Ótti - elska

Ótti - elska

Hvernig stendur á öllum þessum fréttum af ofbeldi og svikum, lygum og spillingu? Er alls ekki hægt að segja góðar fréttir? – Vissulega! Þær eru bara svo fáar og óspennandi, segir einhver. Kannski ekki eins spennandi og hinar en alls ekki fáar.

Ástand mannsins - Hugleiðing um þroska mannsins sem samfélagsveru, háskann sem honum er búinn og braut farsældar fyrir hann og mannfélagið

Hvernig stendur á öllum þessum fréttum af ofbeldi og svikum, lygum og spillingu? Er alls ekki hægt að segja góðar fréttir? – Vissulega! Þær eru bara svo fáar og óspennandi, segir einhver. Kannski ekki eins spennandi og hinar en alls ekki fáar. Góðu fréttirnar snúast að mestu um lífsins gang. Um það þegar fólk gerir skyldu sína. Við segjum kannski að fólk leggi sig fram og geri frábæra hluti, en þegar að er gáð eru það ekki fréttir. Þá eru hlutirnir bara eins og þeir eiga að vera.

Fréttirnar eru helst um það sem ekki á að vera og það er afar margt. Svo margt að næst er að segja að „svona sé lífið.“ Fréttirnar eru um framkomu mannanna hver við annan. Þær eru ekki endilega um það hvernig maðurinn er heldur um það hvernig hann hegðar sér.

Framferði mannsins er í raun helst að líkja við hegðun fíls í postulínsbúð, ekki minks í hænsnabúi, því hann er að gera það sem minkur á að gera í hænsnabúi. Fíllinn á helst ekki að vera í postulínsbúð og ef til vill á maðurinn ekki allskostar heima þar sem hann er. Hann er of fyrirferðarmikill fyrir vettvang sinn og á vettvangi er of mikið af viðkvæmum fyrirbærum til þess að hann megi hreyfa sig án yfirvegunar. Yfirvegunin er honum þó ekki töm né nærtæk, til þess er hann of vitlítill og skynfæri hans ónákvæm. Hann sér alls ekki glöggt og heyrir ekki það sem við hann er sagt, en verst er að hann er svo seinn og óviljugur að fatta. Og hann er hræddur af því hann hefur ekki yfirsýn né hugmynd um það hvers vænta má á næsta augnabliki, og það sem hann þó skynjar og veit vill hann hvorki meðtaka né ígrunda.

Nú gæti ég farið að tala um allskyns rannsóknir sem sýna þetta og hitt varðandi ástand náttúrunnar, ágang auðlinda, farnað mannfélagsins, hagfræðikenningar og læknisrannsóknir, tölur um ofbeldi, fangelsanir og kosningasvik ... en það geri ég ekki. Segi heldur:

Maðurinn er á þróunarbraut. Hann er eind í lífkerfi Jarðar og lýtur sömu lögmálum og aðrar lífverur að því leyti að hann er breytingum háður. Breytingar í umhverfi hans kalla á breytingar í og hjá honum sjálfum. Vegsemd hans er fólgin í því að hann getur vitað þetta og á allan hátt tekið afstöðu til sjálfs sín.

Þróun hans hingað til hefur leitt til æ meiri fullkomnunar. Sumar ættir hans hafa þó úrkynjast og horfið af sjónarsviðinu og enn er hann langt frá fullkomnun eins og við getum skynjað hana.

Sá er einn helsti kostur mannsins að hafa hugmynd um eitthvað æðra en er, meiri fullkomnun og að eiga vilja til þess að sækja í þá áttina. Hann má því viðurkenna að enn er hann vanþróaður. Hann er sem barn, unglingur sem kann ekki að hegða sér. Hefur frelsi og mátt sem hann er ófær um að stýra.

Víða hafa stjórnvöld, tilkominn með ýmsum hætti, ákveðið að takmarka frelsi mannanna. Vitundin um þroskaleysi mannsins er notuð til þess að réttlæta það. Fram hafa komið hugmyndir um hinn menntaða einvald eða aristokrati (stjórn hinna bestu) og lýðræði er alls ekki jafn almennt viðurkennd hugmynd og okkur gæti virst.

