Brauð, björg og biblíumaraþon

Brauð, björg og biblíumaraþon

Það voru magnaðar umræður, sem komu í kjölfar leiks, sem farið var í í tímanum, leikur sem hjálparstarf kirkjunnar útbjó og fékk unga fólkið til þess að skynja og átta sig betur á misskiptingu gæða þessa heims. Það er í raun mikil misskipting. Af hverju skiptir Guð ekki þessum gæðum jafnt og málið er dautt?

“Feður yðar átu manna í eyðimörkinni, en þeir dóu.” Höfundur Jóhannesarguðspjalls var samkvæmt virtri fræðimennsku gyðingur. Hví er hægt að álykta það? Jú, hann virðist vera mjög kunnugur Gamla testamentinu eins og guðspjallstextinn í dag ber vitni um. Þar fyrir utan þekkir höfundur vel til hátíða gyðinga, gyðinglegra siða og venja, það er nokkuð, sem fólk kemst vel að með því að lesa guðspjallið í heild sinni og ekki dreg ég úr ykkur að gera það.

En í guðspjallstexta dagsins kemur það skýrt fram að höfundurinn þekkir vel til sögu Ísraelsþjóðar og þeirrar raunar, sem hún upplifði í eyðimörkinni forðum. Sú saga er merkileg og til þess að við áttum okkur betur á lífsins brauði, að þá er ágætt að rifja aðeins upp merkilega mannafrásögn.

Þegar Ísraelsþjóð hafði flúið úr ánauð Egypta var hún leidd inn í eyðimörkina. Þar kvartaði hún og kveinaði og horfði meira að segja löngunaraugum aftur til Egyptalands. Hún áleit sig svikna, en leiðtoginn Móse hélt ró sinni. Guð reyndi þjóðina í eyðimörkinni, var hún tilbúin að halda lögmálið?

Nei, en hins vegar lagði hún aðallega fram kröfur. Guð lagði sig fram um að mæta þjóðinni með því að útvega hreint vatn, lynghænsn sem og manna sem þýðir “hvað er þetta” en það var einmitt viðkvæði fólksins þegar það sá þetta undur koma niður frá himni. Manna voru lítil hnöttótt korn eða kúlur, sem minntu helst á hagl.

Kornið var sætt á bragðið og það var bakað úr því brauð. Þannig stóð Guð við sín fyrirheit. Móses hafði meira að segja fengið þau fyrirmæli að setja krús af manna inn í samfundatjaldið, sem átti að minna fólkið á það hvernig Guð fæddi það í eyðimörkinni. Það átti að muna það rétt eins og við eigum alltaf að muna þá máltíð, sem Jesús Kristur stofnsetti hér á jörðu og við göngum reglulega til í kirkju hans.

Það segir síðan frá því í 4. mósebók að eftir því sem fram liðu stundir dóu öll þau sem yfirgefið höfðu Egyptaland nema Kaleb, Jósúa og Móse, og þau sem fæddust í eyðimörkinni lifðu.

Jóhannes guðspjallamaður er þar með að vísa til hins nýja sáttmála Guðs í Jesú Kristi, sem er brauð lífsins, það er sáttmáli sem hefur tekið við af hinum Gamla, sem þjóðin útvalda braut og tilheyrir nú fortíðinni í huga kristinna manna. Það er Kristur, sem hefur tekið við og tilvist hans felur í sér sáttmála, sem mun aldrei að eilífu deyja. Þannig verður það þrátt fyrir tilætlunarsemi nútímamanneskjunnar, sem er ekki ólík þeirri sem ísraelsþjóð lét í ljós í eyðimörkinni forðum. Það er lítið sem má bjáta á þegar við erum farin að kvarta og kveina. Þar með er ég ekki að gera lítið úr erfiðleikum okkar, en stundum þurfum við að átta okkur á því hvað eru í raun erfiðleikar og hvað ekki.

Manni verður gjarnan hugsað til forfeðranna, sem bjuggu í köldum kofum og borðuðu það sem á borð var lagt og var til þá stundina. Það verður svo oft þannig að þegar hagur vænkast, að þá verða kröfurnar meiri og skuggi fellur á þakklætið vegna þess að allt virðist svo sjálfgefið. Ekkert er sjálfgefið, ekki einu sinni trúin á Guð, það þarf virkilega að hafa fyrir henni eins og lífinu sjálfu, sé það gert þá lærum við að þekkja hvers virði lífið er, þá sjáum við lífið í því ljósi að það ásamt öllu öðru eru gjafir Guðs, hann gefur lífið, fæðir og blessar.

