Kuldastrá í veröldinni

Kuldastrá í veröldinni

Það eru víst margar mannsálirnar í henni veröld sem þurfa að hrekjast af einum staðnum á annan. Oft er fólk að leita að betri íverustað. Stundum að fá hvíld frá dagsins önn, tilbreytingunni sem veitir okkur öllum svo mikla endurnæringu. Hún fæst nú ekki alltaf mikil á flugvöllum heimsins þegar nýjasta váin, hryðjuverk, vofir yfir.

“Hann var kuldastrá í veröldinni.”

Þetta sagði mamma oft við mig í æsku þegar hún var að lýsa einmana sál sem hafði hrakist af einum stað á annan, og átti hvergi höfði sínu að halla.

Það eru víst margar mannsálirnar í henni veröld sem þurfa að hrekjast af einum staðnum á annan. Oft er fólk að leita að betri íverustað. Stundum að fá hvíld frá dagsins önn, tilbreytingunni sem veitir okkur öllum svo mikla endurnæringu. Hún fæst nú ekki alltaf mikil á flugvöllum heimsins þegar nýjasta váin, hryðjuverk, vofir yfir.

Vandrarar á ferð

Mitt í öllu þessu erum við ferðalangar á ferð um eigið líf, hvort sem við þvælumst þetta ein, með ástvini eða hóp af vinum.

Norðmennirnir segja “at vandra på jorden” þegar þeir tala um lífsgönguna. Við gætum íslenskað það og sagst vera vandrarar á ferð þegar við kútveltumst um heiminn, flug, bíl eða sjóveik. Að ég tali nú ekki um langar biðraðir á flugvöllum heimsins. En það gerast nú sem betur fer mörg lítil ævintýr á meðan á biðinni stendur, bara ef við nennum að veita þeim athygli. Við gætum t.d. séð ástfangin ungmenni að krunka sig saman, eða kannski ástfangin gamalmenni. Hvað er skemmtilegra en að sjá hamingjusamt fólk saman? Svo veita litlu börnin okkur oftast mikla gleði, allavegana þegar þau eru södd og sæl. Þá er svo gaman að horfa á þau í einlægni spyrja gamla kallinn: “Afhverju ertu með svona stórt nef? Eða “eiga konur að vera með skegg eins og þú ert með á hökunni? Að ég tali nú ekki um þegar við getum litið ofaní eitt fallegt blóm á ferðinni, horft í augu hvítvoðungsins og andað að okkur fegurð lífsins. Allt þetta endurnærir og gefur okkur aukinn kraft á ferðinni. Og að baki allri sköpuninni er Guð.

Það sorglega er að oft er þetta líf eintómur hávaði og æðibunugangur. Það glymur í hátölurunum hvenær næsta flugvél fari, o.s.frv. Við verðum þreytt, vegmóð eins og ég vil nefna það og við nennum þessu ekki. Það hefur sjálfsagt engum liðið svona nema mér!

Drottin er að baki allri sköpuninni

Án gríns þá þurfum við að sækja okkur orku í það sem er fallegt og endurnærandi. Við þurfum að sækja endurnæringu í Guð. Drottinn okkar er að baki allri sköpuninni, við bara skiljum ekki afhverju Guð skapaði geitungana. Hvernig stendur á því að allur þessi sársauki þarf að vera í tilverunni?

Það er ekki til neitt einfalt svar við þessu. Lífið er í senn einfalt og flókið. En það sem ég hef lært í gegnum mína ævi, þá sýnist mér að glíman við erfiðleikana styrki okkur og geri okkur hæfari til að takast á við þyngri þrautir.

Hvar værum við án tónlistarinnar?

Hvar værum við án tónlistarinnar? Guð hjálpi mér, án tónlistar vildi ég ekki vera til, því tónlist er einhver undursamleg tjáningaleið tilfinninga, eins og ljóðið.

Tónlistin er farvegur til að tjá ástríður og þrá, sorg og gleði, hvíld, ró og fjör. Hún nær til okkar á þann hátt sem talað mál gerir ekki. Falleg tónlist er jafnt huggun í sárustu jarðarför og gleðilegustu skírn og fermingu. Þar að baki býr Guð.

