Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Meðan launamunur kynjanna er eins og hann er, þá er fyrir miklu að berjast. Það er ekki ásættanlegt að konur hafi lægri laun en karlar og það er ekki ásættanlegt að karlar fái frekar störf en konur, sérstaklega innan kirkjunnar, en staðreyndin er sú að á síðast liðnu ári hafa 11 karlar fengið prestsstörf innan kirkjunnar, en 7 konur.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er haldinn hátíðlegur 8. mars ár hvert og þá er vert að íhuga hvert baráttumál kvenna séu í dag á því Herrans ári 2015. Í ár höldum við upp á það að 100 ár eru liðin frá því konur fengu kosningarétt á Íslandi. 100 ár eru ekki langur tími þó ef til vill finnist okkur að svo ótal margt og mikið hafi gerst á þessum árum í réttindum kvenna.

Konur höfðu þá nokkru áður fengið embættisgengi á Íslandi og ýmis réttindamál kvenna höfðu verið áhugamál fyrstu íslensku ráðherranna, réttindamál, sem okkur finnast sjálfsögð í dag.

Við höfum náð langt á mörgum sviðum og má segja að nú sé ekkert það vígi eftir varðandi stöður þjóðfélagsins sem eftir er að sigra. Konur hafa skipað öll æðstu embætti þjóðarinnar. Þær hafa verið sendiherrar, ráðherrar, bankstjórar, forseti lýðveldisins og nú skipar kona embætti biskups Íslands. En er þá fyrir nokkru að berjast á alþjóðabaráttudegi?

Já, svo sannarlega! Meðan launamunur kynjanna er eins og hann er, þá er fyrir miklu að berjast. Það er ekki ásættanlegt að konur hafi lægri laun en karlar og það er ekki ásættanlegt að karlar fái frekar störf en konur, sérstaklega innan kirkjunnar, en staðreyndin er sú að á síðast liðnu ári hafa 11 karlar fengið prestsstörf innan kirkjunnar, en 7 konur. Staðan er verri þegar litið er til veitinga í sóknarprestsstöður en á s.l. ári fengu 4 karlar sóknarprestsstöður, en 2 konur. Þetta er slæmt í ljósi þess að á Íslandi eru aðeins 25% sóknarpresta konur. Kirkjan hefur sannarlega fundið fyrir því að prestsþjónusta kvenna hefur breytt miklu í starfi hennar og nú þykir mörgum það sjálfsagður möguleiki að geta leitað hvort sem er til konu eða karls þegar fólk þarfnast prestsþjónustu.

Því er afar mikilvægt að kirkjan haldi vöku sinni á þessu sviði.

Á alþjóðabaráttudegi kvenna þurfum við öll að huga að því sem er að gerast í þjóðfélagi okkar. Heimilisofbeldi, mansal og nauðganir eru viðvarandi vandamál í samfélagi okkar og gegn þeirri vá þurfum við sífellt að berjast.

Fyrir 80 árum var í fyrsta skipti haldinn hér á landi alþjóðlegur bænadagur kvenna. Hefur hann verið haldinn hér á landi fyrsta föstudaginn í mars og hefur það verið á hinum samkirkjulega vettvangi. Í ár eru það konur frá Bahamaeyjum sem færa okkur efnið. Bahamaeyjar eru álíka fjölmennar og Ísland og þar er kirkjulíf í miklum blóma. Eru það aðallega baptistar sem halda þar uppi afar litríku og fjörlegu guðsþjónustulífi þar sem tónlistin er í fyrirrúmi.

Við skulum nota alþjóðlegan baráttudag kvenna til að biðja fyrir jafnrétti og mannréttindum um allan heim. Og við skulum leggja okkar að mörkum um að gera heiminn örlítið betri í dag, en hann var í gær.