Mörgum öldum eftir atburðinn í eyðimörkinni situr Jesús Kristur út í óbyggðum og mannfjöldinn var þreyttur og hungraður. Jesús spyr hvar hægt sé að kaupa brauð og sú spurning var til þess að reyna mannskapinn rétt eins og Guð gerði forðum í eyðimörkinni.

Hvar er sjálfsbjargarviðleitni ykkar? Eruð þið til í að leggja eitthvað á ykkur? Á ég að sjá fyrir öllu? Og lærisveinar Jesú uppgötvuðu þá eilitla vonarglætu í nesti ungs manns, tvö byggbrauð og fimm fiskar. Brauð og fiskar, það eru mikil tákn innan kristinnar kirkju, enda djúp merking á bak við þau.

Brauðið er áberandi í orðum Jesú í guðspjallstexta dagsins, þar sem hann kennir sig við það, ég er brauð lífsins. Það er ekkert óvenjulegt við það að brauðið hafi verið mikilvægt og að frelsarinn hafi notað það sem líkingu fyrir líkama sinn. Brauðið var mikilvægasta fæðutegund ísraelsmanna. Konurnar bökuðu brauð á hverjum degi, brauð var dagleg næring.

Fiskurinn er eitt elsta táknið um nafn Krists, fyrstu bókstafirnir í grísku setningunni “Jesús Kristur Guðs sonur frelsarinn” mynda orðið fiskur á grísku. Fiskurinn var jafnframt felutákn kristinna manna á ofsóknartímum og þar fyrir utan var fiskurinn ódýr og algeng næring og kom sér afar vel fyrir fátækt fólk.

Í óbyggðinni þakkaði Jesús góðum gjafara fyrir það sem til var, og það margfaldaðist þannig að allt fólkið varð mett og töluvert gekk af, leifarnar fylltu tólf körfur.

Um var að ræða stórbrotið kraftaverk Guðssonarins, sem mætti neyðinni með því að gefa sjálfan sig, ég er brauð lífsins, brauðið sem margfaldast, sem fer á milli fólks og seður sálir.

Og allir fengu að borða. Hvernig er það með hið veraldlega brauð. Fá allir jafnt í heiminum? Við vorum að ræða þau mál við nemendur í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti um daginn ég og nývígður sr. Ólafur Jóhann Borgþórsson prestur hér í Seljakirkju.

Það voru magnaðar umræður, sem komu í kjölfar leiks, sem farið var í í tímanum, leikur sem hjálparstarf kirkjunnar útbjó og fékk unga fólkið til þess að skynja og átta sig betur á misskiptingu gæða þessa heims. Það er í raun mikil misskipting. Af hverju skiptir Guð ekki þessum gæðum jafnt og málið er dautt? Og þá spyr ég sömuleiðis: Af hverju sendi Guð ekki ísraelsmenn bara strax inn í fyrirheitna landið?

Erum við bættari með það að fá allt upp í hendurnar? Værum við eitthvað betri ef við værum öll vafin inn í bómull? Í því sambandi var komið inn á það í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti hvort það væri í raun sniðugt hjá vestrænum samfélögum að senda látlaust peninga og mat til vanþróaðra ríkja. Raunin er sú að það er ekki lausnin. Lengi vel var það ráðið og því miður lét spilling stundum á sér kræla í því sambandi. Gjafirnar komust ekki alltaf alla leið og lentu þá á vitlausum og misvitrum stöðum.

Það er í mun meiri mæli farin önnur leið í dag hvað hjálparstarf snertir. Hún er sú að senda fulltrúa til vanþróaðra landa til þess að kenna innfæddum að vinna úr því sem þeir hafa. Öll ríki eiga sinn jarðveg, jafnvel auðlindir, það er bara spurning hvort þau hafi þekkingu eða mátt til þess að koma auga á þær og nýta þær. Ég hitti mann að máli um daginn, sem var á leið til Afríku með heilt skip, þar sem hann ætlaði að kenna þarlendum að veiða fisk, hann ætlaði að sýna þeim mun hentugri veiðarfæri en þeir höfðu notað til þessa. Alveg magnað.