Lýðræðið sem flest mælir þó með á sér einmitt örðugt uppdráttar vegna þess hversu mönnum er illa treystandi fyrir því og vegna tilhneigingarinnar til að „hagræða“ því eða hafa áhrif á gang þess með óréttmætum hætti. Sjálft lýðræðið er jafnvel gert að vopni í hagsmunabaráttunni þegar það ætti að vera lausn átaka. Af því leiðir ólyst á þátttökunni í lýðræðisathöfnunum sem enn grefur undan því. Á allar lundir er upp á það snúið og afskræming þess felur í sér fall þess sem er fullkomlega hugsanlegur möguleiki í heimshverfi okkar, vöggu þess. Þá er menningarleg hnignun vís.

Vegna þroskaleysis síns gengur maðurinn fram á þann hátt að hann veldur þeim sífellt skaða sem í kringum hann eru og jafnframt skaðar hann sjálfan sig. Það er þó eigingirnin sem er drifkraftur hans umfram annað, misskilin hvöt sem byggð er á óttanum. Hann óttast sífellt að hafa ekki stjórn á umhverfi sínu, að á næstunni gerist eitthvað sem valdi honum tjóni. Hann hleður því í kringum sig virki úr margvíslegum meldingum (deterrance, ógnarfæling) sem eiga að gera aðra hræddari við hann en hann er sjálfur. Það mistekst þó því þetta eykur aðeins á ótta hans. Nú bætist við ógnina af umhverfinu óttinn um varnirnar sjálfar og að lokum fer hann að óttast um ótta sinn og bilast, verður meira og minna brjálaður (irrational).

Með einangrunarstefnu útilokar maðurinn flestar aðrar lausnir. Hann þróar þá í einsýni hugmyndir sem ekki fá neina viðrun sem leiðir til sérvisku og lokunar. Þetta má sjá hjá sumum einsetumönnum. (Við getum kallað það Gísla-á-Uppsölum-heilkennið) Ein merking hugtaksins synd er sundrungin sem hún veldur. Hún gerir þau sem áður voru vinir að framandi fólki og einangrar það í hagsmunahópum. Fótboltabullur, héraðarígur og ættarhatur eru dæmi um slíkt. Alræðissamfélög eru hrikalegustu dæmi um þetta ss. í nasisma og kommúnisma, söguleg keisaradæmi Evrópu og Asíu, ofbeldissamfélög eins og mafíur og „mótorhjóla“klíkur samtímans sömuleiðis. Svo eru víða litlir harðstjórar sama marki brenndir.

Það er næstum hægt að segja að illskan sé rétta eðli mannsins að því leyti sem óttinn stjórnar hegðun hans. Þetta hlýtur að vera í samræmi við það hvar hann er staddur í stigmögnun varnarbaráttunnar. Það ógnvænlega er að það sýnist vera sjálfvirkni í þessari þróun og gildir jafnt um einstaklinga og samansvarna hópa, þjóðfélög jafnvel.

Auðmýkt vegna hins mannlega ástands sem hér er lýst færi mannfólkinu betur en flest annað. Hann á sér fagrar hugsjónir og göfug markmið en nær svo sorglega skammt í átt til þeirra. Hann missir marks. Það er ein merking hugtaksins syndar (hamartía) að geiga. Slappur árangur mannanna í því að skapa frið og öryggi, sátt og samlyndi ætti að opna hug okkar fyrir leitinni að nýjum aðferðum við samfélagskipanina og samskipti okkar.

Hvarvetna sjáum við dæmi um hegðun byggða á ótta um eigin hag. Hegðun sem ekki viðurkennir í raun sama rétt annarra til að tryggja sína heill. Hegðun sem ekki treystir öðrum lausnum en valdbeitingu eða blekkingu. Við sjáum þetta í samkeppni í stjórnmálunum, viðskiptalífinu, atvinnulífinu og á almennum og sérstökum félagsvettvangi. Við sjáum þetta líka í fjölskyldulífinu, vinahópunum og samskiptum einstaklinga um einkamálefni sín. Við sækjumst eftir því að hafa yfirhöndina, viljum vita af styrk okkar tiltækum ef beita þyrfti – og hann rasar fram þegar við teljum nauðsynlegt. Ævinlega eru afleiðingarnar hinar sömu: Traust og trúnaður bresta og framandleikinn breiðist yfir sviðið sem þoka og villir sýn.

