Hvísl andans

Hvísl andans

Við höfum síðustu daga séð svipbrigðalaus andlit stríðshrjáðra barna birtast á skjánum. Rykug, blóðug, stjörf í hreyfingum hafa þau birst okkur. Sagan af barninu í Betlehem staðfestir að í harmiskyggðum augum þessara barna er Guð að horfa á þig. Guð að vekja þig.

Kæri söfnuður, náð og friður frá Guði sé með okkur öllum. Gleðilega jólahátíð. Í upphafi þessarar guðsþjónustu horfðum við á Tinnu Ágústsdóttur túlka í dansi innihald sálmsins Sjá himins opnast hlið eftir Björn Halldórsson prest frá Laufási við Eyjafjörð. Björn Halldórsson lést skömmu fyrir jól árið 1882. Hann hafði staðið upp frá skrifborði sínu á kontórnum í gamla torfbænum í Laufási og gengið inn í hjónaherbergi þar sem hann hné niður örendur. Sagt er að hann hafi verið að undirbúa ræðuna fyrir þá hátíð sem var honum hjartfólgnast vonarljós er hlið himins opnuðust honum endanlega og hann kvaddi þennan heim. Sjá, himins opnast hlið, heilagt englalið fylking sú hin fríða úr fagnaðarins sal, fer með boðun blíða og blessun lýsa skal yfir eymdardal. Vitað er að Björn Halldórsson gekk í gegnum margar sorgir á sinni lífsleið, hjónabandsraunir og barnamissi m.a., en í minni þjóðarinnar er hann upprisuskáld, vonarberi, og hann er gott dæmi um það hvernig andi Guðs býr í manneskjum. Enda lýsir hann því í sálminum: Já, þakka, sál mín, þú, þakka' og lofsyng nú fæddum friðargjafa, því frelsari' er hann þinn, seg þú: "Hann skal hafa æ hjá mér bústað sinn. Vinur velkominn." Mér hefur orðið það hugleikið á þessari aðventu hvernig Guðs andi býr í fólki, og hvernig sumt fólk leyfir anda Guðs að móta sig og leiða. Við sáum það hér í upphafinu hvernig andinn leiddi fram listina bæði í dansinum hennar Tinnu og flutningi Kórs Vídalínskirkju á þessum gamla sálmi. Þau hafa fyllt okkur af heilögum anda með sköpunarkrafti sínum og hæfileikum. Jólaguðspjallið ilmar út í gegn af þessu hvísli andans. Það byrjar allt með parinu frá Nasaret sem hafði orðið fyrir andlegri vitrun í upphafi sögunnar. Andleg vitrun! Ef við værum öll hér í dag saman komin á „trúnó“ og ég bæði þau að rétta upp hönd sem orðið hafi fyrir andlegri reynslu. Þá yrðu margar hendur á lofti. Andleg reynsla; vitranir, draumar, sýnir, hugboð, tákn og annað þvílíkt er svo nauða algengt en um leið svo mikil bannvara í samfélagi okkar tíma að fólk veigrar sér við að ræða það nema í þrengsta hópi. Allar lykilpersónur jólaguðspjallsins að Heródesi undanskildum eiga andlegt líf og eru meðtækilegar fyrir hvísli andans. Jósef og María höfðu hvort í sínu lagi og með ólíkum hætti fengið skilaboð frá Guði. Skilaboð um að standa saman þótt ytri aðstæður væru erfiðar og óhagstæðar. Nauðbeygð héldu þau til Betlehem og meðan þau dvöldu þar var komið að fæðingu barnsins. Engill Guðs vitraðist líka fjárhirðunum á Betlehemsvöllum og þeir tóku við boðskapnum að óttast ekki heldur fara og finna barnið. Og þegar þeir höfðu fundið það héldu þeir inn í borgina til þess að deila reynslu sinni. Margir kannast við Bill Wilson sem var einn af stofnendum AA samtakanna. Það eru viss líkindi með fjárhirðunum í Betlehem og honum sem áhugavert er að sjá. Það var einmitt í desembermánuði árið 1934 sem Bill drakk sinn síðasta bjór og hóf sína síðustu afeitrun. Sjálfur lýsti hann ástandi sínu svo: „Hugarangur mitt var óbærilegt. Loks fannst mér ég vera sokkinn til botns. Í bili fannst mér síðasta vígi þrjósku minnar og stolts hrunið til grunna. Ég vissi ekki fyrr en ég var farinn að hrópa „Ef Guð er til þá sanni hann sig. Ég er reiðubúinn til að gera hvað sem er!“ Skyndilega birti og sjúkrastofan var böðuð hvítu, skæru ljósi. Mér fannst sem um mig lyki andblær sem ekki var af þessum heimi. Mér fannst ég allt í einu vera frjáls maður. Smámsaman hvarf sýnin. Ég lá eftir í rúminu en í góða stund var ég í öðrum heimi, nýjum vitundarheimi. Ég var fullur vellíðurnar og fann enn návist HANS. Og hugsaði með mér: „Svo þetta er þá Guð prédikaranna.