Framhald af jólaguðspjallinu

Framhald af jólaguðspjallinu

Þetta er mikil hættuför. Margir einstaklingar deyja á leiðinni. Þau hitta líka fullt af góðu og hjálpsömu fólki og alltaf er eins og “engill” komi þeim til bjargar á ögurstundu. Þegar stutt er eftir niður á höfn fæðist lítil stúlka í skítugu rúmi á enn skítugra herbergi gistihúss sem er að hruni komið. Þessi lita stúlka getur orðið frelsari heimsins ef hún lifir.

Mannanna börn Gleðilegt ár! Árið er 2027 og við erum stödd í Englandi. Heimurinn er sundurtættur og ömurlegur. Stríð og ofbeldi eru alls ráðandi. Innflytjendur eru taldir af hinu illa og sendir til baka úr landi eða drepnir. Dagsbirtan nær aldrei almennilega í gegn, eldar loga, bílar eru sprengdir í loft upp. Og heimurinn syrgir nú að yngsta manneskja veraldar sé látin, 18 ára og nokkurra mánaða gömul. Ófrjósemi fólks er algjör og engin börn hafa fæðst í 18 ár.

Fyrrum aðgerðasinni flækist inn í innflytjendahópinn “Fiskana” sem er stjórnað af gamalli kærustu og fyrrum barnsmóður hans. En þau misstu barnið sitt og sambandið við hvort annað upp frá því. Þar hittir hann unga stúlku sem á von á barni. Þessi stúlka er innflytjandi og veit að ef það kemst upp að hún sé barnshafandi þá verið barnið hennar tekið af henni og sagt vera barn enskrar konu. Eina leiðin til að bjarga barninu og móður þess er að koma því í bát yfir sundið þar sem hún kemst í skjól hjá mannúðarsamtökum. Þau hafa á sínum snærum vísindafólk sem getur skoðað konuna og nýtt sér upplýsingarnar um hana til þess að bjarga mannkyninu sem er að deyja út.

Þetta er mikil hættuför. Margir einstaklingar deyja á leiðinni. Þau hitta líka fullt af góðu og hjálpsömu fólki og alltaf er eins og “engill” komi þeim til bjargar á ögurstundu.

Þegar stutt er eftir niður á höfn fæðist lítil stúlka í skítugu rúmi á  enn skítugra herbergi gistihúss sem er að hruni komið.

Þessi lita stúlka getur orðið frelsari heimsins ef hún lifir. Þau komast að lokum við illan leik niður á höfn og um borð í lítinn árabát. Þegar þau eru langt komin yfir sundið deyr bjargvætturinn. Hann hefur komið þeim í bátinn og hlutverki hans er lokið. Mæðgurnar eru einar eftir.

En þær eru um borð í bát á lygnum sjó og hinum megin býður þeirra vonandi eitthvað gott. Framtíð þeirra og framtíð alls mannkyns. ---

Þetta er lýsing á kvikmyndinni “Children of men” í leikstjórn Alfonso Cuarón frá 2006 og er hún gerð eftir skáldsögu P.D James frá 1992.

Framhald af jólaguðspjallinu Þessi saga getur verið ein leið til þess að segja frá því sem gerðist í jólaguðspjallinu. Hvernig bjargvætturinn Jesús, kom í heiminn. Hvernig Guð gerðist manneskja.

Þetta er reyndar frekar ofbeldisfull og dimm kvikmynd. Annað en jólaguðspjallið sem er svo bjart.

Eða hvað? Er það svo bjart?

Í dag fáum við að heyra framhaldið af jólaguðspjallinu og það er ekki bjart. Þetta er skelfileg saga um hræddan kóng sem kannast ekki við annað vald en hið veraldlega og lætur því drepa alla unga sveina í Betlehem og nágrenni hennar af ótta við að missa völdin.

Þetta er ekkert sérstaklega falleg saga, svona í Biblíunni. Jesúbarnið bjargaðist vissulega þar sem foreldrarnir flúðu með það til Egyptalands en mörg börn dóu.

María og Jósef vernduðu barnið sitt og fengu við það hjálp (engils). En mér verður hugsað til allra hinna barnanna sem dóu vegna hans sem átti að frelsa okkur. Mér verður hugsað til alls ofbeldisins sem átti sér stað vegna þessa litla barns.