Í raun er maðurinn í þroskaleysi sínu hættulegur á líkan hátt sem æstur unglingur er það. Í honum er villidýrið enn og oft stórtækt. Hann ber með sér úr örófinu hneigð sem tamin er af nauðsyn lífsbaráttunnar til öfgafullra viðbragða við hættu og ógn. Villidýrið í honum vaknar í stríði og átökum hverskonar og er allra hættulegast þegar það leggst á minnimáttar og til þess að svala frumlægum ófullnægðum hvötum. Betur væri ef hann gerði sér grein fyrir þessu og varaði sig á sjálfum sér.

Grundvallaratriðið er skilningurinn á þessu ástandi mannsins. Við verðum að horfast í augu við okkur sjálf og meta okkur rétt. Við þurfum að komast að sannleikanum um okkur sjálf og vinna út frá þekkingunni á honum.

Þekktu sjálfan þig, segir Sókrates. Sannleikurinn mun gera ykkur frjáls, segir Kristur. Þetta eru meginkenningar sem afar sterkar ástæður eru til að taka alverlega í þessu samhengi. Austræn speki talar um skyggni, aðgát (awareness) og beinir sjónum manna að heildarhyggju, sjá í stóra samhenginu. Takmarkaðar forsendur leiða til takmarkaðra lausna. Þekking, yfirsýn og rökleg hugsun eru mikilvæg verkfæri til þess að smíða gagnlegar lausnir og eftir þeim ættum við að sækjast.

Það siðgæði sem mótast best af sannleikanum um okkur mennina mun duga okkur best til þess að forðast illar tilhneigingar okkar. Dæmi um siðgæði sem byggist á mikilli persónulegri ögun er hefðbundið japanskt siðgæði, sömuleiðis faríseismi í hinum efnislega skilningi þessa orðs. Stóru trúarbrögðin eiga ýmis mis skyld siðgæðiskerfi sem þegnar þeirra leitast við að gera sér gagn að. Mælikvarðinn sem við skyldum leggja á þau kerfi sem við vildum skoða er þá sá hvaða mannskilning þau aðhyllast. Hér er teflt fram hugmyndinni um vanþroska mannsins eða „unggæði.“ Maðurinn er hvorki góður né illur í sjálfu sér. Hann er annað hvort í skilningi athafna sinna. Hann er vera í þróun og vonandi í átt til góðs í sem flestum skilningi. Í ljósi markmiðssetningar mannsins er hann kannski góður.

Siðgæði mannsins þarf að stuðla að þroska hans, varna því að hann skaði sig eða aðra og standi vörð um frelsi hans í svo miklu mæli sem mögulega er unnt án þess að það gangi yfir rétt annarra til hins sama, og einmitt þar er veltipunkturinn.

Agi mannsins þarf að koma innan að úr djúpi hugar hans. Aginn þarf að lærast honum og af því leiðir ofurmáta ábyrgð foreldra og uppalenda. Á endanum þarf manneskjan þó að samþykkja agann og verða fús til að beita honum sjálf. Sennilegast þarf hún þó stuðning samfélagsins til þess en þvingun þess er líkleg til þess að vinna gegn markmiðum sínum. Hófsemi er því þörf og festa í stöðugleika sannrar og þrautseigrar fyrirmyndar er áreiðanlega farsælust.

Agi er aðhald sem maðurinn annað hvort veitir sjálfum sér eða hann er beittur af öðrum. Xenofon, hershöfðingi sagði að aðeins sá sem hefði lært að hlýða gæti beitt aga af sanngirni og til raunhæfra markmiða. Agi sem er ósanngjarn brýtur einstaklinginn niður sem persónu. Að brjóta vilja manns undir agavald sitt er ógagnlegt og hættulegt því gremjan er líkleg til þess að sjóða uppúr fyrr eða síðar og leiðir til refsinga sem fela í sér óhjákvæmilegt tap. Sé fengið samþykki fyrir aganum á grundvelli nauðsynjarinnar er hann verkfæri til þess að skapa samtak margra, eða einbeitingu einstaklingsins og tryggja svo sem best má verða árangur viðleitinnar.