““ Það varð róttæk breyting á öllu viðhorfi Bills og það má segja að þetta viðhorf hans hafi síðan orðið kveikjan að AA samtökunum. Hann tilheyrði í upphafinu hópi sem hét Oxford hópurinn en það gerðist að þegar Bill fór af stað að segja frá og hafa áhrif á aðra þá lenti hann í þeim vandræðum að enginn hlustaði á hann. Þá var honum bent á að hann skyldi hætta að segja fólki til og reyna að breyta þvi, þess í stað skyldi hann einfaldlega deila reynslu sinni. Fjárhirðunum brá er þeir stóðu baðaðir skæru ljósi himinsins. „Verið óhræddir“ mælti engillin „ég boða ykkur mikinn fögnuð. Ykkur er í dag frelsari fæddur.“ - Birta, friður og fögnuður eru iðulega nefnd til sögunnar þegar fólk lýsir andlegri uppljómun. Öll reynsla af Guði færir fólki ljós, frið og innilegan fögnuð sem ekki er hægt að lúra á og eiga bara fyrir sig. Enda segir í jólaguðspjallinu hjá Lúkasi: „Hirðarnir snéru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir allt það sem þeir höfðu heyrt og séð. En allt var það eins og þeim hafði verið sagt.“ Þeir fóru m.ö.o. og deildu reynslu sinni en sögðu engum til syndanna. Alveg eins og Bill lærði að hætta að segja til en byrja þess í stað að segja frá. Svo koma þarna líka útlendingar ríðandi inn í söguna á úlföldum, vitringarnir frá austurlöndum. Þeir eru annara þjóða, annarar trúar og annarar menningar. Þeir trúa ekki á Guð heldur lesa þeir í stjörnurnar. Þeirra leið er önnur en hinna en líka þeir komast á leiðarenda og andi Guðs býr í þeim. Hafandi hitt Heródes átta þeir sig á illsku hans og eftir bendingu í draumi fara þeir aðra leið út úr borginni og láta hann ekki vita um dvalarstað barnsins. - Sjáum við e.t.v. skilaboð til okkar nútíma um eðli sannrar fjölmenningar í jólaguðspjallinu? Fjárhúsið í Betlehem er vettvangur friðsamlegrar fjölmenningar. Auk annars er jólaguðspjallið líka saga af grimmd og hatri því yfir öllu grúfir morðæði Heródesar. Barnamorðin hræðilegu í Betlehem kallast á við morðin í Aleppo á okkar dögum. Segja má að sagan af fæðingu Jesú sé eitt alsherjar andóf við kjörum Aleppóbúa allra alda. Við höfum síðustu daga séð svipbrigðalaus andlit stríðshrjáðra barna birtast á skjánum. Rykug, blóðug, stjörf í hreyfingum hafa þau birst okkur. Sagan af barninu í Betlehem staðfestir að í harmiskyggðum augum þessara barna er Guð að horfa á þig. Guð að vekja þig. Um miðja nótt er Jósef vakinn af draumi. Engill Guðs hafði birst honum: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“ Og skrifað stendur: 14Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. 15Þar dvöldust þau þangað til Heródes var allur. (Matt. 2.13-15) Jósef vaknaði. Við lifum á sofandi tímum. Aldrei hafa bendingarnar og skilaboðin verið fleiri. En við treystum okkur ekki til að vakna. Aldrei hefur vitneskjan verið skýrari. En við viljum ekki rumska og sjá að í hönd fara víðtækustu og hörmulegustu barnamorð allrar sögu. Mannkyn með vestræna menningu í fararbroddi berst um í fastasvefni og kallar yfir sig leiðtoga sem ekkert sjá, Heródesa sem einskis svífast. Og það flókna og skelfilega er sú staðreynd að börnin í Aleppo og öll hin sem nú lifa þáningar vegna andvaraleysis okkar eru ekki þau einu. Við lifum á sofandi tímum sem eru í óðaönn að svíkja og yfirgefa ófæddar kynslóðir. Ófæddar kynslóðir munu lifa í skugga loftslagsbreytinga af mannavöldum af því að við viljum ekki að vakna. Jósef vaknaði. Saga jólanna, er saga af barni sem fæddist á röngum stað, við ranglátar aðstæður en fullorðna fólkið í lífi þess kunni að halda vöku sinni. Þau áttu innra líf, eyru sem heyrðu hvísl andans, augu sem sáu þótt þau svæfu. Saga jólanna er saga af því hvernig heilagur andi vekur fólk til hlýðni við sannleikann og réttlætið. Saga af von í vonleysi, samstöðu í sundruðum heimi. Hún er fréttin um það að hversu illa sem horfi muni góður Guð láta sinn góða vilja verða með því að vitrast fólki og vekja það.