á stundum óafturkræfa aðgerð. 

Ótti er stjórntæki.   Það hefur verið vitað svo lengi sem manneskjan fór að hugsa.  Að planta ótta í huga einstaklings eða heillar þjóðar  er í raun einföld og fljótvirk.  Víða um heim bæði í vestrænum lýðræðisríkjum sem og einræðisríkjum er þessi stjórnarháttur iðkaður og mun verða iðkaður svo lengi sem það þjónar valdhöfum og eða þeim sem telja sig vera fyrir kúgun að hverju tagi sem er.

 Þessa dagana erum við illilega minnt á þetta í ljósi þeirra frétta sem við fáum frá Bretlandi.   Við finnum til ótta og öryggisleysis.   “Óvinurinn” er andlitslaus.  Hann getur verið sá sem kastaði á þig kveðju í neðarjarðarlestinni fyrir fá einum dögum eða vikum í fríinu þínu.  Hann getur verið nágranni þinn og fjölskyldu þinnar.  Hann getur verið hver sem er.  Það er það óttalega að geta ekki þreifað á honum eða haft mynd af honum til þess að geta varast hann.  Hann birtist fyrirvaralaust með hávaða og eyðileggingu.

 Þegar fyrstu fréttir bárust af sprengitilræðunum í London í júni fyrir rúmu ári síðan - fann maður til óræðinnar sorgar.  Sorgar og kvíða – samúðar með þeim sem létust – með þeim er slösuðust og aðstandendum þeirra.  Sorgar að manneskjur eins og við skuli aðeins sjá í heift sinni og reiði þá leið eina að limlesta og strá um sig ótta og vansæld.  Sá eða sú sem gerir slíkt er sjálf/ur óttasleginn og vansæll.

 Athæfi sem svona gerir ekkert annað en að auka á ótta og öryggisleysis og þrengingar á lýðréttindum í nafni öryggis. Hægt er að spyrja sig hvaða tilgangi það þjónar að fremja ódæði eða ætla sér að fremja ódæði?  Því þótt erfitt sé að tala um tilgang í verknaði eins og hryðjuverki því sem ætlað var hlýtur hann að vera einhver í hugum þeirra sem framkvæmdu og ætluðu sér að framkvæma þessa viðurstyggð.   Svarið hlýtur að vera að ala á ótta og ringulreið og það að knýja stjórnvöld í vestrænum ríkjum að herða á og skerða lýðréttindi þegna sinna í nafni – öryggishagsmuna þjóða.  Það er akkúrat það sem þetta snýst um.    Að viðhalda ótta og öryggisleysi sem ekki er afturkræft þegar við erum sífellt minnt á hvert sem við förum og þá sérstaklega út fyrir landsteinana að hryðjuverkaógnin er lifandi og nærist á óttanum sem af henni leiðir.

Heiftin og ofsin er blind á allt annað en það að geta með þessum aðgerðum sem áttu að eiga sér stað.  Að geta sagt við þegna þessa heims.   “Við getum birst hvar sem er og hvenær sem er og þegar við gerum það þá er það ekki á vinsamlegan hátt.” Hið illa í þessum heimi er heigull sem sýnir aldrei sitt rétta andlit.  Hið illa nærist á sjálfu sér.  Þ.e.a.s. ef hinu illa er svarað með illsku þá verður skilgetið afkvæmi þess illska og ekkert annað.   Látum ekki óttann við illskuna bera okkur ofurliði, því þá fagnar hið illa aldrei sem fyrr.   Óttinn er óttalegur og verður aldrei annað.   Óttinn er veruleiki sem við hvert og eitt okkar tökumst á við á einhvern hátt og sigrumst á.