Rík lík

Rík lík

Það sem þarna er á ferðinni er einfaldlega lýsing á innihaldi Meetoo byltingarinnar. Englarnir í jólaguðspjallinu eru á þönum að hitta Jósef, Sakaría, fjárhirðana í Betlehem, vitringana frá austurlöndum og alla hina karlana og telja í þá kjark til að stíga út úr stigveldiskerfinu en lúta barninu.
Bjarni Karlsson - andlitsmyndBjarni Karlsson
25. desember 2017

Núna eru jól og jól eru þannig í eðli sínu að þau eru alltaf haldin í skugganum af einhverju því jólasagan er saga af ljósi og skuggum. Í aðra röndina er hún um heimsviðburð en í hina saga af litlu barni á merkingarlausum stað innan um afskekkt hversdagsfólk. Skugginn í sögunni er hið rómverska hernaðarvald með tillitslausum tilskipunum og skeytingarleysi. Við bætist hjartakuldi samferðarmanna og loks barnamorðin hræðilegu og flóttinn frá Betlehem. Í dag, tvöþúsund árum síðar, eru líka margir, margir skuggar. Engu að síður er það nú sennilega svo að ef allar þær mannsálir sem lifað hafa á jarðkúlunni frá því sögur hófust fengju núna val um það hvenær í sögu mannkyns þær hefðu fæðst, en fengju samt engu um það ráðið hvar þau kæmu í heiminn, þá myndi hver einasta upplýst sál líklega velja að fæðast núna. Líkur nýfædds barns á því að ná að lifa og hafa getu til að gera og vera eitthvað sem skipti það máli eru meiri á þessum blá hnetti í dag en þær hafa nokkru sinni verið ef mál eru reiknuð í prósentum. Ungbarnadauði hefur lækkað um helming síðustu 20 ár. Ólæsi hefur sömuleiðis hopað um helming á sama tíma að ekki sé reiknað í öldum. Sárafátækt með skorti á hreinu vatni og almennri næringu hefur líka dregist verulega saman. Og hér uppi á Íslandi, eftir 70 ára friðartíma, - hafandi átt 70 ár án heimstyrjalda og hörmunga - erum við þar komin að við erum jafnvel farin að tala um það í alvöru að leggja niður hefðbundin stigveldissamskipti. Við lifum á slíkum gullaldartímum að við höfum afgang til þess að tala saman, menntast og móta nýjar hugmyndir um samskiptaleiðir. Stigveldissamskipti hafa alltaf verið eins. Efst trónir einhvers konar Trump, Pútín eða Ágústus keisari svo kemur svona Kim Jong-Un, Erdogan eða Heródes og síðan koll af kolli þar sem hver karlinn heldur öðrum á mottunni allt inn í elhús í Tókýó eða Reykjavík þar sem frústreraður heimilisfaðir lemur í borðið og segir konunni sinni að þegja. Og í dag, vegna þess að við höfum haft tíma til þess að tala saman, vitum við það sem alltaf hefur verið vitað en bara ekki hægt að segja þannig að það skildist; að allur yfirgangur er þátttaka í ævafornu samskiptakerfi sem menn hafa smíðað. Kerfin okkar, að valdakerfum meðtöldum, eru manna verk og því vel hægt að breyta því sem fólk vill breyta.Jólasagan um ungu flóttafjölskylduna sem stendur höllum fæti í hörðum heimi m.a. vegna lélegrar stjórnsýslu tengda skattalöggjöf og ekki síður vegna morðóða valdsmannsinsins Heródesar, er sístæð saga. Ný nöfn á launaskrá stórvelda en valdið það sama, og undantekningalítið er hið æðsta vald í höndum gamalla karla sem eiga skammt eftir ólifað og hafa það eina markmið að deyja ríkir. Sama hvað.

Og í þessu langþróaða andrúmslofti goggunarraðarinnar gerum við allskonar hvert við annað vegna þess að í aðra röndina er hjarðhegðun grópuð í eðli okkar og við erum spendýr sem pissum í horn, mörkum okkur svæði og höfum litla þolinmæði gagnvart ögrunum. Hins vegar erum við líka vitibornar verur sem gjarnan styttum okkur leið yfir mörk náungans í stað þess að semja við hann eða biðja leyfis. Gamla stigveldiskerfið er útgangspunkturinn í samskiptum okkar, reglan sem undantekningarnar sanna. Stjórnun kemur að ofan, þau sem hlýða eru á gólfinu. Sumir hugsa aðrir gera, - ‘thinkers and dooers’- ekki satt? Og ef ég legg hönd mína á öxl þér þá merkir það alveg helling. Hönd á öxl! - elsku kallinn minn. Og ef ég strýk niður eftir bakinu á þér eða klíp þig í rassinn þá er það staðfesting á því að þú ert undir mig settur, hvort sem þú ert karl eða kona.

