Það sem ég hef lært

Það sem ég hef lært

Það sem ég hef lært af skóla lífsins er m.a. það að þau eru sönn orð fræði- og listamannsins Sigurðar Nordal að „sá sem vildi losna við alla sorg og söknuð, yrði að kaupa það því dýra verði að elska ekkert í heiminum.”

Það sem ég hef lært af skóla lífsins er m.a. það að þau eru sönn orð fræði- og listamannsins Sigurðar Nordal að „sá sem vildi losna við alla sorg og söknuð, yrði að kaupa það því dýra verði að elska ekkert í heiminum.” Enginn maður getur staðist ástina og hún streymir sem betur fer inn í líf okkar allra með einhverjum hætti og sorgin gleymir engum.

Ég er í starfi mínu oft í kringum dauðann og aðskilnað ástvina og ég óttaðist í upphafi þjónustu minnar innan kirkjunnar að þessi veruleiki myndi á einhvern hátt hafa niðurbrjótandi áhrif á líf mitt. En það hef ég líka lært í skóla lífsins að sorgin er systir gleðinnar og þær eiga sömu móður, kærleikann. Ég upplifi oft mikinn kærleika á gleðistundum í starfi mínu en aldrei finn ég eins áþreifanlega fyrir ástinni og þegar dauðinn kveður dyra. Ég upplifi stundum við útfarir þegar ég geng inn kirkjugólfið að andrúmsloftið sé svo þrungin af ást, líkt og ég gangi inn í hjúp. Þá ilmar allt af ástinni og þó að söknuðurinn og eftirsjáinn sé svo áþreifanlega til staðar er líka svo ótrúlega sterk tilfinning af þakklæti og djúpri virðingu. Ást og þakklæti, það eru ekki til betri tilfinningar og danski presturinn Kaj Munk sagði eitt sinn “þar sem ríkir þakklæti þar er Guð”. Ég á þá lífsreynslu að hafa horft á föður minn berjast við ólæknandi sjúkdóm í tíu ár uns hann kvaddi. Það fannst mér ósanngjörn þrautaganga. Hann hét Bolli Gústavsson og var prestur og listamaður. Ef einhver maður sem ég þekki hefur vandað líf sitt þá var það hann. Hann var mikill reglumaður sem þjónaði fólki alla ævi af kærleika og virðingu. Ég hafði í huga mínum séð foreldra mína njóta þess að ljúka störfum og hafa tíma fyrir sig sjálf og afkomendur sína á ævikvöldinu en þess í stað greindist hann á besta aldri með sjúkdóm sem af fullkomnu miskunnarleysi tók frá honum allt sem lífið gaf. Þegar ég horfði á vanmátt hans og umkomuleysi vaxa dimmdi yfir sál minni og ég barðist við reiðina. En hann var aldrei reiður, hann var sorgmæddur og æðrulaus.

Ég man aðeins tvisvar eftir því að sjá föður minn komast við, það var þegar hann tjáði mér ótta sinn við það að vera okkur fjölskyldunni til skammar vegna sjúkdóms síns og eins þegar hann uppgötvaði að hann gat ekki lengur munað og farið með 23. Davíðssálm. Þá runnu tárin niður andlit hans og sorgin lagðist yfir. Þegar leið á sjúkdómsstríðið var ég einu sinni að segja móður minni frá því að ég bæði alltaf um lækningu af því að það væri mín heitast ósk fyrir hans hönd, það væri mér mikilvægt að halda í tiltrú mína á kraftaverkið. Þá sagði hún mér frá því að ekki löngu eftir að pabbi fékk greiningu hafi hann oft vaknað upp á næturna til að biðja og bænin var alltaf söm. Það var ekki bæn um lækningu heldur þakkarbæn. Hann hafði hátt og í hljóði þakkað Guði fyrir að hafa gefið sér góðu konu og svona mörg börn og barnabörn. Svo þurfti hann að tjá þakklæti sitt að hafa fengið að búa á fegurstu stöðum Íslands og fyrir allt sitt lífslán.

Þetta er ein af þeim stundum þegar lífið hefur komið mér á óvart og fært mér nýjan lærdóm. Í þjáningunni miðri upplifði faðir minn sig lánsaman og vildi nota tímann til að þakka fyrir sig. Ég þurfti á einhvern hátt að hugsa svo margt upp á nýtt þegar ég heyrði af þessu bænalífi. Bæn þjáningarinnar getur sem sagt verið full af ást og þakklæti.

Af þessari sjúkdómsgöngu lærði ég líka dýrmæti þess að elska fólk í veikleika sínum. Það var auðvelt að elska Bolla Gústavsson í styrkleika hans, enda var hann alla tíð sterk og góð fyrirmynd. Hann umvafði sitt fólk og hann hjálpaði mér með marga hluti og ég leit upp til þessa virta og hæfileikaríka manns sem var alltaf til staðar.

En svo kom í ljós að það var líka svo auðvelt að elska hann í vanmættinum, af því að ástin og þakklætið var ekki frá honum tekið og eftir á sé ég að á þessum tíma kenndi hann mér ekki minna um lífið. Ég hef lært það af lífinu að mikilvægast er að elska af heilu hjarta og þakka fyrir allt það góða sem lífið gefur.