Samviskuraddir

Samviskuraddir

Við erum hér með tvær konur sem hlýddu ekki yfirvöldum heldur samvisku sinni. Þær töldu vilja Guðs æðri vilja yfirvalda. Hver er munurinn á þeirra gjörðum og þeirra presta er ekki telja sig geta gefið saman samkynhneigð pör vegna samvisku sinnar? Þeir líta einnig svo á að þeir eigi fremur að hlýða Guði en yfirvöldum, eða vilja fá undanþágu frá lögum til þess að geta hlýtt vilja Guðs.

Hér er hægt að horfa og hlusta á prédikunina á Youtube

Samviskuraddir Samviska konungsins: Ég er konungur Egypta og ég óttast að Hebrearnir verði brátt svo margir og sterkir að þeir geri uppreisn gegn þjóð minni. Ég verð að stoppa þá einhvern veginn en það ætlar að verða erfitt. Ég er búinn að reyna að þræla þeim út en það breytir engu. Þeir halda bara áfram að búa til fleiri börn. Skylda mín liggur gagnvart minni eigin þjóð. Þetta er kannski ekki besta lausnin, hún er grimmileg. En ef ég skipa ljósmæðrunum að drepa alla drengina þeirra í fæðingu þá hætta þeir að fjölga sér jafn hratt. Samviska mín segir mér að ég verði að gera þetta sem konungur Egypta.

Samviska ljósmæðranna: Hlutverk okkar er að gefa líf en ekki að taka líf. Við getum ekki tekið þátt í því að drepa börn jafnvel þó búið sé að skipa okkur að gera það. Samviska okkar leyfir okkur það ekki. Við getum ekki hlýtt skipun faraós. Við segjum honum bara að konurnar séu svo fljótar að fæða að allt sé þegar yfirstaðið þegar við komum á svæðið. Þá getum við þyrmt dengjunum.

Samviska prests nr. 1: Biblían segir að samkynhneigð sé röng því þar stendur að karl megi ekki liggja með karli sem kona sé og að hjónabandið sé frátekið fyrir karl og konu. Ég get því ekki gefið saman samkynheigð pör. Trúin mín leyfir mér það ekki. Samviska mín leyfir mér það ekki.

Samviska prests nr. 2: Það stendur ekkert í Bilíunni um samkynhneigð enda var það hugtak ekki til þegar bækur Biblíunnar voru ritaðar. Aftur var nokkuð um að karlar misnotuðu drengi og því mótmælir Biblían. Mér kemur kynhneigð fólks ekki við og ég gef saman þau sem vilja giftast. Samviska mín segir mér að annað sé mismunun.

Hvaða samviska er nú réttust?

Samviska lifs og dauða Látum prestana liggja milli hluta um stund og skoðum konunginn og ljósmæðurnar.

Hvorki konungurinn nér ljósmæðurnar áttu stjórnarskrávarinn rétt á frjálsri samvisku. Það voru ekki til mannréttindasáttmálar sem tryggðu þeim samviskufrelsi.

Konungurinn, Faraó hafði þó meira frelsi. Hann gat gefið skipanir og öllum bar að hlýða. Ljómæðurnar höfðu ekkert samviskufrelsi. Þeim bar að hlýða skipunum hvað sem samviska þeirra sagði.

Hvað gerir konungur sem er hræddur? Hann skipar ljósmæðrunum að drepa öll sveinbörn Hebrea við fæðingu. Hann skipar öðrum að vinna vondu verkin fyrir sig. Tveimur konum.

Hvað gera ljósmæður sem skipað er að drepa börn við fæðingu? Þær neita! Þær neita þó ekki upphátt enda voru þetta greindar konur sem vissu að þær höfðu ekkert í valdaöflin. Þær gera því það sem konur hafa gert á öllum tímum. Þær fara sína leið. Þær mótmæla friðsamlega með því að óhlýðnast faraó og koma síðan með skýringu sem gæti alveg verið sönn.

