Trúarlega víddin í fjölmenningarfærninni

Trúarlega víddin í fjölmenningarfærninni

Í nýlegri bók sem er gefin út af Evrópuráðinu og fjallar um fjölmenningarfærni og fjöltrúarlegan veruleika í skólum er leitast við að varpa ljósi á þá áskorun sem felst í því fyrir skólayfirvöld að taka þennan veruleika alvarlega.

Í nýlegri bók sem er gefin út af Evrópuráðinu og fjallar um fjölmenningarfærni og fjöltrúarlegan veruleika í skólum er leitast við að varpa ljósi á þá áskorun sem felst í því fyrir skólayfirvöld að taka þennan veruleika alvarlega. Þar er meðal annars minnt á að trúarleg og siðferðileg gildi eru svið sem fela í sér hugmyndir fólks um gildi lífsins. Slík gildi sé ekki hægt að nálgast í gegnum þröngt sjónarhorn námskrárgerðar eingöngu, né sé mögulegt að miðla þeim einhliða sem þekkingu.

Það er niðurstaða höfunda að efla þurfi fjölmenningarlegt nám sem hjálpi nemendanum að þroska með sér næmni á fjölbreytileika menningarlegs- og trúarlegs bakgrunns fólks, getu til að hafa samskipti við aðra og þar með þátttöku í þvermenningarlegum samræðum, færni sem feli í sér það að geta unnið í þvermenningarlegum hópi þar sem samræðan einkennist af hluttekningu, hæfileika til að kynna sér trú, venjur, tákn og helgisiði og síðast en ekki síst gagnrýna hugsun og sjálfstætt mat. Mikilvægt sé að hin trúarlega vídd fái notið sín innan fjölmenningarlegs náms. Þannig geti slíkt nám orðið mikilvægt framlag til friðar, þjálfunar í opnu hugarfari gagnvart öðrum menningarheimum, umburðarlyndis og viðurkenningu á mannréttindum í Evrópu.

Í bókinni er ítrekað að ekki sé hægt að horfa fram hjá því að þegar menningarheimar mætist þá mætist um leið hugmyndir sem eigi sér ýmist rætur í trúarbrögðum eða hafi trúarlegar skírskotanir eða tengingar. Komið geti upp sú staða að viðkomandi einstaklingar séu svo sannfærðir um réttmæti eigin fullvissu, gilda og heimssýnar að það sé jafnvel illvinnanlegt að ná fram samtali sem skilar árangri. Um leið er minnt á að reynslan sýni að félagsleg samstaða á sér litla þróunarmöguleika ef valdbeitingin ein og sér fái að vera ráðandi í samfélaginu eða ef ætlast er til þess af einstaklingunum að þeir geti einfaldlega tekið það upp hjá sjálfum sér að standa fyrir friðsamlegum samskiptum gagnvart þeim sem hafa aðra lífssýn en þeir sjálfir. Umburðarlyndi og skilningur séu hæfileikar sem fólk þurfi að læra. Ríki hljóti því að hafa áhuga á að mennta unga fólkið sitt sem flest komi til með að þurfa að lifa saman í ákveðnu pólitísku samhengi með (eða þrátt fyrir) mismunandi lífsskoðanir og heimssýn. Í þessu samhengi þurfi að taka hina trúarlegu vídd inn í fjölmenningarlegt nám.

Við lestur bókarinnar vaknaði sú spurning í hugum undirritaðs hvort ekki geti verið að slík þjálfun í fjölmenningarfærni sé nokkuð sem við sem störfum í kirkjunni sem og allir aðrir sem koma að vinnu með fólki á einn eða annan hátt þurfum að sinna fyrir okkur sjálf um leið og við vinnum að framgangi þessa máls á víðum vettvangi. Þessum litla pistli er ætlað að minna á mikilvægi þess að við höldum áfram þessari umræðu hér á Íslandi. Hér þarf kirkjan rétt eins og aðrir aðilar íslensks samfélags að taka sér tak og halda henni áfram. Mikilvægt skref var tekið hér um árið með ráðstefnunum Á sama báti sem þjóðkirkjan stóð fyrir. Erindin frá þeim ráðstefnum er að finna í sérriti Kirkjuritsins (2006/1) og eru þau þarft innlegg í umræðuna. Þá var það fagnaðarefni að stofnaður var Samráðsvettvangur trúfélaga fyrir tveimur árum. En nú er spurt: Hver eru næstu skref?

Nálgast má ítarlega kynningu á bókinni Religious diversity and intercultural education: a reference book for schools sem hér er vitnað í á vefslóðinni: http://pb.is/news/bokarkynning__relgious_diversity_and_intercultural_education__a_reference_book_for_schools0