Hroki og auðmýkt

Hroki og auðmýkt

Breiðablik fangaði í gær í fyrsta sinn Íslandsmeistaratitlinum í fótbolta. Gríðarleg gleði varð meðal Blika við þessi tíðindi. Að baki sigri sem þessum er mikil vinna og einbeitni, liðsmanna, þjálfara, aðstoðarfólks og þeirra sem koma að starfi liðsins með einum eða öðrum hætti.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Breiðablik fangaði í gær í fyrsta sinn Íslandsmeistaratitlinum í fótbolta. Gríðarleg gleði varð meðal Blika við þessi tíðindi. Að baki sigri sem þessum er mikil vinna og einbeitni, liðsmanna, þjálfara, aðstoðarfólks og þeirra sem koma að starfi liðsins með einum eða öðrum hætti. Hundruðir ef ekki þúsundir barna og unglinga hér í Kópavogi og um allt land leggja stund á fótbolta, handbolta eða aðrar íþróttir til að efla líkama og sál. “Heilbrigð sál í hraustum líkama segir einhvers staðar.” Og nú rétt í þessum er hópur fólks að ljúka Hjartadagshlaupinu, sem hlaupið er til að minna á alþjóða hjartadaginn. Mikilvægt er að byggja á traustum grunni. Sinna sjálfum sér og rækta frá fyrstu tíð. Í leikskólanum læra börnin til dæmis; Að gefa öðrum með sér, sanngirni, ekki lemja aðra, skila hlutum á sama stað, taka til eftir sjálfan sig, taka ekki það sem maður á ekki, biðjast fyrirgefningar ef maður gerir á hlut einhvers, þvo hendurnar áður en maður borðar, gleyma ekki að hugsa, læra, syngja, lita, leika sér, hljálpa til og þegar er farið er út, að gæta sín á umferðinni, haldast í hendur og gæta að hvort öðru. Þarna er til dæmis Gullna reglan, Kærleiksboðorðið og ýmislegt annað ganglegt fyrir lífsgönguna. Siðfræði kristninnar í hnotskurn. Hljómar einfalt en ósköp erfitt í alvöru hins fullorðna lífs. Þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks, Ólafur Kristjánsson hélt erindi í safnaðarheimili Kópavogskirkju fyrir þá unglinga, sem sóttu fermingarbarnanámskeið safnaðarins í ágúst síðastliðnum. Ólafur talaði við unglingana um andlegan undirbúning og hugarfar sigurvegarans. Hann talaði um að hver og einn yrði líta reglulega í eigin barm og gera sitt besta til að ná settu marki. Textar dagsins flytja okkur boðskap um að þroska og ræktun mannkosta. “Hversu miklu betra er að afla sér visku en gulls og ákjósanlegra að afla sér hygginda en silfurs.” “Betra er að vera lítillátur með auðmjúkum en að skipta herfangi með dramblátum.” Og í lok guðspjallsins stendur: “Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.” Í þessu sambandi má nefnda söguna af hershöfðingjanum sem mætti tveimur liðþjálfum sem gengu framhjá honum án þess að heilsa að hermannasið. Hershöfðinginn reiddist og hrópaði: “Stansið! Vitið þið hver ég er?” Og annar liðþjálfinn sagði þá við hinn: “Heyrðu, Gummi, hér maður sem veit ekki hver hann er!”