Samviskusagan Sagan er svona: Konungur Egyptalands var hræddur við hvað Hebrearnir fjölguðu sér hratt. Hann var hræddur um að þegar Hebrearnir, sem voru flóttafólk í Egyptalandi, yrðu of margir og sterkir myndu þeir ganga í lið með fjandmönnunum og berjast gegn landinu hans og yfirgefa það svo. Hann vissi að hann yrði að sjá til þess að þau hættu að fjölga sér svona hratt. Þau voru augljóslega allt of heilbrigð. Hann ákvað því að pína Hebreana meira og gera þá að þrælum. En allt kom fyrir ekki. Því meira sem Hebrearnir þræluðu, því meir fjölguðu þeir sér. Að lokum ákvað hann að nú væri nóg komið og hann yrði að fækka þessu fólki með öðrum ráðum Hann skipaði því ljósmæðrum hebresku kvennana að drepa hvert einasta sveinbarn við fæðingu en leyfa stúlkunum að lifa.

Og þar hefst sagan um Sifru og Púu, ljósmæðranna sem fengu skipunina um að drepa öll sveinbörnin.

Sifra og Púa létu ekki segja sér að drepa börn og létu drengina lifa. En þegar faraó sá að drengirnir lifðu, kallaði hann þær til sín og spurði hvers vegna þær hefðu ekki hlýtt honum. Sifra og Púa voru klárar konur og fljótar að hugsa. Þær svöruðu því að Hebresku konurnar væru svo fljótar að fæða að þær væru alltaf búnar þegar ljósmæðurnar kæmu á staðinn. Þær kæmu því alltaf of seint.

Samviska og hugrekki Ef einhver hefur einhverntíma hlýtt samvisku sinni og trú þá voru það ljósmæðurnar sem neituðu að drepa sveinbörnin.

Sifra og Púa er einar af mestu hetjum Biblíunnar en þrátt fyrir það er saga þeirra sjaldan sögð og við erum fá sem þekkjum nöfnin þeirra. Það er m.a. þeim að þakka að Móses fékk að lifa. Reyndar þurfti fimm hugrakkar konur til þess að Móse fengi að lifa; Sifru, Púu, Mirjam systur hans, móður hans og prinsessuna, dóttur faraós sem tók hann að sér. Samt er það Móse sem fær allar sögurnar. Hann varð frægur og elskaður á meðan konurnar fimm hefðu allar átt að fá í það minnsta jafn mikla ást og frægð og hann. Það er nokkuð mikil kaldhæðni að dóttir faraós tæki að sér umönnun og uppeldi eins helsta leiðtoga Hebrea og ekki er ólíklegt að hún hafi tekið mikla áhættu með því.

Samviska og trú Sifru og Púu gaf þeim hugrekki til þess að hlýða ekki skipunum þrátt fyrir að frelsi þeirra væri ekki stjórnarskrárvarið. Þær mótmæltu með því að sýna borgaralega óhlýðni, þær voru friðsamir aktivistar.

Faraó fylgdi sinni samvisku og vildi láta drepa lítil börn svo þjóð hans yrði ekki ógnað. Kannski var það samviska hans sem gaf honum hugrekkið til þess að taka þessa hræðilegu ákvörðun. Eða kannski tók hann ákvörðunina þrátt fyrir að samviskan byði honum annað.

Trúarsamviska Og þá er komið að prestunum. Einn getur ekki gefið saman samkynhneigt fólk vegna trúar sinnar og hugmynda um Biblíuna á meðan annar getur það einmitt vegna trúar sinnar og hugmynda um Biblíuna.

Ástæðan fyrir því að þessir tveir prestar líta þessa hluti svo ólíkum augum er sú að Guðsmynd þeirra er ólík, mannsskilningur þeirra er ólíkur og Biblían hefur ólíkt hlutverk eða vægi í augum þeirra.

Þjóðkirkjan er nefnilega svo breið trúarsamtök að innan hennar rúmast töluvert ólíkar skoðanir og hugmyndir um Guð og fólk. Þú getur verið í þjóðkirkjunni jafnt þó þú sért nokkuð bókstafstrúar og þó þú sért mjög frjálslynd(ur).