Uppgötvun Meetoo byltingarinnar er sú að kynbundinn yfirgangur er ekki um greddu heldur vald. Því meiri aðgang sem ég gef sjálfum mér að líkama þínum og því meiri forgjöf sem menningin færir mér í þeim efnum, því voldugri er ég en þú að sama skapi vanmáttugri. Þetta er ekkert flókið. Þess vegna hefur t.d. nauðgunum alltaf verið beitt í hernaði. Kynferðisofbeldi snýst um vald og stöðu af því að allt ofbeldi er um vald og stöðu.

Jósef hennar Maríu var „valmenni“ segir Matteusarguðspjall. (1. kafli v. 19) Þess vegna vildi hann ekki beita hana valdi með því að drusluvæða hana þegar hún reyndist ófrísk án hans aðildar. Jósef var s.s. ekki stigveldissamskiptakarl og vildi ekki gera Maríu opinbera minnkun heldur bara ljúka sambandinu í kyrrþey. Þá vitraðist honum engill Guðs sem talaði beint inn í taugakerfið á honum í draumi og sagði honum að óttast ekki. „Óttast þú ekki að taka til þín Maríu heitkonu þína.“ mælti engillinn. Og Jósef gerðist einn af öllum þeim sterku körlum sem gengið hafa börnum í föðurstað sem þeir áttu ekkert í. Sérðu skilaboðin um samskipti kynjanna í þessari frásögn? Og þegar engill Drottins birtist Sakaría föður Jóhannesar skírara  í fyrsta kafla Lúkasarguðspjalls og kynnir fyrir honum hlutverk drengsins sem konan hans muni brátt ala í heiminn þá lýsir hann því svo að hlutverk spámannsins sem undirbúa skuli komu frelsarans verði í því fólgið „að snúa hjörtum feðra til barna sinna og gefa óhlýðnum réttlátt hugarfar…“(Lúkasarguðspjall 1.17)

Það sem þarna er á ferðinni er einfaldlega lýsing á innihaldi Meetoo byltingarinnar. Englarnir í jólaguðspjallinu eru á þönum að hitta Jósef, Sakaría, fjárhirðana í Betlehem, vitringana frá austurlöndum og alla hina karlana og telja í þá kjark til að stíga út úr stigveldiskerfinu en lúta barninu. „Verið óhræddir“ segir engillinn við fjárhirðana, „ég boða ykkur mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum. Ykkur er í dag frelsari fæddur sem er Kristur Drottinn í Borg Davíðs. Og hafði þetta til marks, þið munuð finna ungbarn.“ Ef þetta hefði gerst í dag hefðu fjárhirðarnir spurt: „Er ég í falinni myndavél?“

Góða fréttin sem jólin flytja er sú að við eigum val. Við getum haldið áfram að óttast valdið sem býr til rík lík eða snúið hjarta okkar að barninu og þörfum þess.

E.t.v. hefur menning okkar aldrei átt jafn gott með að meðtaka merkingu jólanna og einmitt núna.  Á sama tíma og við erum að sjá þetta með kynferðisofbeldið erum við líka að skilja eðli fátæktar í nýju ljósi. Núna vitum við að rétt eins og kynbundið ofbeldi er ekki um kynlöngun heldur vald, þannig er fátækt heldur ekki um græðgi sumra á kostnað annara heldur um vald. Allar lokuðu dyrnar í Betlehem og í Laugardalnum eru tákn um vald. - Við verðum að viðurkenna að það er eitthvað varðandi vetrarbúsetuna í Laugardalnum sem er okkur ekki alveg á móti skapi, svo lengi sem það erum ekki við sjálf eða ættingjar okkar sem eru að göltast þarna í rafmagnsleysi. Plastpokaraðirnar við Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálpina eru í aðra röndina staðfesting fyrir okkur flestum að það sé eitthvert annað fólk sem lifi skort og skömm en ekki við. Saga jólanna segir okkur að Jósef og María eru í plastpokaröðinni. Jólabarnið er krakki sem er rifinn upp að nóttu og sendur úr landi í nafni Dyflinarreglugerðarinnar vegna þess að það er ekki pláss. Það er ekki pláss í heiminum eins og við höfum samþykkt að hafa hann.

