Auðlindir í þágu lífsins

Auðlindir í þágu lífsins

Háværar deilur hafa staðið yfir um langt skeið á meðal þjóðarinnar um stjórnkerfi fiskveiðanna. Fiskurinn í sjónum er ekki ótakmörkuð auðlind, heldur verður að stunda veiðarnar þannig að fiskistofnar geti viðhaldið sér, blómagast og eflst. Þess vegna er það raunarlegt að í skjóli verndunar skuli þrífast stjórnkerfi sem ýtir undir brask í viðskiptum með fiskveiðiréttinn. Með því hefur þjóðin fylgst í forundran mörg undanfarin ár hvernig rétturinn til aðgangs að veiðum hefur orðið að féþúfu í orðsins fyllstu merkingu.

Almáttugur Guð. Við þökkum þér fyrir þennan dag sem við helgum sjómönnum. Gef að vér megum heyra þitt orð og það megi verða oss ljós á lífsins vegi. Fyll oss trú, von og kærleika. Í Jesú nafni Amen.

Í dag er hátíð sem tileinkuð er sjómönnum. Sjávarútvegur á Íslandi gegnir afar mikilvægu hlutverki í lífi íslenskrar þjóðar og er kjölfestan í efnislegri afkomu og samofinn menningu landsmanna. Það skiptir því miklu máli að þar sé vel að verki staðið. Miklar breytingar hafa átt sér stað í sjávarútvegi á liðnum áratugum. Þar rís hæst sú mikla tæknibylting sem orðið hefur í samabandi við veiðarnar. Skipin eru stærri og öflugri. Enn hefur þó útgerð smærri báta, sem stunda dagróðra með hefðbundnum hætti, mikla þýðingu sérstaklega fyrir búsetu og afkomu í famennari þorpum umhverfis landið. Það má aldrei gleymast að þorpin við sjávarsíðuna byggðust upp fyrst og fremst á grundvelli sjávarútvegs. Fiskurinn í sjónum var undirstaðan og veitti svo mörgum höndum í landi atvinnu. Og það má heldur aldrei gleymast að sjávarútvegurinn er borinn uppi af sjómönnum, dugnaði þeirra, þekkingu og reynslu. Og þar standa íslenskir sjómenn í fremstu röð.

Háværar deilur hafa staðið yfir um langt skeið á meðal þjóðarinnar um stjórnkerfi fiskveiðanna. Fiskurinn í sjónum er ekki ótakmörkuð auðlind, heldur verður að stunda veiðarnar þannig að fiskistofnar geti viðhaldið sér, blómagast og eflst. Þess vegna er það raunarlegt að í skjóli verndunar skuli þrífast stjórnkerfi sem ýtir undir brask í viðskiptum með fiskveiðiréttinn. Með því hefur þjóðin fylgst í forundran mörg undanfarin ár hvernig rétturinn til aðgangs að veiðum hefur orðið að féþúfu í orðsins fyllstu merkingu. Þar er ekki litið til hagsmuna sjómannanna sem allt veltur þó á og heldur ekki til byggðanna sem eiga víða allt sitt undir útgerð og fiskvinnslu. Búsetuöryggið er sett á markaðstorgið þar sem fáir ráða för og höndla sín í millum í viðskiptum með fiskikvóta og almannahagsmunir fá litlu ráðið. Það er alvarlegt að fjöregg þjóðarinnar skuli þannig vera lagt á vafasamar vogarskálar með afdrifaríkum afleiðingum fyrir svo marga. Það sjáum við svo vel þegar horft er til búsetuþróunar í smærri byggðarlögum sem hafa átt allt sitt undir blómlegum sjávarútvegi. Þær eiga í vök að verjast. Mikilvægt er að stjórnkerfi megi ríkja um veiðar sjávarfangs sem stuðli að skynsamlegri nýtingu fiskistofnanna, treysti búsetu í landinu, skarti heilbrigðum viðskiptaháttum og verði enn kjölfestan í afkomu þjóðar. Það er mikilvægt að sátt og friður megi ríkja um svo dýrmætt fjöregg eins og sjávarútvegur er.

Náttúruauðlindir til lands og sjávar er kjölfestan í lífi og búsetu íslenskrar þjóðar. Það er sjálf sköpun Guðs sem er grundvöllurinn hvort sem það er fiskur eða vatn, gras eða loft, dýr eða fuglar. Það er í slíku nábýli við sköpunina sem við þreyjum lífsbaráttuna. Þessar gjafir allar þiggjum við úr hendi Guðs óverðskuldað mannlífi til þroska og farsældar. Sköpunarsagan í Biblíunni talar svo skýrt um þetta þar sem Guð felur manninum allar gjafir sköpunar sinnar og segir honum að drottna yfir þeim. “Margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna”. Hér er skýrt kveðið að heilögu orði. Og þetta hefur verið grundvöllur nýtingar á auðlindum til lands og sjávar. Hér markar trúin skýra leið og byggir traustan sið. Jörðin og auðlindirnar eru í þágu mannsins, mannlífi til heilla og farsældar. En ábyrgðin er mikil að umgangast þessar gjafir af virðingu og nærgætni og að allir megi njóta ríkulega. Umhverfisstefna og náttúruvernd á að hvíla á slíkum gildum þar sem saman fer skynsamleg vernd og vitræn nýting og að allir megi njóta góðs af. Öfgar á hvorn veg sem er á sviði verndunar eða nýtingar skila engum árangri, heldur stuðla að sundrungu og ófriði á meðal þjóðar. Það er inn í slíkt öngstræti sem deilur í umhverfismálum hafa oft leitt.

