Umhyggja fyrir látnum

Umhyggja fyrir látnum

Þegar við höfum orðið fyrir svo skelfilegri reynslu, svo miklu áfalli, þá gerist eitthvað innra með okkur. Það vitum við sem höfum misst einhvern sem við elskum. Við vitum að það getur verið erfitt að vera með í skilja heiminn fyrst á eftir. Tilfinningin fyrir raunveruleikanum getur breyst og það verður erfitt að skilja að heimurinn haldi áfram eins og ekkert hafi í skorist.

img_2658.jpg
 Hér er hægt að hlusta og horfa á prédikunina Kristur er upprisinn!

Ég veit ekki hvernig er með þig en það hefur aldrei vafist neitt sérstaklega fyrir mér að trúa á upprisuna. Mér hefur aldrei þótt neitt sérstaklega undarlegt við það Jesús hafi risið upp frá dauðum því ég trú því að fyrir Guði sé flest mögulegt. Aftur á móti hefur mér alltaf þótt frekar ótrúlegt að Jesús hafi, eftir upprisuna, gengið um hér á jörðinni með blóðug sár á höndum og fótum, spjallað við fólk og jafnvel borðað með vinum sínum og snert þá.

Mig hefur alltaf grunað lærisveinana (eða höfunda guðspjallanna)  um ýkjur þegar þeir sögðu frá því sem gerðist dagana eftir krossfestinguna og tómu gröfina. Eftir upprisuna.

Og ég skil þá vel.

Vinur þeirra hafði verið tekinn af lífi á hryllilegan hátt.

Þegar við höfum orðið fyrir svo skelfilegri reynslu, svo miklu áfalli, þá gerist eitthvað innra með okkur. Það vitum við sem höfum misst einhvern sem við elskum. Við vitum að það getur verið erfitt að vera með í skilja heiminn fyrst á eftir. Tilfinningin fyrir  raunveruleikanum getur breyst og það verður erfitt að skilja að heimurinn haldi áfram eins og ekkert hafi í skorist. Að sólin komi upp eins og ekkert hafi gerst. Að fólk geti brosað og hlegið eins og venjulega.

Það eina sem við finnum er sárauki.

Sársaukinn getur kallað fram óvenjulega hegðun hjá okkur. Við getum t.d. farið að ræða við þau sem eru dáin. Það hefur komið fyrir mig.

Fyrir um 12 árum dó bróðir minn. Hann var 19 ára gamall þegar hann tók líf sitt. Mánuðirnir á eftir voru óraunverulegir, svolítið eins og draumur. Og ég fór að tala við hann, eiga samtöl við hann innra með mér. Ég spurði hann hvers vegna hann varð að deyja. Mig dreymdi hann. Stundum var hann lifandi í draumunum og stundum var hann dáinn. Ég sá heiminn með augum sorgarinnar. Túlkaði allt út frá því sem hafði gerst. Ég sá hann allsstaðar.

Einn morguninn þegar ég kom fram úr svefnherberginu ný vöknuð, með stírur í augunum, gerðist það að mynd sem hékk á vegg í stofunni, datt niður á gólf með látum. Mér brá mikið og þegar ég tók upp myndina sá ég að glerið yfir myndinni var mölbrotið. Þetta var mynd af bróður mínum. Á þeirri stundu upplifði ég sterkt, að hann vildi segja mér eitthvað.

En það sem þarna átti sér stað var sorgarvinna. Ég var að vinna úr sorginni.

------------

Og ég hugsa til lærisveinanna sem áttu erfitt með að trúa konunum á páskadagsmorgun. Ég hugsa til Tómasar sem átti erfitt með að trúa lærisveinunum þegar þeir sögðu honum að þeir hefðu hitt Jesú, talað við hann, snert hann og borðað með honum. Þau voru öll að vinna úr sorginni.

Það sem konurnar sögðu lærisveinunum var fullkomlega ótrúlegt. Tóm gröf hvað? Jesús lifandi hvað? Það gat ekki verið að þær hefðu hitt Jesú og talað við hann. Þeir höfðu sjálfir séð hann deyja. Þeir vissu að hann var dáinn. Auðvitað trúðu þeir ekki.

En lærisveinarnir höfðu líka misst vin sinn. Þá langaði að trúa. Þeir vildu líka sjá hann og tala við hann. Þeir vildu vita hvort það væri allt í lagi með hann.

Við hættum nefnilega ekki að bera umhyggju fyrir þeim sem við elskum þótt þau séu dáin.

Eftir að bróðir minn dó hugsaði ég mikið um það hvernig hann hefði það. Ég vildi vita hvernig honum liði, hvað hann hugsaði. Ég vildi vita hvort honum liði betur. Að honum líði vel. Og það er einmitt vegna upprisunnar sem ég get hugsað á þennan hátt. Það er vegna hennar sem ég trúi því að öll þau sem eru dáin, lifi enn á einhvern hátt með Guði. Ég veit ekki hvernig og mér finnst það ekki skipta máli en ég trúi því að þau lifi.

Ég held að Jesús hafi birst vinum sínum á einhvern hátt (þó kannski ekki svo líkamlega og bókstaflega og sagt er frá í guðspjöllunum) eftir upprisuna til þess að sýna þeim að þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af honum. Að það væri í lagi með hann og að honum liði vel. Að hann hefði sigrað dauðann. Að lífið hefði sigrað.

Ég held að Jesús hafi birst vinum sínum til þess að sýna mér að það væri í lagi með bróður minn. Að hann lifi enn með Guði á einhvern hátt.

Og ég held að Jesús hafi birst vinum sínum til þess að sýna þér að þau sem þú elskar og hefur misst lifi með Guði og séu upprisin á einhver hátt.

Við hættum ekki að bera umhyggju fyrir þeim sem við elskum þótt þau deyi og upprisan gefur okkur þá von að þau sem við höfum misst séu í góðum höndum. Að þau sem við eigum eftir að missa séu í góðum höndum.

Að við sjálf eigum eftir að lifa þótt við deyjum.

Að við fáum að rísa upp með Kristi og vegna Krists.

Kristur er upprisinn! Amen