Og einmitt núna þegar kjarnaoddarnir blika í sólinni og þeir Kim Young-Un og Donald Trump þenja taugakerfi jarðarbúa, glingrandi með gullin sín og gefandi í skyn að það sé aldrei að vita nema þeir verði allt í einu alveg „spinnigal“, þá er eitthvað sem gerist hjá okkur í þá veru að við höfum ekki lengur þolinmæði gagnvart þessari forneskju sem er svo fyrirsjáanleg og móðgandi. Vissuð þið aðein kjarnorkusprengja er líkleg til að leysa úr læðingi jafn mikla orku og allar sprengingar á jörðu frá því púðrið var fundið upp?![1]  Barnamorð Heródesar í Betlehem blikna við hliðina á kjarnorkusprengjum þessara morðóðu karla, en valdið er það sama. Valdið sem myrðir börn og hefur núna náð þeim hæðum að vera fært um að ánafna ófæddum kynslóðum helsjúkan lofthjúp og vistkerfi sem komið er í þrot.

‘Þeir koma til ykkar í sauðaklæðum’, mælti frelsarinn forðum.’ Þeir koma til ykkar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þið þekkja þá.’ (Matteusarguðspjall 7.12)

Ávextir valdsins sem safnar sjálfu sér og framleiðir rík lík eru og hafa alltaf verið barnamorð. Síðasta morðæðinu er vonandi lokið í Írak, og þó. Við sitjum hér prúðbúin í dag. Stór hluti fatanna sem hylja nekt okkar á þessu augnabliki eru unnin af litlum liprum fingrum. Við lifum og hrærumst í samofnu stigveldiskerfi þar sem allt er öðru tengt og háð. Þú og ég erum ekkert undandskilin. Vestrænn lífsstíll og neysla reiðir sig á barnamorð.

Það er inn í þetta hræðilega samhengi veruleikans sem Gabríel erkiengill talar í sögu jólanna: „Verið óhræddir, því ég boða ykkur mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum, ykkur er í dag frelsari fæddur. […] Og hafið þetta til marks, þið munuð finna ungbarn […]“

Einmitt þarna er sprengikraftur trúarinnar. Við erum að trúa því hérna í fúlustu alvöru, um leið og við vitum að það hljómar eins og klikkun, að höfundur lífsins hafi gerst maður. Við erum að segja að höndin sem hleður fjöllin og mótar vetrarbrautir sveiflist í ósjálfráðum hreyfingum ungabarns. Við erum að meina að varirnar sem mæla „Verði ljós!“ nærist á brjósti ungrar móður. Jólin eru skilaboð til allra um það að höfundur lífsins hafi tekið á sig genamengi vistkerfisins. Og það er magnað að sjá að nútíma náttúruvísindi eru á umliðnum árum að leiða í ljós sams konar heimsmynd. Náttúruvísindin sýna betur og betur að þetta sem við köllum veruleika er ein alsherjar samhangandi heild forma og ferla þar sem allt er öðru tengt og háð. Og þegar við segjum í ljósi jólanna að Guð hafi gerst maður í Jesú  Kristi og að veröldin öll, vistkerfið sem við lifum í og plánetan sem við byggjum, sé líkami elskandi Guðs, þá rímar það við bestu fáanlegu vitneskju náttúruvísindanna því að líf himinsins er hér, nákvæmlega hér og ekki í einhverjum fjarlægum stað! „Guðs ríki er hið innra með ykkur“ mælti frelsarinn. Ekkert er undan skilið. Allt er ljós og líf og það að vera manneskja má vera þátttaka í guðlegu eðli.

Núna skulum við taka við áskorun engilsins og hætt að óttast Trump, Ágústínus keisara, Pútín og alla hina valdasjúklingana. Leyfum jólunum að gerast og látum stigveldissamskiptaruglið heyra sögunni til. Þess í stað skulum við viðurkenna að við erum þátttakendur í undri, samverkamenn að vistkerfi sem við vitum ekki enn í hvað stefnir. Og besta vinnutilgátan sem við höfum er enn þessi: Hættum að vera hrædd en förum og finnum barnið.

Amen.