Hvernig þjóðfélag viljum við eiginlega?

Hvernig þjóðfélag viljum við eiginlega?

Eftir borgarafundinn um fátækt í Ráðhúsi Reykjavíkur hefur þessi spurning verið að sækja að mér af sí auknum þunga. Hvernig þjóðfélag viljum við eiginlega? Á fundinum komu fram hrollvekjandi staðreyndir um ástand mála hér á landi í dag. 40.000 heimili eiga í erfiðleikum með að láta enda ná saman.
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
10. september 2010

Eftir borgarafundinn um fátækt í Ráðhúsi Reykjavíkur hefur þessi spurning verið að sækja að mér af sí auknum þunga.

Hvernig þjóðfélag viljum við eiginlega?

Á fundinum komu fram hrollvekjandi staðreyndir um ástand mála hér á landi í dag.

40.000 heimili eiga í erfiðleikum með að láta enda ná saman.

700 fjölskyldur verða bornar út af heimilim sínum á næstunni.

Og sögurnar sem fólk sagði á fundinum af eigin aðstæðum voru líka hrollvekjandi.

Neyð. Fátækt. Vonleysi. Einangrun.

Er það svona þjóðfélag sem við viljum?

Við köllum okkur stundum velferðarþjóðfélag en stöndumst þó hvergi samanburð við raunveruleg norræn velferðarþjóðfélög. Gerðum það ekki heldur á góðæristímabilinu.

Tökum dæmi:

Tannlækningar barna yngri en 18 ára - sligar fjölskyldur hér á landi, ókeypis á Norðurlöndum.

Nauðsynjavörur fyrir barnafjölskyldur - bera fullan virðisauka hér á landi, engan á Norðurlöndum.

Skólagjöld - 25.000 kr í framhaldsskóla og tvöfalt eða meira í Háskóla, engin á Norðurlöndum.

Að ekki sé nú talað um námsmannaLAUNIN sem krakkar eldri en 16 fá á Norðurlöndum, t.d. su í Danmörku - ekkert slíkt hér.

Skólabækur og skólavörur - fullt verð hér á landi, ókeypis á Norðurlöndum.

Staða öryrkja, ellílífeyrisþega, sjúklinga - draga fram lífið hér á landi, fullur stuðningur á Norðurlöndum.

Við erum svo blönk, segja menn á móti. En staðan var hin sama á tímum "góðærisins" og ekkert var gert. Ég bendi t.d. á predikun sem ég flutti árið 2006 og er að finna á tru.is um græðgina. Sömuleiðis á erindi sem ég flutti á aðalfundi Tryggingarstofnunar árið 2001 um sama mál og er örugglega að finna á vef stofnunarinnar.

Þar kemur þetta allt vel fram, löngu fyrir hrun.

Og misskiptinga auðæfanna - gleymum þeim ekki. Ég efa að nokkurn tíman hafi verið dýpri gjá staðfest milli ríkra og fátækra hér á landi en í dag.

Svona get ég lengi skrifað.

Við erum að sækja um ESB aðild núna. Væri ekki nær að senda sendinefnd þingmanna í læri t.d. til Kaupmannahafnar eða Stokkhólms til að læra hvernig á að reka mannbært samfélag?

En fyrst þurfum við auðvitað að svara þessari spurningu hvert og eitt:

Hvernig þjóðfélag viljum við eiginlega?