Sköpunin verður til í óreiðunni

Sköpunin verður til í kaosnum, hvirfilbylnum þar sem allt er á tjá og tundri. En til að koma jafnvægi á tilveruna setti Guð inn regluna sem kemur skipulagi á alla óreiðuna.

Þannig verða óreiða og regla að vegast á til að koma skikk á sköpunina. Reglan í G.t. er kölluð kosmos. Kaosinn er þá hinn óreglulegi rithmi, en kosmosinn röðin sem kemur reglu á hlutina.

Þess vegna hafa myndast útfararsiðir um allan heim til að koma reglu á, inn í angistina og beina henni í ákveðinn farveg.

Ekkjan í Nain

Ekkjan í Nain var inn í hringiðu angistarinnar.

Hún hafði ekki aðeins misst sinn einkason, heldur var hún líka makalaus. Hlutskipti slíkra kvenna var ekki beisið fyrir botni Miðjarðarhafsins á hennar tíma. Hún var talin eins og hver önnur eign karla. Hún var bara eitt tækið til viðbótar svo að maður heimfæri þetta til okkar tíma. Vél sem gat unnið og starfað, gefið af sér afkvæmi sem var mestur sjóður á þeim tíma, því það var félagsþjónustukerfi þeirra. Börnin, barnabörnin og frændfólkið var skipulega tengt til að passa upp á hvert annað, veita aðhald og aga, gangast einhverjum í móðurstað eða taka að sér ekkju í stórfjölskyldunni.

Kjör ekkju á tímum Jesú

En ekkjan í Nain var einagruð. Þeirra biðu ekki góð kjör sem áttu fáa að.

Einkasonurinn farinn, maðurinn farinn og við vitum ekki um hve frændliðið var stór hópur. Við vitum hins vegar að það var fjöldi sem fylgdi honum til grafar. Það var verið að hugga, syrgja og styðja með konunni. Það er dýrmætt þegar við getum verið hvert öðru stuðningur.

Það minnir nokkuð á útfararhefð okkar Íslendinga, því hér fylgja miklu fleiri hverjum einstaklingi til grafar en í nágrannalöndunum. Það er kærleikurinn sem bindur saman þetta félagsnet, og Guð er kærleikurinn.

Í miðju hvirfilbylsins er logn

Inn í þessa eymd konunnar gekk Jesús, en hann er birtingarmynd Guðs. Hann fann til samlíðunar með henni sem var orðin nánast allslaus, búin að missa allt það dýrmætasta í lífi sínu.

Við getum lent inn í miðjum kaosnum, algjört öngþveiti en ég vil sértaklega minna fermingarbörnin á að Jesús er aldrei nær ykkur en þegar allt virðist ómögulegt.

Vitið þið að inn í miðju hvirfilbylsins er algjört logn, friður.

Jesús hefur þau áhrif í líf okkar þegar við opnum hjartað fyrir honum. Þér finnst það kannski ekki, en Jesús stendur með þér í kaotískum aðstæðum. Sumum tekst að upplifa þar algjöran frið, sama hvernig allt veltist. Þá erum við sem næst hjarta Krists, þá hvílum við í honum.

Páll postuli talar um hvíld trúarinnar og segir:

“Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir, í Kristi Jesú.” (Fil. 4.7)

Jesús Kristur mætti konunni og gaf henni aftur það sem hún hafði misst. Hann gaf henni björg hennar sem fólst í látna syninum.

Lífið getur tekið á, það er víst áreiðanlegt. Við förum ekki varhluta af því frekar en nokkur önnur kynslóð undir sólinni.

Það er fleira sem sameinar en sundrar mannkyn

Við eigum öll miklu meira sameiginlegt en það sem sundrar okkur. Gallinn er að við einbeitum okkur allt of mikið að því neikvæða. Ofbeldi hefur aldrei alið neitt annað af sér en meira ofbeldi. Við súpum seyðið af því enn eina ferðina, jörðina um kring.

Kæru fermingarbörn, þið eruð að fikra ykkur út í lífið. Munið að “Mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði.” Ok.15.1 Það kemur nær alltaf til góða.