Náttúran er ekki heilög af sjálfri sér, heldur einvörðungu í þágu mannsins lífs. Og margar siðrænar spurningar vakna þegar horft er til aðgengis fólks að náttúrunni og gersemum hennar. Ef friða á náttúruperlur fjarri mannabyggð, eiga þá engir aðrir að fá að njóta þeirra nema þeir sem hafa heilsu og styrk til þess að komast þangað? Hvað með þá sem búa við hreyfihömlun? Má slíkt fólk ekki njóta fegurðarinnar? Engin fegurð er til nema einhverjir upplifi, njóti og skynji. Á barnsárum mínum þá lá þjóðvegurinn í gegnum Almannagjá á Þingvöllum. Gjáin var þá gjarnan á góðviðrisdögum á kafi í ryki frá bílaumferðinni. En það breytti því ekki að í hvert sinn sem ekið var um gjána var sungið í bílnum hástöfum “Öxar við ána”. Það var upplifun sem fast situr í minningunni þar sem tign og fegurð, saga og menning greiptist inn í vitund barnshugans. Þetta var staður sem hafði sérstaka merkingu. Þannig eru tilfinningar fólks bundnar einstökum stöðum sem marka spor í sögu einstaklings og þjóðar. Þótt Þingvellir sé heilagur staður þá voru þar byggð mannvirki til þjónustu við líf mannsins og enn eru þar fyrirhugaðar miklar byggingaframkvæmdir. Náttúruvernd felst ekki því, að ekkert sé gert og engu sé raskað í umhverfinu. Þvert á móti felst umgengni mannsins um landið í því að njóta þess af virðingu og nærgætni, byggja og framkvæma þannig að umhverfi og náttúru sé sýnd fyllsta tillitssemi. Fyrir mörgum árum fór fram lífleg umræða um það hvort reisa skyldi þjónustumannvirki við Gullfoss. Og sitt sýndist hverjum og einum. Niðurstaðan varð sú, að þar skyldi ekki byggt af því að hús myndi skyggja á tign og fegurð fossins. Hefur um það ríkt sátt síðan. Þannig geta mismunandi sjónarmið ráðið för frá einum stað til annars.

Það vekur athygli, að menn geti óhindrað staðið að umfangsmiklum virkjunarframkvæmdum með tilheyrandi umhverfisraski á Nesjavöllum við Þingvallavatn, á Helliasheiði og í Svartsengi á Suðurnesjum án þess að nokkur maður mótmæli. Og orkuna á að nota að stórum hluta til aukinnar álframleiðslu á suðvesturhorni landsins. Álframleiðsla á Grundartanga hefur vaxið hröðum skrefum og mikil frekari áform áætluð. En Kárahnjúkavirkjun og álversbygging á Reyðarfirði eru orðnar að holdgervingi landeyðingar samkvæmt háværum mótmælum fjölmargra sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Hér verður að gæta sanngirni og heildarsjórnarmiða, að persónulegir hagsmunir ráði ekki för í mati á umhverfisáhrifum. Við viljum ganga vel um landið okkar, nýta og varðveita mannlífi til blessunar.

Einu sinni var siður, að öllu rusli var jafn óðum fleygt út um gluggann á bílnum á ferðalögum. Á skömmum tíma með stóru átaki undir kjörorðinu “Hreint land-Fagurt land” varð hér algjör umbreyting. Á æskuárum mínum í Hafnarfirði var öllu sorpi fleygt á öskuhauga sem voru í fjörunni rétt utan við bæinn. Og á sjónum tíðkaðist að öllu drasli var fleygt í sjóinn undir kjörorðinu “lengi tekur sjórinn við”. Hér hefur orðið algjör viðhorfsbreyting og nú leggja sig flestir fram um að ganga um land og sjó af virðingu. Við höfum náð á mörgum sviðum árangri í umgengni okkar við land og náttúru og því ber að fagna að almenn umhverfisvitund í daglegu lífi fer vaxandi.

Náttúrauðlindir til lands og sjávar eru ekki einnota. Þær eru líka fyrir komandi kynslóðir um ókomna framtíð. Í því felst ábyrgðin meðal annars, að drottna yfir sköpun Guðs í krafti réttlætis. Það boðar kristin trú sem hefur verið og er grundvöllur siðrænna gilda í samfélaginu. Í guðspjallinu sem ég las frá altarinu segir af Jesú og lærisveinunum á ferð í litlum báti sem lendir í miklu stormviðri. Lærisveinarnir biðja Jesú um hjálp. Já, oft hefur verið beðið heitt til sjós og óvíða í atvinnulífinu hefur bænin risið hærra en einmitt þar. Og Guð vakir yfir sjómönnum og heyrir bænir þeirra. Ég veit að trúin er mörgum sjómönnum mjög dýrmæt og reynst þeim stykur og lifandi von. Á sama hátt myndi það styrkja sambúð þjóðar og náttúru, ef kristin siðferðismið í krafti trúar fengju meira rúm í þeirri umræðu, því við erum að fjalla um sköpun Guðs sem er brauðið sem við nærumst af. Megum við þjóna Guði í í lífi og starfi mannlífi til heilla og honum til dýrðar. Guð blessi sjómenn og fjölskyldur þeirra.

Í Jesú nafni Amen.