Langframa farsæld þeirra sem tileinka sér siðgæði eða aðdáun sem byggist á innra samþykki þeirra sem til horfa eru einu mögulegu staðfestingarnar á þessari hugmyndafræði. Það verður að trúa því að siðgæðið beri laun sín í sjálfu sér. Hver metur það síðan út frá eigin forsendum, en samfélagið/þjóðfélagið er vonandi nægilega glöggt á eigin hag til þess að vilja gefa því rými og jafnvel tileinka sér það í ríku mæli. Þó liggur það í meginforsendunni að maðurinn muni í vanþroska sínum eiga það til að mölva allt í kringum sig og þá sérstaklega siðgæðið. Því verða þau sem byggja á siðgæðishugsun af þessu tagi að vera þess búin að þurfa að byrja upp á nýtt. Það er lagið sem við þarf að hafa þegar vanda á verkið.

Þróun byggir á margvíslegum óförum, ógöngum og lærdómi af mistökum. Hún stöðvast ekki fyrr en hún hefur eyðilagt tiltekið þróunarferli með öllu. Á hinn bóginn er leiðin mörkuð til æ meiri fullkomnunar. Við þurfum því að efla með okkur kjark til þess að geta tekið óförum, dómgreind til þess að meta rétt orsakir þeirra og vitsmuni til þess að geta sniðið af vankanta siðgæðishugmyndanna.

Það þarf stillingu til að láta ekki bugast af andstyggð eða láta hana ekki vekja með sér illt á móti. „Hóglegt andsvar stöðvar mikla bræði,“ segir Vídalín og sá hefur mikla ábyrgð sem bregst við illindum. Þau vakna kannski sem tilfinningasprenging og sá sem verður vitni að hefur ábata af því að geta metið upplifunina og valið betur en sá sem sprengingin varð í rás framhaldsins.

Mest um vert er þó að losna við óttann sem er undirrót illrar breytni okkar og um leið orsök flestra ófara. Hverju er helst að tefla fram gegn honum? Hugrekki? Hvað veitir hugrekki? Trú á markmiðið? Já, að sjálfsögðu trú - og von um að árangur hafist eftir þessari leið. Því er haldið fram hér að ekki sé önnur leið fær en sú sem með þessum orðum er lýst. Allt annað endar í ógöngum. Með sjálfdrægni minnkum við allt og útilokum þau sem standa utan þess hrings sem við drögum um sjálf okkur. Þau verða keppinautar. Það leiðir til stríðs af einhverju tagi og í stríði ferst fólk og verðmæti glatast.

Ótti er vond tilfinning sem nærir sjálfa sig með því hún sér sífellt fleiri tilefni til þess að hræðast. En hyggjum að: Óttinn getur ekki verið heimkynni okkar. Með honum er lífið afskræming sjálfs sín. Allt sem í því er getur orðið óttalegt. Valkosturinn er að temja hann og gera hann að athuglum gæslumanni hagsmuna okkar. Það má því aðeins ske ef við erum reiðubúin að mæta óttaefnunum og afleiðingum þeirra ef svo ber undir, já kvöl og dauða, af því að sú kvöl er raunveruleg og skammvinn og dauðinn hvort eð er óhjákvæmileg ástandsbreyting, en óttinn viðvarandi og órakenndur.

En ekki er víst að trúin dugi né vonin haldi. Markmiðið sýnist vera svo langt undan; svo óendanlega langt. Meir að segja er það sem við getum kallað viðunandi ástand langt undan. Varla er hægt að segja að fyrir því dagi enn. Við þörfnumst því einhvers sem gefur okkur gleði í verkinu sjálfu. Einhvers sem sé grundvöllur framsóknarinnar að markmiði friðar og farsældar fyrir sem flesta. Þess sem býður mann velkominn til dags nýrrar vonar og verka í trú á markmiðið. Hvað getur það verið?

Það er aðeins eitt sem getur rekið út óttann. Það er elskan, kærleikurinn.

Þetta sannar ástin svo langt sem hún nær. Þú ert reiðubúinn að gera svo margt fyrir ástina þína (sem út af fyrir sig er í raun óttaleg staðreynd). Þú hættir lífi þínu fyrir ástina þína. Hennar vegna þolir þú vanvirðu, missi og sár. Hennar vegna gefur þú jafnvel aleigu þína og gerist bónbjargarmaður. – En ástin er tilfinning sem í sjálfu sér ber þætti eigingirni. Þú elskar ástina þína vegna þess sem þú heldur að hún gefi þér og þegar þú færð það ekki dofnar ástin. Ef hún snýst gegn þér umhverfist hún í hatur.

