Þjóðkirkjufrumvarp – að byrja á byrjuninni

Þjóðkirkjufrumvarp – að byrja á byrjuninni

Framtíðarsýn stofnunar eins og þjóðkirkjunnar hlýtur að taka mið af tvennu, innra starfi og ytri ramma. Hlutverk og tilgangur starfs þjóðkirkjunnar gengur út á hið innra starf, að boða kristin lífsgildi og vera til þjónustu gagnvart náunganum. Ytri ramminn á fyrst og fremst að styrkja hlutverkið.
Halldór Reynisson - andlitsmyndHalldór Reynisson
21. febrúar 2017

Frumvarp til þjóðkirkjulaga er nú til kynningar á kirkjulegum vettvangi. Um þetta frumvarp er ýmislegt gott að segja, enda þótt maður sakni þess strax að greinargerð um höfuðáherslur og breytingar skuli ekki vera látin fylgja. Eflaust er það tilgangur boðaðra kynningarfunda að gera betur grein fyrir frumvarpinu og kalla eftir viðbrögðum.

Mig langar að leggja hér fram nokkrar ígrundanir sem komu upp í huga minn við lestur frumvarpsins.

Í fyrsta lagi þykir mér þetta frumvarp til lagasetningar á Alþingi Íslendinga alltof langt og ítarlegt. Ég hef heyrt fleiri nefna þetta í mín eyru. Kannski hefði verið nóg að hætta eftir 4. grein frumvarpsins þar sem fjallað er um að þjóðkirkjan ráði innri málefnum um skipulag. Allt sem á eftir fylgir fjallar nefnilega meira og minna um innri málefni kirkjunnar. Jafnvel hefði mátt sleppa fyrri hluta 3. greinar um að skírnin veiti aðild að þjóðkirkjunni, því ef eitthvað er innra málefni kirkjunnar þá er það þessi grunnvígsla til hins kristna lífs sem hefur ekkert með ytri lagaramma að gera.

Það er vandséð að Alþingi eigi eða geti fjallað um innri málefnin og getur kallað fram þrætubók á þeim vettvangi. Hvað mundi gerast ef Alþingi felldi niður ákvæðið um skírnina sem aðild að þjóðkirkjunni, t.d. á grundvelli trúfrelsisákvæðis?

Í grunninn ætti þjóðkirkjulög að vera stuttur og einfaldur rammi um ytri stöðu kirkjunnar. Allt er lýtur að innri málefnum ákveður kirkjan sjálf og stofnanir hennar.

Frumvarpið til þjóðkirkjulaga leiðir hugann að öðru sem lónar þarna einhvers staðar í bakgrunninum. Hefur þjóðkirkjan sett sér stefnu og framtíðarsýn? Hvaða framtíðarsýn hefur kirkjuþing um þjóðkirkjuna? Eða kirkjuráð? Eða biskup Íslands? Hvar er þjóðkirkjan stödd og hvert vill hún stefna?

Framtíðarsýn stofnunar eins og þjóðkirkjunnar hlýtur að taka mið af tvennu, innra starfi og ytri ramma. Hlutverk og tilgangur starfs þjóðkirkjunnar gengur út á hið innra starf, að boða kristin lífsgildi og vera til þjónustu gagnvart náunganum. Ytri ramminn á fyrst og fremst að styrkja hlutverkið.

Varðandi ytri rammann, þ.e. þjóðkirkjulögin, þá sýnist mér þetta frumvarp vilja staðfesta óbreytta stöðu á tímum mjög hraðfara þjóðfélagsbreytinga. Staða þjóðkirkjunnar í íslensku samfélagi er gjörbreytt frá því að ég hóf störf innan hennar fyrir 30 árum og þó eru þær breytingar mismiklar, meiri í þéttbýli, minni í dreifbýli. Þessar breyttu aðstæður kallar á breytt vinnubrögð í innra starfi kirkjunnar sem lagaramminn þarf að styðja við. Þess vegna er fyrsta verkefnið að skoða stöðu og starfsaðferðir þjóðkirkjunnar í ljósri breyttra tíma og skoða síðan lagarammann í ljósi þessara breytinga.

Þjóðfélagsbreytingar síðustu áratuga kalla á endurskoðun á sambandi ríkis og kirkju að mínu mati. Við sem tilheyrum þjóðkirkjunni eigum að hafa frumkvæði að því að ræða þetta samband og þá hvort til aðskilnaðar eigi að koma. Víst má segja með nokkrum rökum að heilmikið hafi gerst, ekki síst með lagasetningunni frá 1997 um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar. Kannski getum við sagt að ríki og kirkja séu skilin á borði og sæng en lögskilnaður hefur ekki orðið.

Þjóðkirkjan er fyrst og fremst trúfélag á evangelískum-lúterskum grunni eins og segir í 1. grein frumvarpsins. Að mínu viti skaðar núverandi samband ríkis og kirkju það hlutverk, ekki síst vegna eilífra deilna um fjármuni og þess yfirbragðs hagsmunagæslu sem sú umræða tekur á sig og á lítið skylt við grunngildi kristninnar. Samt þarf að leysa fjármálin í sæmilegri sátt og gefa sér til þess tíma. Ríkisvaldið hefur ríkar ástæður til að ganga til samninga við kirkjuna, ekki bara um þann heimamund sem kirkjan bar með sér inn í þetta hjónaband í formi jarðeigna, heldur þarf ríkið vitaskuld að borga meðlag. Já, meðlag með þeim þjóðararfi, sem er að finna í ranni þjóðkirkjunnar eftir þúsund ára hjónaband. Þar má nefna yfir 200 byggingar sem eru á minjaskrá.

Hvernig væri að byrja á byrjuninni, stöðu þjóðkirkjunnar og stefnu hennar inn í 21. öldina? Síðan getum við rætt um þennan t.t. einfalda lagaramma sem þarf utan um starf hennar þegar við vitum hvert við erum að stefna.