Samviskufrelsi Við höfum hér fjórar samviskuraddir. Það eru raddir Sifru og Púu, Faraós, prests 1. og prests 2. Af þessum röddum eru tvær sem vilja sýna borgaralega óhlýðni. Það eru ljósmæðurnar og prestur 1. Prestur 1. vill reyndar sérákvæði í lögum um að hann þurfi ekki að fylgja þeim.

Við erum hér með tvær konur sem hlýddu ekki yfirvöldum heldur samvisku sinni. Þær töldu vilja Guðs æðri vilja yfirvalda. Hver er munurinn á þeirra gjörðum og þeirra presta er ekki telja sig geta gefið saman samkynhneigð pör vegna samvisku sinnar? Þeir líta einnig svo á að þeir eigi fremur að hlýða Guði en yfirvöldum, eða vilja fá undanþágu frá lögum til þess að geta hlýtt vilja Guðs.

Ljósmæðurnar brutu landslög (skipun faraós) til þess að bjarga mannslífum. Nokkrir prestar vilja undanþágu frá landslögum til þess að geta veitt sumum þjónustu en ekki öðrum. Er virkilega hægt að bera þetta saman? Er ekki réttur manneskju til þess að ekki sé brotið á honum alltaf ríkari kröfu einstaklings til þess að fá að brjóta á einstaklingi?

Í mínum huga er þetta ekki sambærilegt.

Það getur ekki talist sami hlutur að óhlýðnast yfirvöldum til þess að bjarga mannslífum og til þess að brjóta mannréttindi. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu Þjóðanna byggist á þeirri grundvallarreglu að misrétti sé ekki leyfilegt og að öll eigum við tilkall til jafnra mannréttinda án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna. Þar kemur einnig fram að frelsi til að láta í ljós trú eða skoðun sé háð takmörkunum sem fram koma í lögum og eru nauðsynlegar m.a. til að verja grundvallarréttindi annarra.

Það er ekki sjálfsagt að trú- og lífsskoðunarfélög hafi heimild til þess að gefa saman hjón. Prestar Þjóðkirkjunnar hafa heimild til þess ásamt forstöðufólki nokkurra trú- og lífsskoðunarfélaga. Það er misjafnt í þessum félögum hvort vígslufólk þar gefi saman samkynhneigð pör eða ekki. Ég get ekki séð annað en að þau sem á annað borð hafi vígsluleyfi eigi að fara að landslögum og gefa saman pör óháð kynhneigð fólks ellegar eigi þau ekki að hafa þetta leyfi. Það er eina leiðin til þess að koma í veg fyrir mismunun.

Hverjar eru þínar samviskuspurningar? Hefur þú þurft að óhlýðnast yfirvöldum vegna samvisku þinnar?

Við lendum flest í því einhvern tíma að þurfa að hlýða rödd samvisku okkar þó það kalli ekki alltaf á óhlýðni við yfirvöld. Við getum upplifað okkur aðþrengd og látum stundum undan einhverju sem samviska okkar er ekki sátt við. Það held ég að við þekkjum öll. Ég þekk það í það minnsta vel.

En við getum upplifað það á Íslandi að finnast við verða að sýna borgaralega óhlýðni. Mér dettur t.d. í hug ýmislegt er varðar flóttafólk.

Við sem erum svo lánsöm að búa í lýðræðisríki þar sem stjórnarskráin ver rétt okkar allra til frjálsrar hugsunar og skoðana, eigum val um það hvernig við nýtum okkur þetta frelsi. Því er ábyrgð okkar mikil. Það er á okkar ábyrgð að nýta þetta frelsi til góðs. Að nýta þetta frelsi ekki til þess að mismuna heldur til þess að hlúa að mannréttindum og breiða út kærleika Guðs til allra.

Þannig fæðum við fram Guðsríki á hverjum degi eins og Sifra og Púa þegar þær gáfu drengjunum líf. Amen.