Hvernig kemur þetta heim og saman? Var ekki hægt að bjarga þessum börnum líka? Bjargar Guð bara sér og sínum?

Nú vitum við ekki nákvæmlega hversu stór hluti af því sem kemur fram í þessu guðspjalli á sér sagnfræðilega stoð í raunveruleikanum og hvað er helgisaga. Mikið af sögum Biblíunnar eru helgisögur eins og t.d. sjálft jólaguðspjallið eins og það hefur varðveist í Lúkasar- og Matteusarguðspjalli.

Helgisögur snúast ekki um sagnfræði eða ytra form atburðanna heldur gegna þær því hlutverki að koma einhverri dýpri merkingu á framfæri m.a. með táknum. Þannig fjallar jólaguðspjallið um það að Guð gerðist manneskja. Guðspjallið fjallar ekki um það sagnfræðilega en allt sem gerist í sögunni gegnir einhverjum dýpri tilgangi og táknar eitthvað eins og reyndar á við um flestar sögur, bæði sannar og lognar.

Þannig tákna englarnir í jólaguðspjallinu, og reyndar í Biblíunni allri, sendiboða Guðs. Það kemur hvergi fram að þeir séu með vængi heldur er það eitthvað sem hefur bæst við síðar og gerir englana enn meira spennandi. Ef engillinn er sendiboði þá komast skilaboðin fyrr á staðinn ef hann er með vængi. Það segir sig jú sjálft. Fjárhúsið táknar hlýju og öryggi en líka fátækt og erfiðleika. Starnan getur táknað ljósið sem yfirvinnur myrkrið og að okkur er leiðbeint af æðri mætti ef við munum eftir því að líta upp.

Og mitt í þessu öllu fæðist lítið barn sem boðar von. Það boðar að lífið sigrar dauðann. Að ljósið er sterkara en myrkrið. Að Guð gerðist manneskja.

En gleði litlu fjölskyldunnar stóð ekki lengi því rétt þegar barnið var fætt kom sendiboði Guðs (engill) og sagði henni að flýja til Egyptalands því brátt yrði barnið þeirra í mikilli hættu í Betlehem.

Hvort þetta sé sagnfræðilega rétt munum við aldei getað fullvissað okkur um. En merking þessarar sögu er m.a. að þegar Guð gerðist manneskja og kom inn í þennan heim þá voru aðstæðurnar langt frá því að vera fullkomnar. Meira að segja lítil börn voru drepin vegna óöruggra konunga. Þessi saga minnir okkur á að þetta er ekki aðeins einstakur atburður sem átti sér stað fyrir langa löngu í fjarlægu landi. Á hverjum degi eru börn einhvers staðar í heiminum sem eru í hættu vegna ofbeldis, vegna misnotkunar, vegna fullorðins fólks sem ekki er fært um að hugsa um börnin sín, vegna fátæktar, vegna stríða.

Það er hlutverk fullorðna fólksins að vernda börn. Þar sem börn fara illa hefur fullorðið fólk yfirleitt brugðist.

Guð Ég túi ekki á Guð sem lætur fólk deyja. Þannig Guð gæti ekki gefið okkur líf. Þannig Guð gæti ekki gefið okkur bjarta stjörnu, engla og lítið barn. Ég trúi því ekki að það hafi verið Guði að kenna að Heródes þoldi ekki sögusagnir um annan kóng og lét því af sinni alræmdu grimmd, drepa alla stráka á ákveðnum aldri?

Ég trúi ekki á Guð sem stýrir öllu því sem gerist í þessum heimi eins og við séum viljalausar leikbrúður. Ég trúi á Guð sem gaf okkur frjálsan vilja, til þess að velja gott eða illt. Til þess að fylgja Guðs vilja eða ekki. Til þess að trúa á Guð eða ekki.

Það er hægt að segja þessa sögu um fæðingu Jesú Krists og það sem gerðist í kjölfarið á margan hátt. Sögurnar sem við lesum um jólin eru þær sem hafa varðveist í Biblíunni. Ef Guð kæmi í heiminn sem manneskja í dag þá er ekki víst að við myndum segja söguna á sama hátt og Lúkas og Matteus guðspjallamenn. Vonandi myndum við ekki segja hana eins og í myndinni “Children of men” en ætli Jósef myndi ekki senda sms eins og segir í Baggalútslaginu um Jesús litla ef hann væri að fæðast í dag. Amen.