Rétt og rangt - að ala börn upp með gildismat

Rétt og rangt - að ala börn upp með gildismat

Eigum við að troða skoðunum okkar upp á börnin okkar? Eiga þau ekki bara sjálf að velja lífsviðhorf sín? Svona spurningar hef ég heyrt býsna oft allt frá því að ég varð faðir og jafnvel lengur. Í þeim endurómar viðhorf sem við, 68-kynslóðin tömdum okkur. Uppeldi var samstarfsverkefni fullorðinna og barna og þau áttu sjálf að velja sér lífskoðun.
Halldór Reynisson - andlitsmyndHalldór Reynisson
06. febrúar 2006

Eigum við að troða skoðunum okkar upp á börnin okkar? Eiga þau ekki bara sjálf að velja lífsviðhorf sín?

Svona spurningar hef ég heyrt býsna oft allt frá því að ég varð faðir og jafnvel lengur. Í þeim endurómar viðhorf sem við, 68-kynslóðin tömdum okkur. Uppeldi var samstarfsverkefni fullorðinna og barna og þau áttu sjálf að velja sér lífskoðun. Það var talið rangt að troða sínu gildismati jafnvel inn á sín eigin börn.

Þvílík reginskyssa! Tilraun þeirrar kynslóðar sem ég tilheyri til að vera umburðarlynd leiddi oft til losarabrags á uppeldi. Að sumu leyti misstum við tökin á uppeldinu vegna eigin ranghugmynda. Eða hugmyndafræði. Allt sem var gamalt var úrelt. Reynsla mannkynsins af uppeldi fram að þessu var léttvæg fundin. Það mátti ekki hafa vit fyrir neinum í þessu uppskrúfaða umburðarlyndi sem stundum var bara afsökun fyrir því að sinna ekki skyldu sinni.

Ást og agi

Flest það sem við vitum best um uppeldi segir okkur nefnilega að ást og agi sé besta uppeldisaðferðin. Að draga mörk en gera það af ástúð og í samtali við börnin. Sigrún Aðalbjarnardóttir prófessor í uppeldisfræði hefur lagt ríka áherslu á það sem hún kallar leiðandi uppeldi. Hún orðar það skemmtilega þegar hún segir að það einkennist af setningunni “nei, elskan” og svo fylgi útskýring, samtal af hverju sumt sé ungum börnum hollt og annað ekki.

Þegar við drögum mörk í uppeldinu er það gjarnan út frá ákveðnu gildismati. Þú ferð ekki yfir ákveðin mörk af því að þá skaðar þú einhvern. Að skaða aðra manneskju er einfaldlega rangt. Að efla sjálfan sig að þekkingu og góðvild er einfaldlega gott. Það er gott af því að það byggir á þeirri forsendu að sérhver manneskja sé dýrmæt. Sú forsenda er aftur á móti gefin og byggir á lífsskoðun eða trú.

Sem sagt uppeldi sem byggir á siðferðislegu gildismati. Uppeldi sem hefur það að markmiði að koma börnum til manns. Að gera þau að manneskjum með tilfinningu fyrir öðrum manneskjum. Að gera þau að sjálfstæðum manneskjum með siðferðisþroska þannig að sjálf geti þau tekið afstöðu, þar á meðal til gildismatsins sem þau voru alin upp við.

Að velja á eigin forsendum

Sjálfur er ég kristinn maður og hef alið mín börn upp á grunni þess gildismats. Reynt að ala þau þannig upp að þau væru nægjanlega sjálfstæð til að taka afstöðu til kristinnar trúar á eigin forsendum – ekki mínum. Taka afstöðu þegar þau hefðu aldur og þroska til.

Ef þau ná þeim þroska að geta vegið og metið hvað er rétt og hvað er rangt á sínum eigin forsendum þá hefur mér tekist ætlunarverk mitt í uppeldinu, - jafnvel þótt niðurstaðan verði sú að þau temja sér annað gildismat en mitt eigið. Ef ég ræði hins vegar aldrei við þau um gildismat, eða forðast að miðla gildismati með öðrum hætti, öðlast þau sennilega seint þroska til að taka afstöðu til þess hvað sé gott og hvað sé vont fyrir þau. Og þá gildir einu hvort viðfangsefnið er fíkniefni eða kristin trú.