Því skulum við tala um elsku, óeigingjarnan kærleika. Elskan sér hið sanna gildi sem er fólgið í því sem elskað er. Elskan vill að það haldi gildi sínu og vaxi ef mögulegt er en umfram allt vari. Elskan er fær manninn til þess að leggja á sig nokkuð til þess að svo megi verða. Elskan er reiðubúin til fórnar.

Manninum er það meðfæddur hæfileiki að geta elskað. Nánast eins og að ganga. Maður lærir sjálfur með aðeins lítilsháttar örvun að ganga – sér að aðrir ganga, en maður þarf vegsögn til þess að stjórna vegferð sinni. Elskan getur líka villst þó hæfileikinn til þess að elska vakni svosem af sjálfu sér - af því að sjá að aðrir elska. Elskan þarf því fyrirmynd. Verkun elskunnar verður að lærast að miklu leiti. Elskan laðar okkur til góðra verka. Hún gefur sjálfsaganum forsendu, að við meiðum engan og komum því góða í verk. Hún sér í þeim sem á okkur þurfa að halda elskuverða manneskju og ásamt systur sinni viskunni getur hún breytt böli í bót, sorg í gleði, tárum í bros, vandræðum í velsæld, stríði í frið. Hún sér í gegnum skítinn manneskju sem á rétt á sæmd og lífi, von og elsku. Hún sér í gegnum ærustuna kvöl sem þarf að sefa og er reiðubúin til fórnar til þess að þetta megi verða. Hún metur eigið óhagræði, tap og miska minna en böl náungans. Það hlýtur einnig svo að verða kjósi maður sér tapið sjálfur.

Eðli elskunnar er vel lýst í kærleiksóði Páls postula I Kor 13: 4Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.  5Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. 6Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum. 7Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Sú byrði sem borin er í kærleika er létt í samanburði við það sem á mann er lagt af öðrum með þvingun eða ofbeldi. Gangi maður þannig undir annars manns byrði hefur bölið í heiminum minnkað lítið eitt. Fórn er í eðli sínu það að afsala sér einhverju í annars þágu án nokkurrar minnstu kröfu um endurgjald og er aðeins gerð af elsku til þess sem njóta á, í trú á að tilgangur náist og í von um betra líf uppfyllist að einhverju leyti að minnsta kosti.

Að elska er að hafa einhvern hjarta sér nær. Elskan hefur í sér fólgna andstæðu útilokunarinnar. Við útilokum óttaefnin en höfum sem næst okkur það sem við elskum. Elskan sameinar. Óttinn sundrar.

Að baki gömlu hústöflunum og húsagatilskipunum birtist athyglisverð hugsun um heimilið sem sérstakt menningarsamfélag. Ýmis ummæli okkar benda til tilfinningar fyrir því sama eins og þegar við segjum að við séum ekki „þannig fólk,“ eða aðrir séu „svoleiðis fólk.“ Við höfum ríkar ástæður til þess að móta heimilismenningu með meðvituðum hætti og erum næsta sjálfráða í því efni. Hjón ættu í hjúskap sínum að finna sér markmið og gildi og vinna af þrautseigju að því að móta fjölskyldulíf sitt á traustum grundvelli siðgæðis.

Sá sem elskar stígur út fyrir þægindarammann, stígur út á vettvang mannlífsins með kjarki og gleði, því að hún er á för til elskunnar sinnar.

Það þarf þrek til þess að elska. Það er erfitt. Það er eins og að ganga í þoku um villugjarna leið. Viljann til þess að halda áfram verður varðveita eins og dýrmætan loga í keri, að maður hafi eitthvað að færa á leiðarenda. Það þarf að hlú að elskunni í brjóstinu. Við þurfum því að horfa á efni elsku okkar. Við þurfum að vinna mikilvæga sigra á sjálfum okkur til þess að geta elskað og þeir fást allir í gegnum skoðun, það að sjá. Gera sig meðvitaðan um, athuga tilefni elsku okkar. Það gerist hið innra í djúpi hugans. Með því að skoða fyrirmyndir og láta þær leiða að dýpstu rótum skilningsins.

Hver hefur leitt elskuna inn í þitt líf? Hver hefur sýnt best fordæmi elskunnar? Hver hefur best kennt þér að elska? Hver hefur elskað án takmarkana?