Lífið er uppstigning, blessun og von!

Lífið er uppstigning, blessun og von!

Enn á ný eigum við Uppstigningardag, dag sem kirkjan helgar öldruðum og fer vel á því. Eða hvað er sterkari vitnisburður um lífið sem uppstigningu en einstaklingar með mörg ár í farteskinu? Einstaklingar sem hafa stigið upp aftur og aftur í þeirri vissu að lífið er uppstigning, blessun og von.

Og hann sagði við þau: „Meðan ég var enn meðal ykkar sagði ég ykkur: Allt sem ritað er um mig í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum á að rætast.“

Síðan lauk hann upp huga þeirra að þau skildu ritningarnar. Og hann sagði við þau: „Svo er skrifað að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefningu synda og hefja það í Jerúsalem. Þið eruð vottar þessa. Ég sendi ykkur andann sem faðir minn hét ykkur en verið kyrr í borginni uns þið íklæðist krafti frá hæðum.“

Síðan fór hann með þau út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þau. En það varð, meðan hann var að blessa þau, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins. En þau féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði. Og þau voru stöðugt í helgidóminum og lofuðu Guð. (Lúk 24.44-53)

Með þessum hætti lauk jarðvistardögum Jesú Krists. Hann fór svo að segja í miðjum klíðum, í miðri blessun kom þar „að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins.“ Hann sem hafði lifað sem maður, liðið sem maður, dáið sem maður – fór ekki héðan sem maður. Hann fór eins og sá sem valdið hefur, hann fór eins og sá sem hverfur en fer þó hvergi – enda er hann hér enn.

Hann minnir þau á jarðvistardagana, minnir á spádóma þá sem hann kom til að uppfylla, bendir á ritningarstaðina, skýrir dulmál orðsins „að þau skildu ritningarnar.“ Þá, rétt fyrir brottför „að þau skildu ritningarnar.“ Af því að ritningarnar eru vegvísirinn til hans alltaf og eilíflega, Orðið. Hann býr í því, það er hér, hann er hér – enn.

Og hann gefur þeim fyrirheit – hann gefur okkur fyrirheit. Fyrst kallar hann þau til vitnis – okkur til vitnis. En segir svo: „Ég sendi ykkur andann sem faðir minn hét ykkur en verið kyrr í borginni uns þið íklæðist krafti frá hæðum.“ Því lauk hann upp ritningunum að þau líka skildu hvað yrði. Og svo bara fór hann eins og sá sem fer, en fer þó hvergi. Með yfirnáttúrulegum hætti hvarf hann þeim sjónum „var upp numinn til himins.“ Og þaðan væntum við hans – eins og hann bauð þeim þá, að vænta frekari tíðinda. Tíðindanna sem við væntum enn.

Eða eins og sálmaskáldið á Kálfatjörn, Stefán Thorarensen orðar það:

Mín huggun og von,
Guðs himneski son,
vér þín væntum í skýjum.
Löng er oss biðin,
leið oss í friðinn,
upp ljúk, á vér nú knýjum.

Það má skilja Lúkas guðspjallamann sem svo að Jesús fari bara í miðri blessun, við getum allt að því séð þetta fyrir okkur á kómískan hátt, hann blessar og kviss bang búmm allt í einu er hann farinn! En kannski liggur í þeirri kómík – eins og í mörgum gáskaleik – gleðileg áminning, hér sú gleðilega áminning að blessun hans var ekki lokið, henni lýkur aldrei, hún er enn.

Séra Stefán segir í líka í sálminum góða:

Á himni’ er mín von,
þú hæsti Guðs son,
föður blessunar biður
börnunum hræddum.
Bræðrunum mæddum
svölun sendir þú niður.

Uppstigning frelsarans minnir okkur á að allt hans jarðneska líf var uppstigning frá fyrsta degi; sú uppstigning kristallast í orðum sem við þekkjum öll:

Hann var í jötu lagður lágt,
en ríkir þó á himnum hátt.

Og það er þess vegna – hans vegna: að uppstigning okkar sjálfra er möguleg. Á hverjum degi fáum við staðið upp úr syndinni, á hverjum degi fáum við staðið upp og gengið til móts við vonina. Vonina í lífinu – vonina sem skaparinn speglar svo meistaralega í vorinu, vonina sem Jesús skóp á Uppstigningardaginn fyrsta – vonina sem við eigum, hans vegna, enn.

Já, sálmurinn hans séra Stefáns á Kálfatjörn er einnig um þessa von:

Mín huggun og von
ert hafinn, Guðs son,
föður hægri til handar.
Frelsið er unnið,
fórnarblóð runnið.
Lofi allt þig, hvað er andar.

Á himni’ er mín von,
þú hæsti Guðs son,
föður blessunar biður
börnunum hræddum.
Bræðrunum mæddum
svölun sendir þú niður.

Mín huggun og von,
Guðs himneski son,
vér þín væntum í skýjum.
Löng er oss biðin,
leið oss í friðinn,
upp ljúk, á vér nú knýjum.

Enn á ný eigum við Uppstigningardag, dag sem kirkjan helgar öldruðum og fer vel á því. Eða hvað er sterkari vitnisburður um lífið sem uppstigningu en einstaklingar með mörg ár í farteskinu? Einstaklingar sem hafa stigið upp aftur og aftur í þeirri vissu að lífið er uppstigning, blessun og von. Einstaklingum sem hafa treyst orðum Jesú, farið að ráðum hans og heyrt hann segja: „verið kyrr í borginni uns þið íklæðist krafti frá hæðum.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn, og verður um aldir alda. Amen.