. Vitum við hver við erum? Hið ytra og hið ytra? Einhverjir virðast fá eitthvað út því að gera mikið úr sjálfum sér og lítið úr náunganum? Hvað býr að baki því að stunda endurtekna eða viðstöðulausa valdbeitingu/áreiti, munnlega, sálfræðilega eða líkamlega gegn annari manneskju eða hópi einstaklinga gegn þeirra vilja? Með öðrum orðum að stunda einelti, t.d. uppnefningar, gera grin vegna útlits eða þyngdar, hæðast af menningu, trú eða húðlit einhverra, eða fötlun eða heilsuleysi. Eða útiloka ákveðna einstaklinga frá leikjum eða gera ítrekað grín af einhverjum og eða stunda líkamlegar meiðingar, sparka slá, hrækja eða fella einstaklinga. Til hvers? Sagt er að margir gerendur ofbeldis hafi sterka þörf fyrir að ráðskast með aðra og stjórna. Semsagt að hafa vald. Viðkomandi eru sögð líka eiga erfitt með að fara eftir reglum og hafi jákvæðari afstöðu til ofbeldis en aðrir. Einelti er ein tegund ofbeldis. Viljum við ofbeldi? Guðspjallið í dag fjallar um það þegar fólk hrifsar til sín það sem því ekki ber, það er að fólk sest í rangt sæti. Þau sem gera sig sjálf að nafla tilverunnar eru sjálfhverf, sjálfmiðuð Narcissus hinn gríski tapaði glórunni og lífinu vegna ástar á sjálfum sér. Hann dó beinlínis af því að dást að spegilmynd sinni. Grikkirnir sáu, að þegar menn ætla sér annað og meira en mönnum ber, fer illa. Þeir kölluðu slíkt hroka. Hinn sjálfhverfi gengst ógjarnan við nokkurri sök. Hinn sjálfhverfi býr til óvini og vandkvæði sem verjast skal gegn. Hroki, stólasókn, dýrðarsókn, misrétti er umhverfis okkur. Er mögulegt að vera auðmjúkur eða auðmjúk í hinu harða samfélagi samkeppninnar? Hvað er auðmýkt? Felst hún í því að vanmeta sjáfan eða sjálfa sig? Heimspekingar og guðfræðingar hafa meðal annars tekist á við auðmýktina í aldanna rás. Skilningur Jesú er að; sá eða sú sem setur sig á háan stall hætti á að þola þá sneypu að vera hrundið af stallinum fyrir allra augum en sá eða sú sem gætir þess að trana sér ekki fram eigi frekar von á þeim heiðri að vera boðinn hærri sess. Heimspekingurinn David Hume var einn þeirra sem véfengdi kosti auðmýktar. Hann sagði meðal annars: að enginn sem þekkti mannlífið ætlaðist í raun og veru til þess að auðmýktin væri rétt nema á ytra borði eða menn væru fyllilega einlægir þegar þeir létu sem minnst yfir eigin ágæti. Sannir heiðursmenn hefðu til að bera réttmætt stolt en kynnu jafnframt að breiða yfir sjálfsánægjuna svo hún ylli ekki ýfingum í samskiptum við aðra. Raunveruleg auðmýkt væri löstur. Getur sigurvegari, unnið sigra á hroka? Nær fótboltalið árangri ef hroki er í fyrirrúmi? Auðmjúk afstaða er ekki að halda að maður sé neðstur alls sem er. Það er skammsýni og afrakstur lélegrar sjálfsmyndar. Auðmýkt hefur ekki með tap að gera, heldur visku og heilbrigða veraldarsýn. Veislugestir röðuðu sér forðum. Hver stýrir veislunni? Í heiminum eru það menn. Hin djúpa alvara í sögu Jesú er að sá sem stjórnar alvöruveislunni er Guð sjálfur. Þegar hinum efsta degi er náð verður þú leiddur eða leidd í veislusal Guðs. Hvar verður þú til borðs? Þar er ekkert hrifsað, þar er enginn hroki, einelti og sjálfhverfa. Því þar er auðmýktin og lífsvitið. Auðmýkt felur ekki í sér rangt sjálfsmat eða skort á sjálfsvirðingu. Hefur hinn auðmjúki eða auðmjúka, meiri löngun til að hrósa öðrum en sjálfum sér og meiri áhuga að leiðrétta sjálfan eða sjálfa sig en aðra?

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um alder alda. Amen