Hjálparstarf kirkjunnar sendir sitt fólk út af örkinni til þess að kenna fólki í Afríku og víðar að byggja brunna, gera fólkið sjálfbjarga, kristniboðssambandið sendir fólk af stað til þess að veita innfæddum grunnmenntun, skólar stofnsettir. Fólk finnur ekki sjálfsvirðingu hjá sér með því að vera stöðugt og endalaust þiggjendur, einstaklingurinn þráir alltaf sjálfstæði, það getur að sjálfsögðu skipt máli að gefa brauð í upphafi, en það gengur aldrei endalaust.

Og hver er svo lausnin til framtíðar? Það er þekking, það er menntun, það er sterkasta leiðin, kenna fólki að nýta það sem það hefur. Það að mata viðheldur vanda, við þekkjum það einnig í vestrænum velferðarsamfélögum, fólk sem er matað, fólk sem þarf ekki að hafa fyrir neinu er lengur að komast út úr því neti, sem það hefur flækst í.

Jesús var kennari, hann lagði mikið upp úr þekkingu, hann gaf sig allan í að koma vísdóm sínum áleiðis og hann fann að áheyrendahópnum þótti gott að heyra sögur, þess vegna matreiddi hann vísdóminn ósjaldan á þann hátt. Hún er kunn dæmisagan af því þegar bóndi nokkur gekk út í akur sinn til þess að sá. Sumt af korninu féll í götuslóða og fuglar himins kroppuðu það upp. Kornið féll líka í grýttan jarðveg, þar sem það náði ekki rótfestu og hafði ekkert vatn þannig að það skrælnaði og þá féll eitthvað af korninu í góðan jarðveg og þar óx það, dafnaði og þroskaðist.

Þessa dæmisögu ákvað Jesús að útskýra nánar. Leyndardómurinn í sögunni er um það sem gerist í huga fólks þegar það heyrir orð Guðs. Sáðkornið er orð Guðs, götuslóðinn er fólkið, sem heyrir orðið. Grýtti jarðvegurinn er eins og fólkið sem heyrir orðið og spennist upp en það er rótlaust, það trúir um stund en um leið og eitthvað bjátar á gefst það upp og stekkur í burtu.

Góði jarðvegurinn sýnir okkur fólkið, sem tekur fagnandi á móti orði Guðs og stendur stöðugt. Það heyrir orðið og tekur það alvarlega, lætur það leiðbeina sér og uppskeran verður margföld.

Í þeim skilningi margfaldaðist brauðið, sem Jesús Kristur deildi út í óbyggðunum forðum, það að taka við sjálfu orðinu, sem varð hold, vekur okkur m.a. til meðvitundar um það hvaða leið sé best að fara til þess að hjálpa náunganum, orðið veitir huga og hjarta kraft til þess að fara á milli og láta gott af sér leiða. Slíkur kraftur hefur einmitt átt sér stað hér í hverfinu að undanförnu og hér í kirkjunni síðastliðna nótt. Ungmenni í æskulýðsfélaginu SELA í Seljakirkju hafa gengið í hús og safnað áheitum. Fólk hefur heitið á þau að lesa Biblíuna stanslaust heila nótt í kirkjunni.

Ágóði áheita rennur síðan til hjálparstarfs kirkjunnar. Þetta heilnæma verkefni er fagnaðarerindið í virkni og unga fólkið á hrós skilið og þökk. Þarna erum við að tala um það þegar fólk er að viða að sér þekkingu um leið og það leggur samfélagi sínu lið, allt í einum pakka og hver er forsendan það er orðið eilífa, sem vekur hug, sem mótar, sem gefur líf og fæðir.

Lögmál hefur fyrir Jesú Krist breyst í fagnaðarerindi rétt eins og vatnið í brúðkaupinu í Kana, sem varð að víni. Það þarf að hafa fyrir því að meðtaka það, þekkja það, það krefst þolinmæði, það krefst eftirfylgdar eins og fermingarbörnin hér í kirkjunni hafa lært svo vel um í vetur, við megum ekki gefast upp í eyðimörkinni, föstutíminn minnir okkur á það. Jesús Kristur sýndi okkur styrk og mátt andans í eyðimörkinni, þar sem slægur illvirkinn reyndi að steypa honum af stóli, þar sýndi frelsarinn mikilvægi þess að eiga styrkan anda, sem nærist best á því góða brauði, sem kennt er við lífið.