lol :-)

lol :-)

Sífellt stærri hluti samskipta fólks fer fram á veraldarvefnum. Þar sjást ekki ósjaldan smáorð eða skammstafanir eins og ,,lol" og fýlu- og broskarlar af ýmsum gerðum. Merking þeirra er þó síður en svo á hreinu eins og umræða um broskarla sýndi nýverið. Sjálfur hef ég alltaf tekið því sem svo að ,,lol" stæði fyrir ,,laugh out loud" sem gæti útlagst á íslensku sem ,,hlegið dátt."

Sífellt stærri hluti samskipta fólks fer fram á veraldarvefnum. Þar sjást ekki ósjaldan smáorð eða skammstafanir eins og ,,lol" og fýlu- og broskarlar af ýmsum gerðum. Merking þeirra er þó síður en svo á hreinu eins og umræða um broskarla sýndi nýverið. Sjálfur hef ég alltaf tekið því sem svo að ,,lol" stæði fyrir ,,laugh out loud" sem gæti útlagst á íslensku sem ,,hlegið dátt."

Þessi sýn mín breyttist í gær. Ágætur félagi minn sem telur sig vera af msn- og sms-kynslóðinni sagðist nota ,,lol" fyrir ,,a lot of love" eða ,,mikið af kærleika." Þegar ég spurði hann hvort að hann hefði ,,googlað" þetta þar sem ég væri viss um að Wikipedia og ýmsar aðrar síður myndu sýna fram á að almennari skilningurinn væri sá að ,,lol" snérist um hlátur en ekki kærleika, sagðist hann ekki hafa neina þörf á því að spyrja einhverja netspekinga, það ríkti málfrelsi á netinu, hann mætti skilja það sem hann skrifaði eins og hann vildi.

Í morgunn vaknaði ég upp áhyggjufullur vegna þessarar setningar. Þar sem svo vel vill til að hann er staddur á sama stað og ég gátum við rætt þetta áfram yfir morgunverði. Niðurstaða þess samtals var að við verðum sennilegast að vera sammála um að vera ósammála í þessu efni. Hann ætlar að halda sig við kærleiksútgáfuna, sem mér finnst vissulega fallegri, en ég ætla að halda mig við hlátursútgáfuna af því að ég held að það sé hinn almenni skilningur.

Þessi litli ágreiningur okkar félaganna um merkingu þriggja bókstafa er kannski vandi samfélagsins í hnotskurn. Hvað mig varðar, snýr hann ekki að því hvor okkar hefur rétt fyrir sér eða hvað einhver skammstöfun þýðir. Miklu frekar er vandinn annars vegar þessi að sumum okkar hættir til að tjá okkur á þann hátt sem við höldum að sé í takti við skilning samfélagsins. Og hins vegar er vandinn sá að sum okkar eru á þeirri skoðun að málfrelsi þýði að einstaklingurinn megi ákveða merkingu þess sem hann segir. Og þar með erum við komin í öngstræti.

Eitt af verkefnum samtímans hlýtur að vera að kanna þetta öngstræti og aðra botnlanga sem samskiptin í samfélaginu eru komin í. Við þurfum að setjast niður og greina vandann og benda á úrlausnir sem eru til þess fallnar að þjóðarskútan komist á skrið á ný. Því samfélag án samtals nær aldrei í höfn. Og slík samtöl þurfa að byggja á sameiginlegu tungumáli eða vera byggð upp á slíkan hátt að þau sem taka þátt í samtalinu skilji hugsanirnar á bak við orð hinna. Til þess þarf að brjóta niður þá múra sem hafa verið reistir á milli hópa í samfélaginu í tengslum við þá andlegu og efnahagslegu kreppu sem íslenskt samfélag er statt í. Við megum ekki leggja árar í bát, við þurfum að spýta í lófana og taka á árunum. Með sameiginlegu átaki skilum við skútunni í höfn.