Í auðmýkt

Í auðmýkt

Sá sem leggur upp í lengri ferð á tveimur jafnfljótum byggir för sína á eigin þreki. Þrátt fyrir góðan skóbúnað, plástra og önnur hjálpartæki nútímans upplifir hann á eigin skinni eða hjá samferðafólkinu sára fætur, auma húð og blöðrur.

Sá sem leggur upp í lengri ferð á tveimur jafnfljótum byggir för sína á eigin þreki. Þrátt fyrir góðan skóbúnað, plástra og önnur hjálpartæki nútímans upplifir hann á eigin skinni eða hjá samferðafólkinu sára fætur, auma húð og blöðrur. Allt í einu getur lítil tá kostað ótrúlegt þrek, fæturnir sem venjulega eru svo penir á parketinu heima líkjast jafnvel óviðráðanlegum skrímslum.

Tveir jafnfljótir voru farkostur lærisveina Jesú. Dagleiðin var oft löng á missléttum, rykugum vegum úr einu þorpi í annað. Sum kvöldin voru þeir gestir á heimilum fólks sem þeir höfðu aldrei séð fyrr en þennan sama dag. Áður en sest var til borðs fékk sá þjónn sem var neðstur í virðingarröðinni í viðkomandi húsi það verkefni að þvo fætur gestanna. Hér var um viðtekna venju að ræða og þessu tekið sem sjálfsögðum hlut.

Myndin er hluti af sunnudagaskólaefni sem Skálholtsútgáfan hefur gefið út. Brúðugerð: Regina B. Þorsteinsson.

Fyrir þreyttan ferðalang getur hvíld falist í þeirri þjónustu sem honum er veitt þegar fætur hans eru þvegnir. Einn lærisveina Jesú, Símon Pétur, brást mjög undrandi við þegar Jesú sjálfur ætlaði að þvo fætur hans áður en sest var til kvöldmáltíðar. Þjónustan fékk á sig aðra, líknandi mynd. Hér var ekki lengur um sjálfsagðan hlut né hefðbundna hlutverkaskiptingu að ræða. Leiðtoginn í hópnum kraup niður og gerðist þjónn.

Símoni Pétri reyndist ekki auðvelt þá frekar en okkur reynist auðvelt nú að vera sá sem þiggur. Símon Pétur vildi vera sterki lærisveinninn í framvarðarsveitinni, snöggur að redda hlutunum og alltaf reiðubúinn. Og við? Við höfum jafnvel gert okkur í hugarlund að við séum þau sterku, þau sem þurfa ekki á hjálp að halda. Við eigum erfitt með að viðurkenna að fætur okkar séu allt annað en penir og hreinir, að við séum þreytt á göngunni og þörfnumst hvíldar.

Auðmýkt er lykilorðið sem veitir aðgang að samfélagi þar sem unnt er að njóta hvíldar og upplifa upprisu sálar og líkama. Annars vegar auðmýkt þess sem þjónustuna veitir og er tilbúinn til að krjúpa fordómalaust við fætur þess sem þjónað er og hlúa að honum. Hins vegar auðmýkt þess sem þjónustuna þiggur og er reiðubúinn að skilja þjónustuna á annan hátt heldur en algengt er í þjóðfélagi hlutverkaskiptingar þar sem flest er falt fyrir greiðslu. Reiðubúinn að skilja hana sem hluta af samfélagi jafningja þar sem einstaklingarnir taka höndum saman til að byggja upp jákvætt samfélag.

Erum við reiðubúin sem kirkja til að taka að okkur hlutverk gagnvart samfélaginu í auðmýkt? Erum við sem einstaklingar viljug til að mæta samferðafólki okkar í slíkri auðmýkt, hvort heldur við erum um stund í hlutverki þess sem þiggur eða þess sem gefur? Krjúpum frammi fyrir hinum krossfesta og upprisna Kristi og biðjum um handleiðslu hans, að hann megi kenna okkur þessa auðmýkt.